2019 Breiðablik mætti París St. Germain árið 2019 og gæti nú aftur mætt franska meistaraliðinu. Kristín Dís Árnadóttir er hér í heimaleiknum.
2019 Breiðablik mætti París St. Germain árið 2019 og gæti nú aftur mætt franska meistaraliðinu. Kristín Dís Árnadóttir er hér í heimaleiknum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Meistaradeildin Kristján Jónsson Gunnar Egill Daníelsson Árangri kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu fylgir fjárhagslegur ávinningur. Liðið er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa farið í gegnum tvær umferðir í keppninni.

Meistaradeildin

Kristján Jónsson

Gunnar Egill Daníelsson

Árangri kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu fylgir fjárhagslegur ávinningur. Liðið er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa farið í gegnum tvær umferðir í keppninni.

Um langa hríð hefur árangur í Evrópukeppnum félagsliða í karlaflokki skilað félögum miklum tekjum. Upphæðirnar fyrir þau lið sem komast langt í keppninni, alla jafna stærstu félög í Evrópu, eru himinháar. Hjá íslensku karlaliðunum hefur verið um búbót að ræða þegar þeim hefur tekist að slá út einn til tvo andstæðinga.

Hjá konunum hefur fjárhagslegur ávinningur í Evrópukeppnum ekki verið umtalsverður þar til nú. Áhugi sjónvarpsáhorfenda í álfunni á Meistaradeild kvenna hefur aukist til muna. Fyrir vikið var fyrirkomulagi keppninnar nú breytt og er notast við riðlakeppni eins og hjá körlunum. Áður var útsláttarfyrirkomulag notað í Meistaradeild kvenna, líkt og unnendur boltagreina þekkja úr bikarkeppnum. Með riðlakeppninni er leikjum í keppninni fjölgað og umgjörðin verður áhugaverðari fyrir sjónvarpsstöðvar. Í þeim geira eru fyrirtækin nú tilbúin til að greiða mun hærra verð en áður fyrir sjónvarpsréttinn að Meistaradeild kvenna.

Þar sem um nýtt landslag er að ræða hefur upphæðin sem Breiðablik fær í sinn hlut ekki verið á hreinu en talið var að með því að komast í riðlakeppnina hefði liðið tryggt sér 76 milljónir íslenskra króna. Morgunblaðið bar þetta undir Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra Breiðabliks.

„Þetta er einhvers staðar á milli 60 og 70 milljónir. Við vorum náttúrlega einnig búin að vinna okkur inn pening fyrr í keppninni, þannig að þessi upphæð er líklega nærri lagi þegar við teljum allt til,“ sagði Eysteinn í gær en bendir jafnframt á að ekki sé um hreinan hagnað að ræða því kostnaður við þátttöku í keppninni sé einnig mikill.

„En auðvitað er töluverður kostnaður á móti. Fólk verður að átta sig á því að þetta er ekki hreinn hagnaður. Við erum að fara í þessa leiki í riðlakeppninni og það eru ákveðnar kvaðir og kostnaður sem koma á móti þar. Flug, þar á meðal leiguflug, og fleira. Það verður hellings kostnaður líka,“ sagði Eysteinn.

Geta ekki dregist á móti Lyon

Íslenskt knattspyrnulið hefur ekki áður náð inn í riðlakeppni í Evrópukeppnunum. Blikar munu því taka ný skref í íslenskri knattspyrnu. Rétt er hins vegar að halda því til haga að þar með er ekki endilega sagt að um besta árangurinn sé að ræða til þessa. Kvennalið Breiðabliks hefur komist í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar en þá var notast við útsláttarfyrirkomulagið. Var það haustið 2006 en í 8-liða úrslitum féll Breiðablik úr keppni gegn enska stórliðinu Arsenal. Á mánudaginn verður dregið í riðlana í riðlakeppninni og er Breiðablik í öðrum styrkleikaflokki. Liðið nýtur þess væntanlega að hafa staðið sig ágætlega í Evrópuleikjum í gegnum tíðina. Liðið er í sama styrkleikaflokki og Arsenal, Lyon og Wolfsburg. Ekki er nema ár síðan Lyon og Wolfsburg voru sterkustu liðin í Evrópu og höfðu verið það í nokkur ár. Sara Björk Gunnarsdóttir er samningsbundin Lyon.

Í efsta styrkleikaflokki eru Evrópumeistararnir í Barcelona, París Saint-Germain, Bayern München og Chelsea.

„Þetta skýrist auðvitað eftir helgi en svona fyrir sjálfan mig væri rosalega gaman að mæta Bayern. Þessi fjögur sterkustu lið eru auðvitað í hæsta styrkleikaflokki þannig að við fáum Bayern, Chelsea, Barcelona eða PSG. Þetta eru allt frábær lið þannig að það er alveg eins gott að fá bara besta liðið, Bayern München,“ sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson í samtali við mbl.is á fimmtudagskvöldið. Vilhjálmur nefnir ekki Bayern út í loftið því þar leikur dóttir hans, Karólína Lea. Hún kallaðist á við föður sinn yfir hafið í gær með hjálp samfélagsmiðla: „Það væri ekki leiðinlegt að lenda á móti pabba sínum,“ skrifaði Karólína á Twitter í gær en hún átti þátt í sigri Breiðabliks á Íslandsmótinu í fyrra.

Spenntar fyrir Chelsea

„Við þurfum bara að mæta með kassann út í þessa leiki, mæta sem sigurvegarar. Við megum ekki vera saddar núna, við erum komnar þetta langt og viljum auðvitað halda áfram. Þetta verður spennandi að sjá á mánudaginn þegar það verður dregið,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is og sagðist alveg geta hugsað sér að mæta Chelsea í riðlakeppninni. „Við vorum aðeins að ræða þetta, ég og Kristín [Dís Árnadóttir] systir, og við erum svolítið spenntar fyrir því að fá Chelsea, ensku meistarana. Ég held að það væri alveg ævintýri.“