[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hilmar Pétursson fæddist 13. september 1926 í gamla torfbænum á Ingveldarstöðum í Skarðshreppi í Skagafirði, sonur hjónanna Péturs Lárussonar bónda og Sigríðar Bjargar Sveinsdóttur.

Hilmar Pétursson fæddist 13. september 1926 í gamla torfbænum á Ingveldarstöðum í Skarðshreppi í Skagafirði, sonur hjónanna Péturs Lárussonar bónda og Sigríðar Bjargar Sveinsdóttur. Hann var elstur fimm systkina og fjölskyldan flutti fljótlega að Steini á Reykjaströnd þar sem hann ólst upp.

Eins og títt var á þessum árum var skólaganga af skornum skammti og Hilmar var í farskóla á árunum 1936-40. „Farskólinn var þannig að kennarinn og nemendur gistu um skeið á einum bæ og síðan eftir nokkurn tíma fóru þau á næsta bæ.“ Hilmar segist muna eftir því að stundum hafi verið leitað að lús á krökkunum, ef vera skyldi að óværan hefði borist frá einhverjum öðrum bæ í sveitinni. En þótt formlegri menntun væri áfátt, var mikið lesið í sveitinni. „Kristín, móðir mín, lagði alltaf mikið upp úr menntun og lestri,“ segir Hilmar og hann bjó að því uppeldi alla tíð.

Hilmar gekk í gagnfræðaskóla á Sauðárkróki á árunum 1941-43 og fór síðan einn vetur á Héraðsskólann á Laugarvatni og var þar eitt ár 1944-45, en þá var Bjarni Bjarnason fv. alþingimaður fyrir Framsóknarflokkinn, skólastjóri. Hilmar ákvað að mennta sig meira og fór í Samvinnuskólann, þar sem Jónas Jónson frá Hriflu var skólastjóri. „Samvinnuskólinn var á þessum tíma líkt og Verslunarskóli Íslands með tveggja ára nám til að undirbúa fólk fyrir bókhalds- og skrifstofustörf,“ segir Hilmar. Á námstímanum vann hann öll sumur við vegavinnu eða sjómennsku og aðeins eftir að skólanum lauk 1947.

Árið 1948 var hann ráðinn sem skrifstofumaður hjá Keflavíkurbæ og þar vann hann næstu fimm árin til 1953. Hann hafði kynnst konu sinni, Ásdísi Jónsdóttur, en þau giftu sig árið 1952 og hófu sinn búskap í Keflavík. Árið 1953 var hann ráðinn sem bæjargjaldkeri Keflavíkurbæjar og þremur árum seinna, árið 1956, var hann ráðinn sem skattstjóri Keflavíkurbæjar og gegndi þeirri stöðu til ársins 1962. „Þá var skattstofa Keflavíkur lögð niður og starfsemin færð undir skattstofuna í Hafnarfirði, en á þessum tíma voru litlar skattstofur út um allt land.“ Hilmar ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofnaði fasteignasöluna Hafnargötu 27 í Keflavík með Bjarna F. Halldórssyni og ráku þeir hana saman næstu 27 árin, en þá lést Bjarni og Hilmar og Ásdís ráku hana áfram næstu tíu árin til ársins 1999. Á sama tíma vann hann við skattframtalsaðstoð í bænum.

Það voru þó félagsmálin sem áttu hug hans allan frá upphafi, enda hefur hann verið afspyrnu virkur í öllu félagsstarfi eins og sjá má af öllum þeim félögum sem hann hefur tekið þátt í. „Það má segja að Framsókn og samvinnuhugsjónin hafi verið mér í blóð borin, en Pétur faðir minn var framsóknarmaður og svo voru bændurnir á Reykjaströndinni í Skagafirðinum flestir framsóknarmenn.“ Þá má ekki gleyma uppeldinu í skólunum hjá tveimur landsþekktum framsóknarmönnum.

Hilmar hefur ákveðnar skoðanir og hefur barist fyrir samvinnuhugsjóninni alla tíð. Hann var bæjarfulltrúi í Keflavík fyrir Framsóknarflokkinn í tuttugu ár, frá 1966-1986 og formaður bæjarráðs í tíu ár, frá 1974-1984. Síðan var hann varaþingmaður Reyknesinga árin 1971-1974 fyrir Framsóknarflokkinn. Auk þess sat hann í mörgum nefndum á vegum bæjarfélagsins og má þar nefna bygginganefnd og framtalsnefnd. Hann var stofnfélagi Lionsklúbbs Keflavíkur frá 1956 og var um skeið formaður klúbbsins. Hann var félagi í Málfundafélaginu Faxa í 40 ár, frá 1972-2012 og var gerður að heiðursfélaga félagsins. Hilmar tók auk þess þátt í að stofna Oddfellow-stúkuna Njörð í Keflavík árið 1976 og hann var félagi í Kaupfélagi Suðurnesja og skoðunarmaður reikninga þess í 40 ár, frá 1957-1997.

Þegar Hilmar hætti að vinna fór hann að stunda pútt. „Ég byrjaði í því til þess að hafa félagsskap og stundaði pútt með púttklúbbi Suðurnesja í hartnær 15 ár.“

Fjölskylda

Eiginkona Hilmars er Ásdís Jónsdóttir, húsfreyja, f. 24.2. 1927, en þau giftust 7. júní 1952 og eiga því 70 ára brúðkaupsafmæli næsta vor. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Sigurðsson, bóndi og sjómaður, f. 16.9. 1897, d. 7.12. 1966 og Ágústa Sigurjónsdóttir, húsmóðir og saumakona, f. 16.9. 1899, d. 28.8. 2000. Þau bjuggu í Keflavík. Synir Hilmars og Ásdísar eru 1) Jón Bjarni Hilmarsson, skrifstofumaður, f. 23.10. 1952, d. 15.7. 2007 og Pétur Kristinn Hilmarsson, tölvunarfræðingur, f. 28.10. 1965, kvæntur Önnu Borgþórsdóttur Olsen, f. 26.2. 1965 og þau eiga börnin Borgþór Pétursson, f. 29.12. 1990; Ásdísi Olsen Pétursdóttur, f. 5.7. 1993 og Sigríði Þórdísi Pétursdóttur, f. 30.6. 1998. Systkini Hilmars eru Jóhann Danival, f. 26.4. 1928; Lárus Kristján, f. 17.5. 1930, d. 4.1. 2011; Páll, f. 21.5. 1940, d. 7.5. 2018 og Unnur Berglind, f. 9.4. 1943.

Foreldrar Hilmars voru hjónin Pétur Lárusson, bóndi og húsvörður, f. 23.3. 1892, d. 4.5. 1986 og Kristín Danivalsdóttir, húsfreyja, f. 3.5. 1905, d. 9.11. 1997. Þau bjuggu á Steini á Reykjaströnd í Skarðshreppi í Skagafirði og síðar í Keflavík.