Menningin hefur verið og er í blóma í Siglufirði, þrátt fyrir samkomutakmarkanir af völdum Covid-19. Siglufjarðarkirkja var t.d. opin gestum í sumar og komu fjölmargir til að skoða, Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn
Menningin hefur verið og er í blóma í Siglufirði, þrátt fyrir samkomutakmarkanir af völdum Covid-19. Siglufjarðarkirkja var t.d. opin gestum í sumar og komu fjölmargir til að skoða, Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Sigurður Ægisson Siglufirði Makríll hefur vaðið í torfum um Siglufjörð af og til í sumar og verið þar á eftir marsíli, að því er sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar telja; það var sömuleiðis í torfum, allt inn í smábátahöfnina.

Úr bæjarlífinu

Sigurður Ægisson

Siglufirði

Makríll hefur vaðið í torfum um Siglufjörð af og til í sumar og verið þar á eftir marsíli, að því er sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar telja; það var sömuleiðis í torfum, allt inn í smábátahöfnina. Þessu fylgdi óvenju mikill fjöldi máva af ýmsum stærðum og gerðum. Nú er rólegra yfir að líta.

Á Síldarminjasafninu hefur orðið töluverð breyting frá því í fyrrasumar, þegar meginþorri safngesta var innlendir ferðamenn. Á síðasta ári töldu erlendir gestir ekki nema 25% af heildarfjöldanum, en í ár eru þeir 60%. Skipulagðar heimsóknir ferðahópa hafa verið þó nokkrar, að sögn Anitu Elefsen, forstöðumanns safnsins, og er bókunarstaðan nokkuð góð fram yfir miðjan október. Á planinu framan við Roaldsbrakka hafa farið fram 26 síldarsaltanir og enn á eftir að salta tvisvar í september fyrir erlenda gesti. Heildarfjöldi gesta það sem af er ári er um 16.000, til samanburðar við rúmlega 11.000 allt árið í fyrra.

Söluturninn við Aðalgötu er gamalt verslunarhús frá 1905 sem hefur verið fært í upprunalegt horf. Í stað blaðasölu- og sælgætissjoppu sem rekin var þar um áratugi hafa verið haldnar fjölbreytilegar listsýningar síðustu árin. Fyrr í sumar var haldin samsýning þeirra Jóns Sigurpálssonar á Ísafirði, Péturs Kristjánssonar Seyðisfirði og heimamannsins Örlygs Kristfinnssonar. Allir eru þeir fyrrverandi safnstjórar, hver á sínu minjasafni, en hafa snúið sér að myndlist í seinni tíð. Þessi sumarsýning var önnur í röð þriggja samsýninga þar sem sú fyrsta var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í fyrra og sú þriðja verður haldin á Seyðisfirði 2022. Fyrirhugaðri ágústsýningu Arnars Herbertssonar var frestað vegna Covid-19. Þess í stað hélt Bergþór Morthens tveggja helga sýningu á verkum sínum í Söluturninum nú nýlega. Bergþór hefur hin síðustu árin stundað listsköpun sína ýmist í Gautaborg í Svíþjóð eða Siglufirði og tekið þátt í sýningum víða um lönd.

Samkomutakmarkanir settu svip sinn á starfið í Ljóðasetri Íslands í sumar, eins og víðar. „Þar sem við höfum ekki yfir mörgum fermetrum að ráða hafa eins metra og tveggja metra fjarlægðarreglur sett okkur miklar skorður og því hefur minna verið opið en ella og viðburðir verið óvenju fáir. Gestir það sem af er ári eru því ekki nema um 900,“ segir Þórarinn Hannesson forstöðumaður. „Sem betur fer voru engar skorður í gangi þegar við héldum upp á 10 ára afmæli setursins dagana 8.-10. júlí en þá var boðið upp á veglega dagskrá þar sem skáldin Ragnar Helgi Ólafsson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Þórarinn Eldjárn lásu úr verkum sínum, Svavar Knútur söng og spilaði auk þess sem heimafólk kom fram. Í tilefni afmælisins vígði bæjarstjóri Fjallabyggðar, Elías Pétursson, einnig nýtt og glæsilegt bókarými sem teygir sig fimm metra upp í loft.“ Til að mæta skertum afgreiðslutíma hefur Þórarinn haldið áfram að senda út staka viðburði á fésbókarsíðu setursins og í sumar var m.a. sent út frá fæðingarstöðum nokkurra vestfirskra skálda. Eru myndbönd þessi, sem fyrri myndbönd, aðgengileg á umræddri síðu.

Aðsóknin að Þjóðlagasetrinu var góð miðað við seinasta ár. „Fyrri part sumars var rúmur helmingur gesta erlendir ferðamenn, en þegar leið á sumarið fóru Íslendingarnir að láta sjá sig, sólbrúnir og sælir,“ segir Ásta Sigríður Arnardóttir. „Einnig vorum við svo heppin að geta haldið hátíð án allra takmarkana í byrjun júlí þar sem fólk kom saman og naut þjóðlagatónlistar frá öllum hornum heims. Þá fylltist setrið og bærinn af lífi og tónum. Ágúst litaðist auðvitað, eins og margt annað, af nýrri bylgju faraldursins. En við reyndum eins og hægt var að gera gott úr því og brosa með augunum á bak við grímurnar,“ segir Ásta.

Í Alþýðuhúsinu hófst sumarið með sýningu Auðar Lóu Ingvarsdóttur í Kompunni og um miðjan júní tók sýning Ívars Valgarðssonar við. Í júní voru einnig djasstónleikar með hljómsveit Sigmars Þórs Matthíassonar og 17. júní var opnuð sýning níu eldri listamanna í Fjallabyggð á vegum Alþýðuhússins en í Ráðhússalnum. Listahátíðin Frjó fór fram 9.-11. júlí með þátttöku 16. listamanna úr ólíkum áttum. Ólöf Nordal myndlistarmaður dvaldi á Siglufirði í júlímánuði og sýndi í Kompunni. Viðburðum sem vera áttu í ágúst varð að fresta vegna fjölda- og nálægðartakmarkana en nú er allt að fara í gang aftur, að sögn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Kanadíska listakonan Jay Pasila opnar sýningu í Kompunni 10. október og stefnt er að vikulangri listahátíð sem kallast „Skafl“ og fer fram 25.-31. október, í samstarfi við Ljósastöðina. Þar verða, eins og áður, listamenn úr ólíkum áttum. Þar mun m.a. hljómsveitin ADHD halda tónleika, Erla Þórarinsdóttir opna sýningu í Kompunni, Lefteris Yakoumakis verða með fyrirlestur um „Graphic Novels“ og þátttakendur halda uppskeruhátíð í lok vikunnar.

Aðstandendur Alþýðuhússins á Siglufirði undirbúa nú jafnframt 10 ára afmælishátíð 15.-20. júlí 2022. Hún ber yfirskriftina „Frjó afmælishátíð“ og verður fimm daga menningarhátíð með öllu því besta sem fram hefur komið í Alþýðuhúsinu á liðnum árum plús nýjar og áhugaverðar viðbætur.

Grunnskóli Fjallabyggðar var settur 24. ágúst síðastliðinn og var setningin með óhefðbundnu sniði þetta haustið, þar sem nemendum var boðið að koma í skólann í sínum bæjarkjarna og hitta umsjónarkennara sinn í nemendaviðtali. Í skólanum þennan veturinn eru 209 nemendur, sem skiptast þannig að 109 eru í húsnæðinu við Norðurgötu á Siglufirði, þ.e. í 1.-5. bekk, og 101 í húsnæðinu við Tjarnarstíg í Ólafsfirði, í 6.-10. bekk.

Í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga eru 226 nemendur. Eru þeir ýmist í einkatímum eða hóptímum, auk frístundar, og svo sér skólinn um alla tónmenntartíma í grunnskólum í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð. Sveitarfélögin tvö eru á pari hvað varðar fjölda nemenda í hvoru byggðarlagi fyrir sig, að sögn Magnúsar G. Ólafssonar skólastjóra. Kennarar eru 15 talsins. Söngurinn er vinsælastur, síðan gítar, píanó, trommur, fiðla og svo eru önnur hljóðfæri með færri nemendur.

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga, sem er til húsa í Ólafsfirði, eru 493 nemendur skráðir í nám. Þar af eru um 400 fjarnemar. Að venju eru nemendur víða að af landinu og einnig nokkrir sem búa erlendis (14). Að þessu sinni hefja 18 nemendur, sem útskrifuðust úr grunnskóla síðastliðið vor, nám. Einnig sækja 18 grunnskólanemar áfanga við skólann, flestir úr Fjallabyggð.

Vinna við snjóflóðavarnir í Hafnarfjalli hefur verið í fullum gangi frá því í vor. Hefur þyrla komið reglulega til þess að ferja búnað og byggingarefni upp í fjallið í þessum 4. áfanga verkefnisins. Fyrstu framkvæmdir við snjóflóðavarnir í firðinum hófust árið 1998, þegar byggðir voru háir garðar syðst í bænum, sem leiða snjóflóð fram hjá byggðinni. Árið 2003 hófust framkvæmdir við þvergarða yfir allri byggðinni og 1. áfangi við uppsetningu stoðvirkja. Framkvæmdir við 2. áfanga hófust vorið 2013 og lauk haustið 2015. Framkvæmdir við 3. áfanga hófust svo haustið 2015 og lauk árið 2018.