Á sýningu Eitt þekktasta verk tvíeykisins fjallar um ísbirni.
Á sýningu Eitt þekktasta verk tvíeykisins fjallar um ísbirni.
Samsýning listamannatvíeykisins Snæbjörnsdóttir/Wilson, Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum , verður opnuð í dag kl. 15 í Gerðarsafni í Kópavogi.

Samsýning listamannatvíeykisins Snæbjörnsdóttir/Wilson, Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum , verður opnuð í dag kl. 15 í Gerðarsafni í Kópavogi. Listamennirnir Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson fagna með þessari yfirlitssýningu 20 ára samstarfi sínu og segir í tilkynningu að þau staðsetji list sína sem rannsóknar- og samfélagslist og noti gjarnan samspil manna og dýra í verkefnum sínum til að skoða málefni er varði sögu, menningu og umhverfið. „Með listrannsóknum sínum kveikja þau hugleiðingar og samtal um hvernig heimurinn er að breytast og hlutverk okkar mannfólksins í þeim breytingum,“ segir þar.

Eitt þekktasta verk tvíeykisins er um ísbirni og byrjuðu þau á því árið 2001, skoðuðu uppstoppaða ísbirni í Bretlandi og sögur þeirra frá sjónarhorni listamannsins og hafa unnið með híði ísbirna og hækkandi yfirborð sjávar sem og heimsóknir ísbjarna til Íslands. „Listamennirnir nálgast listsköpun sína með vistfræðilegri og heildrænni sýn. Verk þeirra eru þverfagleg í eðli sínu og taka gjarnan form innsetninga með skúlptúrum, fundnum hlutum, vídeóverkum, hljóði, teikningum, ljósmyndum og textum. Þetta er í fyrsta sinn sem jafn yfirgripsmikið yfirlit yfir verk þeirra hefur sést,“ segir í tilkynningu en sýningarstjóri er Becky Forsythe.

Viðtal um sýninguna verður í Morgunblaðinu á mánudaginn.