Félag talmeinafræðinga á Íslandi fagnar 40 ára afmæli sínu í dag. Upphaf talkennslu á Íslandi má rekja aftur til 1953 þegar fyrstu talkennararnir hófu störf. Helst sóttu þeir nám til Danmerkur og Noregs og voru til að byrja með félagar í Félagi sérkennara á Íslandi en fóru í kringum 1975 að huga að sérstökum samtökum. Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) var stofnað 11. september 1981, en hét áður Félag talkennara og talmeinafræðinga. Með árunum fjölgaði talmeinafræðingum og talkennurum og árið 1987 fékk starfsheitið talmeinafræðingur löggildingu og telst í dag til heilbrigðisstéttar. Markmið FTÍ hefur alla tíð verið að sameina alla talmeinafræðinga sem stétt og fylgja eftir hagsmunum félaga og skjólstæðinga þeirra.
Félagið hefur vaxið ört síðustu ár og telur nú um 130 félaga. Talmeinafræðingar sóttu menntun sína erlendis lengst framan af og var stéttin lengi vel fámenn. Með tilkomu námsbrautar í talmeinafræði við læknadeild Háskóla Íslands árið 2010 hafa nú bæst við 70 talmeinafræðingar. Stéttin er því smám saman að verða sýnilegri, bæði í mennta- og heilbrigðiskerfinu, enda er þörfin eftir þjónustunni gífurleg. Talmeinafræðingar sinna þjónustu við skjólstæðinga með örðugleika tengda tali, máli og samskiptum. Talmeinafræðingar sinna fjölbreyttum skjólstæðingahópi, allt frá ungum börnum til fullorðinna, og sinna þeir margvíslegum vanda. Meðal helstu verkefna talmeinafræðinga má m.a. nefna málstol, stam, raddvandamál, málþroskaröskun, málhljóðaröskun, óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, kyngingarvanda og fæðuinntökuvanda. Talmeinafræðingar sinna m.a. snemmtækri íhlutun barna með seinkaðan málþroska, börnum sem fæðast með skarð í gómi og/eða vör, börnum með heyrnarskerðingu og börnum með ýmiss konar fatlanir og skerðingar. Þeir starfa innan skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins og sinna greiningum, ráðgjöf, fræðslu og meðferð.
Barátta fyrir réttindum og kjörum stéttarinnar hefur staðið alla tíð innan félagsins en baráttan hefur ekki síst snúist um velferð skjólstæðinganna, bæði í skólakerfinu og innan heilbrigðiskerfisins. Þar hefur verið í mörg horn að líta. Félagið hefur í gegnum tíðina verið með öflugt fræðslustarf, s.s. námskeið, fyrirlestra og gefið út metnaðarfullt fræðslurit.
Það var mikið fagnaðarefni fyrir stéttina þegar námsbraut í talmeinafræði varð að veruleika eftir þrotlausa vinnu talmeinafræðinga innan félagsins. Kennsla hófst árið 2010 og hefur hópur talmeinafræðinga útskrifast annað hvert ár síðan. Hafa 70 talmeinafræðingar útskrifast af brautinni. Það er ljóst að áfram þarf að efla námsbrautina svo hægt sé að útskrifa fleiri talmeinafræðinga því þörfin er svo sannarlega til staðar.
Síðustu misseri hefur félagið unnið að niðurfellingu starfsreynsluákvæðis sem sett var inn í rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands árið 2017. Ákvæði hefur valdið því að starfsréttindi nýútskrifaðra talmeinafræðinga hafa verið skert stórlega og komið í veg fyrir nýliðun í veitingu talþjálfunar þar sem hennar er mest þörf. Sérstaklega er ákvæðið varhugavert nú um stundir þegar veruleg kynslóðaskipti eiga sér stað í stéttinni. Því er mikilvægt að ríki og sveitarfélög taki nú höndum saman þannig að hægt verði að sinna öllum þeim fjölmörgu börnum sem bíða árum saman á biðlistum eftir talþjálfun.
Höfundur er formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi.