Elín Bjarney Jóhannsdóttir, Elley, fæddist 19. september 1944. Hún lést 13. júlí 2021.

Útför Elleyjar fór fram 22. júlí 2021.

Sumarið var tíminn, þegar kveðjustundin kom. Sál þín varð að yfirgefa þau híbýli sem höfðu hýst hana frá fæðingu. Illvígur sjúkdómur hafði laskað líkamann það illa að engu varð bjargað þótt reynt væri af læknavísindum nútímans. Sálin yfirgaf samt ekki íverustað sinn fyrr en hún hafði náð að kveðja. Beið eftir syninum, þar til hann kæmi heim af hafinu til að kveðja hann áður en ferðin sem við endum öll á að fara væri farinn.

Mín kæra móðir Elley, eins og hún var kölluð, var fædd á því ári þegar lýðveldið Ísland var stofnað. Uppeldi hennar hefur því mótast af þeirri umræðu og samfélagsgerð sem þá var í þróun og mótun. Hún var Vestmannaeyingur, stolt af sínu samfélagi. Vildi því vel í alla staði og hag þess sem bestan. Lífið lék ekki við mína kæru móður síðustu árin. Háði þrjár orrustur við meinið sem enn ógnar mörgum, sú síðasta varð ekki umflúin. Enginn samningur í boði, ekkert vopnahlé, meinið sigraði. Ól okkur börnin sín upp við kærleik og hlýju. Leiðbeindi þegar þess þurfti og var ég sá sem hún leiðbeina þurfti oftar en hinum börnum sínum, held ég. Kærleikur mömmu í minn garð var ómetanlegur og til allra sinna afkomenda. Umvafði mig hlýju, í blíðu og stríðu, kenndi réttsýni og sanngirni, það voru eiginleikar sem ég skyldi tileinka mér. Móðir sem fróðleikurinn var sóttur til þegar leysa þurfti verkefni sem vöfðust fyrir drengnum hennar.

Sumarið var tíminn sem var valinn fyrir þig mín elskulega móðir, Elín Bjarney. Ferðin skyldi farin yfir landamærin sem við vitum ekkert um, né hvað bíður handan þeirra.

Yndislega eyjan mín,

ó, hve þú ert morgunfögur!

Úðaslæðan óðum dvín,

eins og spegill hafið skín,

yfir blessuð björgin þín

breiðir sólin geislakögur.

Yndislega eyjan mín,

ó, hve þú ert morgunfögur!

(Sigurbjörn Sveinsson)

Ég veit og trúi því að fegurð morgundagsins hafi blasað við þér hinum megin landamæranna mín kæra móðir.

Hafðu þökk fyrir að kenna, miðla og gefa.

Þinn sonur,

Svavar Örn Svavarsson.