Jón Gunnar Þórðarson
Jón Gunnar Þórðarson
Ný stjórn hefur verið kjörin hjá nýsköpunarfyrirtækinu Mussila. Sigurlína Ingvarsdóttir tekur við stjórnarformennsku af Þórði Magnússyni.

Ný stjórn hefur verið kjörin hjá nýsköpunarfyrirtækinu Mussila. Sigurlína Ingvarsdóttir tekur við stjórnarformennsku af Þórði Magnússyni. Þá fer Kjartan Örn Ólafsson úr stjórn eftir þriggja ára stjórnarsetu en í stjórnina koma Jóhann Þorvaldur Bergþórsson og Vala Halldórsdóttir. Með þeim í stjórn verða Marie Claire Maxwell, yfirmaður tækni og nýsköpunar hjá Business Sweden, og Snæbjörn Sigurðsson, fjárfestingastjóri hjá Íslandsbanka.

Spáir 80% aukningu milli ára

Mussila þróar og selur hugbúnað í menntatækni (e. edtech) sem nýtist við kennslu. Þá meðal annars hugbúnað sem nýtist börnum í tónlistarnámi.

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila, segir áætlað að tekjurnar aukist úr 22 milljónum króna í fyrra í 40 milljónir í ár, eða um 80%.

„Mussila er stafrænn skóli og er sem stendur stafræn leið til að kenna 6-10 ára börnum tónfræði og tónlist. Appið Mussila Music School er fáanlegt á App Store og Google Play á 32 tungumálum. Upp á síðkastið höfum við líka verið að selja lausnina okkar beint til skóla á Íslandi og nú eru hin norrænu löndin að bætast við,“ segir Jón Gunnar.