Ný stjórn hefur verið kjörin hjá nýsköpunarfyrirtækinu Mussila. Sigurlína Ingvarsdóttir tekur við stjórnarformennsku af Þórði Magnússyni. Þá fer Kjartan Örn Ólafsson úr stjórn eftir þriggja ára stjórnarsetu en í stjórnina koma Jóhann Þorvaldur Bergþórsson og Vala Halldórsdóttir. Með þeim í stjórn verða Marie Claire Maxwell, yfirmaður tækni og nýsköpunar hjá Business Sweden, og Snæbjörn Sigurðsson, fjárfestingastjóri hjá Íslandsbanka.
Spáir 80% aukningu milli ára
Mussila þróar og selur hugbúnað í menntatækni (e. edtech) sem nýtist við kennslu. Þá meðal annars hugbúnað sem nýtist börnum í tónlistarnámi.Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila, segir áætlað að tekjurnar aukist úr 22 milljónum króna í fyrra í 40 milljónir í ár, eða um 80%.
„Mussila er stafrænn skóli og er sem stendur stafræn leið til að kenna 6-10 ára börnum tónfræði og tónlist. Appið Mussila Music School er fáanlegt á App Store og Google Play á 32 tungumálum. Upp á síðkastið höfum við líka verið að selja lausnina okkar beint til skóla á Íslandi og nú eru hin norrænu löndin að bætast við,“ segir Jón Gunnar.