Birna Rut Guðjónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 7. október 1932. Hún lést á heimili sínu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 1. september 2021. Foreldrar Birnu Rutar voru Guðjón Tómasson, f. 30.7. 1897, d. 10.12. 1979 og Aðalheiður Svanhvít Jónsdóttir, f .3.1. 1910, d. 26.10. 1946. Systkini Birnu Rutar eru Sólveig Magnea Guðjónsdóttir, f. 24.11. 1936 og Tómas Grétar Guðjónsson, f. 2.11. 1945. Birna Rut ólst upp á Heimagötu 26 í Vestmannaeyjum.

Hinn 7. október 1951 giftist Birna Rut Magnúsi Magnússyni, f. 10.2. 1930, d. 3.1. 2009, frá Skansinum í Vestmannaeyjum. Fyrstu búskaparárin sín bjuggu þau á Skansinum en árið 1958 fluttu þau á Helgafellsbraut 15, þar sem þau bjuggu fram að gosinu. Eftir gos byggðu þau hús á Smáragötu 12. Börn Birnu Rutar og Magnúsar eru: Aðalheiður Svanhvít, f. 1951, maki hennar er Eggert Sveinsson, f. 1950. Börn þeirra eru Magnús Ingi og Helga. Gíslína, f. 1953, maki hennar er Gísli J. Óskarsson, f. 1949. Börn þeirra eru Óskar Magnús, Kristín, Guðjón og Daði. Börn Gíslínu áður eru Sólveig Birna og Magnús Páll. Magnea Ósk, f. 1958, maki hennar er Daði Garðarsson, f. 1954. Börn þeirra eru Hrafnhildur Ýr, Birna Rut og Diljá. Barnabörn Birnu Rutar eru 11, langömmubörnin eru 18 og 1 langalangömmubarn.

Birna Rut starfaði lengst af sem starfsmaður leikskólans Rauðagerði í Vestmannaeyjum.

Útför Birnu Rutar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 11. september 2021 kl. 13.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Ástríki

Svo ástrík var hún mamma mín

og merk er hennar saga

því yndi kærleiks ennþá skín

á alla mína daga.

Hlý og blíð hún hjá mér stóð,

minn helsti leiðarvísir,

af mildi sinni gaf hún glóð

sem gæfuspor mín lýsir.

Er æskuslóð um gróna grund

gekk ég fyrir skömmu

þá sá ég loga ljúfa stund

ljósið hennar mömmu.

(Kristján Hreinsson)

Elsku mamma, söknuðurinn er sár en dýrmætar minningar um þig munu lifa í hjörtum okkar

Kveðja,

Magnea og Daði.

Þegar mér var sagt að amma væri dáin þá féll ég alveg saman, því hún hefur alltaf verið fastur punktur í tilveru minni. Tilhugsunin um að hafa hana ekki hér er svo ólýsanlega sár. Það sem ég gæfi til að fá bara eitt faðmlag, bara eitt skipti til að finna fyrir fíngerðu fallegu höndunum hennar taka utan um mig.

Amma var einstök og glæsileg kona eins og allir vita sem voru svo lánsamir að kynnast henni. En það sem einkenndi hana var hversu dugleg, nýtin og athafnasöm hún var - sem var ekki vanþörf á. Hún missti mömmu sína aðeins 14 ára gömul og varð því að fullorðnast ansi hratt. Svo barðist afi minn heitinn við parkinson í mörg ár og amma var stoð hans og stytta út hans lífsskeið. Eins og lítið barn trúi ég að hann hafi tekið á móti henni í sumarlandinu með opnum örmum, og þar séu þau nú án allra kvilla í örmum hvort annars á ný.

Amma var umvafin fólkinu sínu síðustu daga hennar hér í þessum heimi, enda naut hún þess alltaf að hafa fólk í kringum sig og var gestagangur oft mikill heima hjá henni. Gestrisni ömmu var slík að henni fannst aldrei neinn vera búinn að borða nóg, það mátti enginn fara svangur út frá henni. Þótt amma gerði aldrei upp á milli barnabarna sinna þá finnst mér við alltaf hafa átt einstakt samband, mér finnst ég ekki bara vera að kveðja ömmu mína heldur vinkonu mína líka.

Elsku amma, hvernig á ég að koma því í orð hversu mikilvæg þú varst mér. Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á með þér og mun ég ylja mér við þær um ókomin ár.

Með trega og söknuði kveð ég þig en leyfi mér að lifa í þeirri von að þessi aðskilnaður sé aðeins tímabundinn.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þau auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín

Diljá.

Hún amma mín var afar góð og blíð kona að eðlisfari. Hún var dugleg og gestrisin. Eigingirni og það að hygla sjálfri sér eða ásælast það sem öðrum tilheyrði var fjarri henni og hún hafði andstyggð á slíku háttalagi.

Hún var sannkristin kona og hún tók trú sína alvarlega hvort heldur var í verki eða í orði. Aldrei heyrði ég hana lasta náunga sinn eða kasta hnýfilyrðum að fólki.

Kvörtunarsöm var hún ekki og allt sem hún tók að sér framkvæmdi hún af alúð og vandvirkni og það síðasta sem hægt væri að segja um hana var það að hún æti letinnar brauð.

Þegar við bræðurnir, ungir að árum, bárum út blöð, eins og þá tíðkaðist, hjálpaði amma mér og bróður mínum við blaðburðinn. Hún var alltaf mætt á slaginu þegar blaðið kom í hús. Gilti einu hvort við bræður værum í skólanum eða heima við. Amma var mætt á staðinn og ástúð og umhyggja í garð okkar bræðra geislaði frá henni.

Amma tók hraustlega til hendinni þegar mömmu vantaði hjálp, hvort heldur var við sláturgerð eða önnur verk sem aðstoðar þurfti við. Væri unnið við flatkökubakstur gaf hún sér alltaf nægan tíma til þess að hlusta á okkur barnabörnin og svara spurningum okkar af einstakri þolinmæði og útskýrði málin fyrir okkur með sinni mjúku og þægilegu röddu.

Allt sitt líf var amma sérlega vandvirk til orðs og til æðis, hvort heldur var í garð fullorðinna eða barna og ungmenna. Allt gerði hún vel, enda góðum gáfum prýdd og flink og vandvirk í öllu.

Ég fór oftar en hitt til Vestmannaeyja og þegar ég var í Eyjum leið aldrei sú stund að ég gæfi mér ekki tíma til þess að heimsækja hana ömmu mína. Hún tók ávallt vel á móti mér, enda var hún fjölskyldurækin með afbrigðum og þótti henni það mikil dásemd að fá fólkið sitt í heimsókn.

Ég mun sakna ömmu minnar sárlega og er nú skarð fyrir skildi að koma til Eyja án þess að fá tækifæri til þess að hitta hana.

Þessi orð í Orðskviðum Salómons eru fullkomin yfirskrift yfir ömmu minni: „Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram. Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið.“

Dána, þú varst kristin kona!

Barnabarn þitt,

Guðjón Gíslason.