Smárinn Leikmenn Breiðabliks þakka áhorfendum á Kópavogsvelli fyrir stuðninginn á fimmtudagskvöldið þegar liðið sló Osijek frá Króatíu út.
Smárinn Leikmenn Breiðabliks þakka áhorfendum á Kópavogsvelli fyrir stuðninginn á fimmtudagskvöldið þegar liðið sló Osijek frá Króatíu út. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján Jónsson kris@mbl.is Landslagið er að breytast hjá konunum í knattspyrnunni í Evrópu. Fjárhagslegur ávinningur í Evrópukeppnum félagsliða hefur ekki verið umtalsverður í kvennaflokki.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Landslagið er að breytast hjá konunum í knattspyrnunni í Evrópu. Fjárhagslegur ávinningur í Evrópukeppnum félagsliða hefur ekki verið umtalsverður í kvennaflokki. Í karlaflokki hefur mikið fé farið frá Knattspyrnusambandi Evrópu til þeirra liða sem ná árangri í Evrópukeppnunum. Hæstu upphæðirnar hafa verið í Meistaradeild Evrópu.

Áhugi sjónvarpsáhorfenda í álfunni á Meistaradeild kvenna hefur aukist til muna. Fyrir vikið var fyrirkomulagi keppninnar breytt fyrir keppnistímabilið 2021-2022 og er notast við riðlakeppni eins og hjá körlunum. Áður var útsláttarfyrirkomulag notað í Meistaradeild kvenna, líkt og unnendur boltagreina þekkja úr bikarkeppnum. Með riðlakeppninni er leikjum í keppninni fjölgað og umgjörðin verður áhugaverðari fyrir sjónvarpsstöðvar. Í þeim geira eru fyrirtækin nú tilbúin til að greiða mun hærra verð en áður fyrir sjónvarpsréttinn að Meistaradeild kvenna.

Útgreiðsla frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, til aðildarfélaga vegna Meistaradeildar kvenna mun hækka um liðlega fjórar milljónir evra. Eins og fram kemur á íþróttasíðum blaðsins í dag hefur Breiðablik unnið sér inn á milli 70 og 80 milljónir vegna árangurs kvennaliðs félagsins á síðustu vikum. Breiðablik komst í gegnum fyrstu tvær umferðir Meistaradeildarinnar og mun leika í riðlakeppninni ásamt bestu liðum Evrópu.

Aðildarsambönd UEFA hafa notið notið góðs af vinsældum Meistaradeildar karla í sjónvarpi. Félög á Íslandi hafa fengið greiðslur vegna þessa sem hafa verið kenndar við barna- og unglingastarf. Næsta vor munu væntanlega öll félög sem eiga lið í efstu deild kvenna í sumar fá greiðslur sem til eru komnar vegna sölu á sjónvarpsrétti á Meistaradeild kvenna. 48