Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Léttur blær sér lyftir hér. Löðrungur er veittur þér. Heyskapur þá hafinn er. Hraður nú í brjósti mér. Þá er það lausnin frá Hörpu á Hjarðarfelli: Sláttur er vægur vindur. Á vanga slátt fékk hann.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Léttur blær sér lyftir hér.

Löðrungur er veittur þér.

Heyskapur þá hafinn er.

Hraður nú í brjósti mér.

Þá er það lausnin frá Hörpu á Hjarðarfelli:

Sláttur er vægur vindur.

Á vanga slátt fékk hann.

Sláttur í kýr og kindur.

Kona hjartslátt fann.

„Svona er nú slátturinn mergjaður“ segir Eysteinn Pétursson:

Leikur sláttur laufi í.

Leitt er slátt á kinn að fá.

Slátt við byrjum brátt á ný.

Bylmingshjartslátt finnum þá.

Guðrún B. á þessa lausn:

Slappt er í slættinum seglið.

Sláttur á vanga er sár.

Um sláttinn næringu neglið.

Ef nár, er hjartsláttur smár.

„Þá loks er það lausn vikunnar,“ segir Helgi R. Einarsson:

Hér gola, högg og heyskapur er,

sem hjartans sanni máttur.

Já, allt að sama brunni ber

og birtist okkur sláttur.

Sjálfur leysir Guðmundur gátuna þannig:

Sláttur vart sér hreyfir hér.

Högg er sláttur veittur þér.

Heysláttur þá hafinn er.

Hjartsláttur í brjósti mér.

Þá er limra:

Í gærkveldi gerði regn,

sem góður og virkur þegn

ég fór út að slá

með sláttumanns ljá,

en sló samt ekki í gegn.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Æstir vindar árla dags

utan húsið lemja,

vaknaður ég leita lags

litla gátu að semja:

Tækifæri telja má.

Tíðum falskt það hljómar.

Ei með réttu ráði sá.

Rækja sálir frómar.

Páll Ólafsson orti (talin síðasta visa hans):

Tregur sérhvert fer ég fet

fram að grafar barminum.

Sjónlaus ekki séð ég get

af sextugum konugarminum.

Gömul vísa í lokin:

Vertu góður, Geiri minn,

gleymdu óró þinni.

Einatt hljóðar auminginn

eftir móður sinni.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is