Berglind Ósk Guðmundsdóttir
Berglind Ósk Guðmundsdóttir
Eftir Berglindi Ósk Guðmundsdóttur: "Vænlegasta leiðin til fjölgunar starfa felst í því að hlúa bæði að þeim rótgrónu atvinnugreinum sem haldið hafa uppi verðmætasköpun í samfélaginu og að stuðla að því að nýjar atvinnugreinar nái fótfestu."

Spá Samtaka iðnaðarins um þróun og fjölgun starfa gerir ráð fyrir því að til ársins 2050 þurfum við að skapa 60 þúsund ný störf til að standa undir hagvexti og tryggja áfram þau lífsgæði sem við öll erum vön. Þetta þýðir að skapa þarf u.þ.b. 2.000 ný störf á ári. Hvernig ætlum við að mæta þessari þörf og skapa verðmæt störf? Hvernig viljum við sjá þróun starfa á landinu öllu? Ættum við ekki að ýta undir þróun nýrra starfa í rótgrónum atvinnugreinum?

Mennt er máttur

Menntakerfið þarf að vera í stakk búið til að undirbúa fólk fyrir ný störf í takt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsþróun hverju sinni. Menntun til framtíðar þarf að breytast sem og viðhorf skólakerfisins til breyttra tíma.

Miklu skiptir að auka þverfaglegt nám í iðn-, verk- og tækninámi sem er til þess fallið að útskrifa fleiri sem eru tilbúnir til starfa í þeim atvinnugreinum sem kalla á nýja þekkingu og nýjar lausnir. Að sama skapi þarf að efla samvinnu og samstarf fræðasamfélagsins og atvinnulífsins með því að nýta betur rannsóknir, efla nýsköpun og miðla þekkingu.

Sjávarútvegur

Íslenskur sjávarútvegur skipar sér í fremstu röð í heiminum og af því megum við vera stolt. Sjávarútvegurinn er burðarás í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Störf og starfsemi fyrirtækja í sjávarútvegi skiptir miklu máli fyrir dreifðar byggðir landsins og landið allt. Ljóst er að afstaða íbúa landsbyggðarinnar til íslensks sjávarútvegs er gjörólík afstöðu íbúa höfuðborgarsvæðisins til atvinnugreinarinnar.

Almennt ríkir sátt um það, hvort sem það er innan greinarinnar eða utan, að innheimta eigi gjald vegna afnota af náttúruauðlindinni. Umræðan er oft á tíðum afvegaleidd með þeim hætti að fyrirtæki í sjávarútvegi séu mótfallin því að greiða slíkt gjald. Á hinn bóginn er mikilvægt að slíkt afnotagjald sé sanngjarnt og að þeir sem greiða fyrir afnotarétt af einni gjöfulustu náttúruauðlind okkar Íslendinga búi við stöðugleika fyrir rekstur sinn. Enda hafa sjávarútvegsfyrirtækin fjárfest gríðarlega í nýsköpun og aukið þannig tækniframfarir í greininni. Grundvallaratriði er að núverandi kerfi byggist á vísindalegri nálgun um sjálfbæra nýtingu fiskveiðistofna og arðsemi þess er með því hæsta sem gerist í heiminum.

Óvissa og óstöðugt rekstrarumhverfi má ekki valda því að þær tækniframfarir sem hafa orðið í sjávarútvegi staðni og samdráttur verði í fjárfestingum innan greinarinnar. Nýsköpun í sjávarútvegi hefur skilað ábata til samfélagsins á sviði náttúru- og umhverfisverndar, verðmætasköpunar og nýtingar á afla.

Menning og listir

Menningarlíf skiptir okkur öll máli og öll viljum við búa við blómlegt menningar- og mannlíf. Framlög ríkisins til menningar og lista á landsbyggðinni er hlutfallslega lágt miðað við framlög til sömu starfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

Menning og list einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið. Frumkvæði og sköpunargleði íbúa á landsbyggðinni er mikil og það er hlutverk stjórnvalda að ýta undir með þeim. Byggðir með öflugt menningarlíf eru spennandi og það er líklegra að ungt fólk vilji setjast að til frambúðar þar sem mannlíf er fjölbreytt og aðlaðandi.

Landbúnaður

Það er auðvelt að segja að hvetja þurfi til nýsköpunar og tækniframfara í landbúnaði en nú reynir á að koma með lausnir til að ná markmiðinu. Það gleymist stundum að bændur eru eins og allir aðrir sem standa í rekstri. Það þarf að mynda umgjörð sem styður við þá og hvetur til nýliðunar í greininni. Það þarf að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi og bæta starfsumhverfi greinarinnar.

Íslenskur landbúnaður nýtur hlutfallslega mikils stuðnings frá stjórnvöldum í alþjóðlegum samanburði. Taka þarf styrkjakerfi landbúnaðarins til endurskoðunar með það að markmiði að gera bændum auðveldara fyrir að mæta breyttum aðstæðum. Í því samhengi þarf að skoða sérstaklega hvort fýsilegra sé að draga úr framleiðslutengdum styrkjum og koma á hvata-, landbóta- og fjárfestingastyrkjum.

Mikil tækifæri eru í loftslagstengdum verkefnum í landbúnaði og því ættu stjórnvöld að horfa til þess að styðja betur við verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Neytendur eru meðvitaðri um ábyrgð sína í loftslagsmálum og því er mikilvægt að auka tengsl milli bænda og neytenda.

Atvinnuvegir framtíðarinnar

Fjölgun nýrra verðmætra starfa er spennandi verkefni sem við verðum að taka föstum tökum. Það má ekki einungis horfa til nýrra atvinnugreina sem kalla á fjölgun starfa heldur þurfum við einnig að ýta undir sköpun nýrra starfa í rótgrónum atvinnugreinum. Í þessu samhengi skiptir það einmitt máli að styðja við og aðstoða þær atvinnugreinar sem þegar hafa skotið rótum í samfélaginu og stuðla að því að þær haldi áfram að vaxa og dafna, samfélaginu öllu til heilla. Vænlegasta leiðin til fjölgunar starfa felst í því að hlúa bæði að þeim rótgrónu atvinnugreinum sem haldið hafa uppi verðmætasköpun í samfélaginu og að stuðla að því að nýjar atvinnugreinar nái fótfestu, vaxi og dafni, jafnvel í samvinnu við þann atvinnurekstur sem fyrir er.

Höfundur skipar 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. berglindosk7@gmail.com

Höf.: Berglindi Ósk Guðmundsdóttur