Reynslumestu leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gætu lagt landsliðsskóna á hilluna ef kemur til frekari afskipta stjórnar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, af landsliðshópnum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Reynslumestu leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gætu lagt landsliðsskóna á hilluna ef kemur til frekari afskipta stjórnar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, af landsliðshópnum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Kolbeinn Sigþórsson var valinn í íslenska landsliðshópinn í nýliðnum landsleikjaglugga þar sem Ísland mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi á Laugardalsvelli í undankeppni HM.

Honum var aftur á móti meinað að taka þátt í verkefninu af stjórn KSÍ eftir að umræða um meint ofbeldisbrot hans gegn tveimur stúlkum á skemmtistað í Reykjavík árið 2017 var tekin til umfjöllunar í fjölmiðlum. Mikil óánægja var með þá ákvörðun stjórnarinnar innan leikmannahópsins, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þá hafa tveir leikmenn karlalandsliðsins verið sakaðir um nauðgun á samfélagsmiðlum, án þess þó að hafa verið nafngreindir. Atvikið á að hafa átt sér stað árið 2010 en þeir voru ekki í íslenska landsliðshópnum í síðasta landsleikjaglugga.

Leiða má þó að því líkur að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, hafi hug á því að velja að minnsta kosti annan þeirra í hópinn fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM en leikirnir fara fram 8. október og 11. október á Laugardalsvelli.

Stjórn KSÍ sagði af sér á dögunum eftir að sambandið var sakað um þöggun og meðvirkni með meintum gerendum. Ný bráðabirgðastjórn verður kjörin á aukaþingi sambandsins 2. október, tæplega viku áður en Ísland mætir Armeníu. bjarnih@mbl.is