Innsýn Michael O'Leary er þekktur fyrir að fela ekki skoðanir sínar.
Innsýn Michael O'Leary er þekktur fyrir að fela ekki skoðanir sínar. — AFP
Michael O‘Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, telur keppinauta sína Wizz Air og EasyJet verða að leita samrunatækifæra ella hætta á að verða undir í samkeppni við önnur flugfélög í þeirri hrinu samþjöppunar sem vænta má í...

Michael O‘Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, telur keppinauta sína Wizz Air og EasyJet verða að leita samrunatækifæra ella hætta á að verða undir í samkeppni við önnur flugfélög í þeirri hrinu samþjöppunar sem vænta má í fluggeiranum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Stjórnendur breska flugfélagsins EasyJet upplýstu á fimmtudag að þeir hefðu hafnað yfirtökuviðræðum við ónefnt fyrirtæki en Financial Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air hafi verið þar á ferð.

Er það mat margra að lengi hafi verið þörf á aukinni samþjöppun á evrópskum flugmarkaði og að það tjón sem greinin varð fyrir í kórónuveirufaraldrinum valdi því að aðkallandi sé að flugfélögin í álfunni skoði möguleika á samruna.

Í viðtali við FT segir O‘Leary að það væri skynsamlegt skref fyrir rótgróin og voldug flugfélög á borð við IAG (sem rekur British Airways), Lufthansa og Air France að kaupa rekstur keppinauta sinna hvort sem staðbundnir keppinautar eða lággjaldaflugfélög verða fyrir valinu. „Samþjöppun þarf að eiga sér stað og mun eiga sér stað. Það er óhjákvæmlegt, og hvað þá í ljósi kórónuveirufaraldursins.“

Telur O‘Leary að evrópski flugmarkaðurinn dreifist á of margar hendur og að það geri flugfélög lífvænlegri að reyna að hafa starfsemi sína eins umfangsmikla og völ er á.

Segir hann samruna Wizz Air og EasyJet hafa augljósa kosti enda standi fyrrnefnda flugfélagið vel að vígi í Austur-Evrópu en hið síðarnefnda er með sterkari stöðu í vesturhluta álfunnar og bæði félögin noti aðeins flugvélar frá Airbus.

ai@mbl.is