Kvennalið Breiðabliks er brautryðjandi fyrir íslensk félagslið

Það er óhætt að segja að kvennalið Breiðabliks hafi fyrir helgi skráð nafn sitt með gullnu letri í knattspyrnusögu Íslands þegar liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, fyrst íslenskra félagsliða, með fræknum 3:0 sigri á Osijek, meistaraliði Króatíu.

Það segir sitt um hið góða starf sem hér hefur verið unnið í kvennaknattspyrnu að Blikar verða í öðrum styrkleikaflokki af fjórum, þegar dregið verður í riðlana í dag, og er það vonandi ávísun á enn frekari árangur liðsins í leikjunum sex sem það spilar nú í haust og vetur.

Árangur Blika þýðir einnig að liðið fær umtalsverða fjárhagslega uppskeru fyrir árangur sinn, en það hefur nú þegar tryggt sér á áttunda tug milljóna króna hið minnsta, og gæti jafnvel náð inn meiri fjármunum, ef gengið í riðlinum verður gott. Þetta mikla fé stafar einkum af því að áhugi sjónvarpsáhorfenda hefur aukist á kvennaknattspyrnu og fjárhagsleg umsvif því farið vaxandi. Ennfremur má ætla að næsta vor fái öll íslensk félög sem eiga lið í efstu deild kvenna greiðslur vegna sölu á sjónvarpsrétti, sem er jákvæð þróun og ætti að styrkja kvennaknattspyrnuna enn frekar.

Það er ekki sjálfgefið að fámenn þjóð geti átt svo öflugt lið og keppt með góðum árangri við helstu stórþjóðir Evrópu í vinsælustu íþróttagrein heims. Þessi merki árangur Breiðabliks er því fagnaðarefni og verður vonandi öðrum íslenskum félagsliðum hvatning í framtíðinni til að feta þá braut, sem Blikar hafa nú rutt.