Guðný Egilsdóttir fæddist á Akureyri 5. apríl 1945. Hún lést 18. ágúst 2021 á líknardeild Landspítalans.

Foreldrar hennar voru Valgerður Lárusdóttir, f. 18. mars 1925, d. 28. desember 2011, og Egill Sigurðsson, f. 24. janúar 1919, d. 27. desember 2011.

Systkini Guðnýjar eru Rakel, f. 12. mars 1946, Kristín, f. 17. júní 1952, og Sigurður, f. 28. ágúst 1958.

Guðný giftist Lárusi Hjaltested Ólafssyni, f. 7. september 1945. Foreldrar hans voru Ólafur Beinteinsson, f. 1911, d. 2008, og Sigurveig Hjaltested, f. 1923, d. 2009. Þau slitu samvistir. Sonur þeirra er Ólafur, f. 29. ágúst 1965, maki Christiane Grossklaus, f. 8. ágúst 1961. Börn þeirra eru Anna Sigurveig, f. 20. september 2000, og Klara Sól, f. 16. janúar 2003.

Guðný ólst upp á Akureyri til sjö ára aldurs og síðar í Reykjavík. Hún gekk í Laugarnesskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi.

Hún vann mestallan sinn starfsaldur við matreiðslu á ýmsum stöðum, meðal annars hjá Íslandsbanka og fleiri stórum mötuneytum.

Útför hennar fór fram í kyrrþey.

Við fráfall þitt, elsku systir, er höggvið stórt skarð í systkinahópinn. Við eigum margar góðar minningar gegnum lífið. Þú áttir fallegt heimili og það var alltaf gott að heimsækja þig. Alltaf kræsingar á borðum enda afburðakokkur og -bakari. Þú hafðir líka einstakt lag á allri handavinnu, svo eftir var tekið og liggja eftir þig falleg handverk. Kettirnir þínir voru þér einstaklega kærir fram á síðasta dag.

Eins og hjá mörgum voru oft slæmir tímar og erfiðleikar í lífinu sem þú þurftir að takast á við. Síðast núna í veikindum þínum, þar sem þú barðist hetjulega við krabbameinið með jákvæðni og auðmýkt.

Við þökkum þér samfylgdina, kæra systir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Héðan skal halda

heimili sitt kveður

heimilisprýðin í hinsta sinn.

Síðasta sinni

sárt er að skilja,

en heimvon góð í himininn.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Rakel, Kristín

og Sigurður.