[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kate Elizabeth Russell. Harpa Rún Kristjánsdóttir íslenskaði. Kilja 420 bls. Króníka.

MeToo-bylgjan fór vart fram hjá neinni manneskju þegar hún tröllreið netheimum fyrir nokkrum árum. Fyrir marga var flóð frásagnanna merki um ákveðinn sigur innan jafnréttisbaráttunnar sem kallaði fram gleði. Fyrir aðra voru þessar stanslausu sögur uppspretta mikillar vanlíðanar og óhamingju. Vanessa mín myrka er grípandi skáldsaga sem kemur með ferskt og áhugavert sjónarhorn inn í þessa umræðu þar sem blendnar tilfinningar, afneitun og sektarkennd leika stórt hlutverk.

Bókin segir frá ungri konu, Vanessu Wye, sem er neydd til að endurskoða ástarsamband sem hún átti með 42 ára enskukennara sínum þegar hún var 15 ára, í kjölfar þess að nafnið hans verður áberandi í frásögnum í #MeToo-bylgjunni árið 2017. Bókin fer með lesendur í gegnum tímaflakk þar sem annars vegar er skyggnst inn í minningar Vanessu frá skólaárum hennar og hins vegar líf hennar í nútímanum þar sem hún er neydd til að horfast í augu við hvers eðlis samskipti hennar við kennara sinn, Jacob Strane, voru.

Verkið er fyrsta útgefna skáldsaga höfundarins Kate Elizabeth Russell og hefur hún vakið mikið umtal enda tekst hún á við flókin og eldfim málefni sem eru afar vandmeðfarin: tælingu, barnaníð og kynferðislegt ofbeldi. Hefur höfundur verið gagnrýndur fyrir að notfæra sér sögur og persónulega reynslu annarra sér til framdráttar og skáldsagan kölluð ein sú umdeildasta frá árinu 2020.

Í bókinni tekst Russell á við mikilvæg vandamál á borð við stofnanabundna og menningarlega þætti sem vinna kerfisbundið gegn þolendum ofbeldis. Þó bókin fjalli fyrst og fremst um tælingu og barnaníð má þó einnig greina almenna gagnrýni á þráhyggju samfélagsins gagnvart unglegu útliti kvenna. Þráhyggju sem femínistar á 21. öldinni hafa sumir hverjir líkt við barnagirnd.

Tæling er síður en svo auðvelt viðfangsefni til að greina frá og skilja en höfundi tekst með sannfærandi hætti að varpa ljósi á flókinn tilfinningaveruleika þolanda sem er oft og tíðum mótsagnakenndur og illskiljanlegur fyrir aðstandendur. Á sama tíma og Russell nær að gera grein fyrir hvað það er í fari Jacob Strane sem fær Vanessu til þess að falla fyrir honum þá fer aldrei á milli mála að hér er ekki um ástarsögu að ræða. Valdaójafnvægið er dregið fram með skýrum hætti og gerir hún vel grein fyrir stöðu Vanessu, bæði gagnvart kennaranum og einnig skólayfirvöldum. Hafa einhverjir líkt bókinni við nútíma frásögn Lólítu, þar sem ekkert er fegrað og viðeigandi orðfæri er notað til að greina frá sambandinu; misnotkun og barnaníð.

Kemur fyrir að lýsingar Russell gangi fram af manni og kallar bókin fram mikla siðferðislega togstreitu. Bæði hvað varðar afstöðu manns gagnvart ákvörðunum aðalsögupersónunnar, og einnig afstöðu manns gagnvart því hvernig höfundur fjallar um efni bókarinnar. Er ég enn að gera það upp við mig hvort ég dáist að hugrekkinu sem felst í því að greina frá kynferðislegri misnotkun í smáatriðum líkt og Russell gerir, eða hvort ég telji hana hafa gengið óþarflega langt. Velti ég fyrir mér hvar mörkin liggja þegar kemur að því að skapa mynd í höfði lesanda af nakinni 15 ára stúlku uppi í rúmi með 42 ára karlmanni.

Að því sögðu er bókin hispurslaus og geymir sannfærandi frásögn af hugarheimi ungrar konu sem reynir að fóta sig í lífinu samhliða því sem hún glímir við eftirmál misnotkunar. Kannski er nauðsynlegt að ögra velsæmismörkum til að hægt sé að segja með réttum hætti frá jafn átakanlegu viðfangsefni og þessu.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir