[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá Tröllaskaga og austur á land. Akureyri í aðalhlutverki. Efling flugsamgangna, fiskeldi og þjóðgarðsmál í umræðu. Höggvið verði á hnúta.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls 11,46% þeirra landmanna sem hafa atkvæðisrétt í þingkosningunum um aðra helgi búa í Norðausturdæmi, eða 29.887. Segja má að í kjördæminu sé Akureyri í aðalhlutverki, þar eru kjósendurnir 14.386 eða 48,1% af kjördæminu.

Margir af oddvitum framboða í kjördæminu eru frá Akureyri, sem ef til vill öðlast meira samfélagslegt vægi á næstu árum. Þar er vísað í tillögur nefndar á vegum samgönguráðherra sem kynntar voru í sl. viku sem eru að Akureyri verði skilgreind sem svæðisborg. Fái stærra hlutverk en áður á sviði heilbrigðismála, menningar, mennta, norðurslóðamála, stjórnsýslu og annars slíks. Þarna er gjarnan um að ræða verkefni sem krefjast rannsókna, þekkingar og annars slíks.

Á Akureyri er vísir að borgarsamfélagi – jafnframt því sem sjávarútvegur er mikilvæg stoð í atvinnulífinu þar. Að hinu leytinu er þetta bær þjónustu fyrir nærliggjandi svæði og í raun kjördæmið allt. Miðlægur staður og sína sögu segir að þegar kjörstöðum hefur verið lokað að kvöldi 25. september verða atkvæðakassar fluttir úr Svarfaðardal, Grímsey, Mjóafirði og frá Djúpavogi og öllum kjörstöðum þar á milli til Akureyrar á talningarstað þar.

Samgöngur og heilbrigðismál

Viðmælendur Morgunblaðsins segja kosningamálin í Norðausturkjördæmi í stórum dráttum vera óskir um frekari uppbyggingu í samgöngum og eflingu heilbrigðisþjónustu og skólastarfs. Bæði á Eyjafjarðarsvæðinu og á Austurlandi er svo þrýst á um uppbyggingu og markaðssetningu flugvalla, svo millilandaflug að staðaldri verði að veruleika. Að hinu leytinu er mikið rætt um atvinnumál – og í því sambandi vakin athygli á orkumálum. Takmörkuð flutningsgeta á rafmagni inn á Eyjafjarðarsvæðið stendur mörgu þar fyrir þrifum og frambjóðendur eru hvattir til að höggva á þá hnúta sem þar eru fyrirstöður.

„Hugmyndin um Akureyri sem svæðisborg slær nýjan tón. Margt hér á Norðurlandi gæti eflst verði þessi tillaga að veruleika,“ segir Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. „Í samtölum við stjórnmálamenn höfum við einnig reifað samgöngur og raforkumál. Þriggja fasa rafmagn er nauðsynlegt og komið mjög víða, svo sem í sveitunum þar sem brýn þörf er á slíku í tæknivæddum búskap.“

Fiskeldi og hálendisþjóðgarður

„Hér fyrir austan verður umræða alltaf mest um þau mál sem standa næst íbúunum. Í því efni er atvinna undirstaða alls,“ segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar/ Austurgluggans . „Samgöngumálin ber líka oft á góma, núna er vaxandi þungi í umræðu um millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll og uppbyggingu ýmissa vega. Þá er sennilegt að í umræðu á næstunni komi fiskeldi, hálendisþjóðgarður og landbúnaðarmál sterk inn.“

Tryggja þarf stöðu landbúnaðar

„Landbúnaðinn þarf að verja,“ segir Gunnhildur Gylfadóttir á Steindyrum í Svarfaðardal. „Stöðuna má t.d. tryggja með innflutningstollum, sem skapað geta jafnvægi í samkeppni Íslendinga við markaði þar sem aðstæður eru allt aðrar og launakostnaður mun lægri. Í stjórnmálum þarf líka að taka umræðu um þá stefnu að afgreiðslum eða starfsemi æ fleiri stofnana úti á landi er lokað. Slíkt veikir innviði samfélaga.“

Samgöngumálin mikið rædd

„Samgöngur eru mikið ræddar fyrir kosningar,“ segir Sigurjón Bjarnason, bókari á Egilsstöðum. „Hér þarf tengingar við Seyðisfjörð og Fjarðabyggð með göngum. Betri vegir milli Héraðs og Borgarfjarðar eystri og á Öxi eru einnig aðkallandi, svo Múlaþing verði sameinað sveitarfélag í raun. Þetta tel ég almenna skoðun á Austurlandi, þar sem mörgum finnst lítið sameiginlegt með Norðurlandi í einu kjördæmi.“

Hafa heiminn allan í huga

„Við þurfum að hugsa betur um jörðina,“ segir Hjördís Óskarsdóttir, nemi við Framhaldsskólann á Húsavík. „Umhverfismál brenna á ungu fólki sem vill raunhæfar lausnir til að sporna við hlýnun andrúmsloftsins. Þar þurfa stjórnmálamenn að koma með raunhæf svör. Ísland á líka, eins og við höfum burði til, að taka á móti fleiri flóttamönnum. Þurfum einfaldlega að hugsa stórt og hafa heiminn allan í huga.“

Stöðugleiki tryggi framþróun

„Stærri flugstöð á Akureyri og skilyrði fyrir reglulegt millilandaflug hafa lengi verið baráttumál í pólitík hér nyrðra. Smám saman potast þetta, en meira þarf til,“ segir Sævar Helgason, framkvæmdastjóri á Akureyri. „Svo þarf frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu, til dæmis á hálendinu. Framþróun í samfélaginu almennt verður þó best tryggð með stöðugleika. Vöxtur eða óvissa; þar liggur efinn.“