Vinnumarkaður Fylgja styttingu vinnutímans eftir og nauðsynlegt er að 36 stunda vinnuvika verði lögfest, segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Vinnumarkaður Fylgja styttingu vinnutímans eftir og nauðsynlegt er að 36 stunda vinnuvika verði lögfest, segir Friðrik Jónsson, formaður BHM. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Eitt af mikilvægum verkefnum næstu missera er að byggja hér á landi upp hagkerfi þekkingar, sem laðar að fólk með margvíslega sérfræðimenntun. Virði slíkra starfa er mikið og tekjurnar sömuleiðis, sem eru fljótar að seytla út í hagkerfið,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM. „Reynsla síðustu missera í heimfaraldri hefur kennt okkur að stoðir samfélagsins þurfa að vera traustar. Sjávarafli er svipull og ferðaþjónustan sömuleiðis. Því þarf að leggja grunn að breyttu atvinnulífi.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Eitt af mikilvægum verkefnum næstu missera er að byggja hér á landi upp hagkerfi þekkingar, sem laðar að fólk með margvíslega sérfræðimenntun. Virði slíkra starfa er mikið og tekjurnar sömuleiðis, sem eru fljótar að seytla út í hagkerfið,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM. „Reynsla síðustu missera í heimfaraldri hefur kennt okkur að stoðir samfélagsins þurfa að vera traustar. Sjávarafli er svipull og ferðaþjónustan sömuleiðis. Því þarf að leggja grunn að breyttu atvinnulífi.“

Formaður BHM hefur nú í aðdraganda þingkosninga átt fundi með forystufólki þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði. Brýn mál eru reifuð á fundum sem Friðrik segir gagnlega.

Lýðheilsa og meiri fyrirsjáanleiki

„Í sjálfu sér er svipaður skilningur þvert á flokkslínur um helstu mál og viðfangsefni og fólk oft sammála um markmið, en ekki leiðirnar að þeim. Slíkt er líka í fínu lagi,“ segir Friðrik sem tók við formennskunni í BHM síðastliðið vor.

Í samtölum við stjórnmálamenn kveðst Friðrik hafa lagt þunga á það sjónarmið að ný ríkisstjórn búi svo um hnúta að skapaður verði meiri fyrirsjáanleiki til lengri tíma í aðgerðum gegn Covid-19. Tryggja þurfi lýðheilsu, skv. bestu ráðum vísindamanna, en stjórnmálanna sé að horfa til hinna efnahagslegu og félagslegu þátta í þessu sambandi.

„Nú hefur þorri landsmanna verið bólusettur sem ætti að skapa jafnvægi. Eftir standa hins vegar spurningar um stöðu heilbrigðiskerfisins. Fyrir um mánuði voru til dæmis settar á nokkuð stífar takmarkanir úti í samfélaginu til þess að draga úr álagi á Covid-deildir Landspítalans. Slíkt gæti bent til að eitthvað sé að í heilbrigðiskerfinu. Stundum er sagt að neyðarástandið á sjúkrahúsinu sé einu rútuslysi frá skelfingu. Því þarf að greina betur hvar þolmörk spítalans gagnvart álagi liggja. Takmarkaður fjöldi gjörgæslurýma er eitt þessara atriða,“ segir Friðrik.

Kreddur eru varhugaverðar

Í þessu sambandi vekur hann athygli á herferðinni Sem betur fer , þar sem BHM, Læknafélag Íslands og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vekja athygli á mikilvægi starfa félagsmanna sinna í faraldrinum.

Kreddur um rekstarform í heilbrigðisþjónustu segir Friðrik varhugaverðar. Opinber rekstur sé þar í aðalhlutverki, en einkarekstur ýmissa félagasamtaka og stétta með þjónustusamningum við ríkið sé einnig mikilvægur. Fjölmargir félagsmenn BHM, það er háskólamenntaðir sérfræðingar, starfi við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, við þjónustu sem ágreiningslaust sé að verði áfram greidd af ríkinu.

Alls um 16.000 manns eiga aðild að BHM - Bandalagi háskólamanna – sem eru regnhlífarsamtök fag- og stéttarfélaga fólks í sérfræðistörfum í opinberri þjónustu sem og á einkamarkaði.

Kjarasamningar bandalagsins við viðsemjendur gilda fram í mars árið 2023 og nú þykir tímabært að huga að framhaldinu. „Ég tel ólíklegt að aðildarfélög BHM séu tilbúin í krónutöluhækkanir launa. Frekar viljum við hlutfallshækkanir og að hér gildi samkeppnishæf laun,“ segir Friðrik. „Á síkvikum vinnumarkaði þarf annars að horfa til mjög margra fleiri þátta en launa, svo sem skattamála og lífeyrismála. Til viðbótar við laun hvers starfsmanns þarf atvinnurekandi að greiða um 20% meira, í lífeyrissjóði og tryggingagjöld. Slíkt er talsverður peningur og við þurfum þá líka að vera viss um að kerfin sem greitt sé til virki. Auk þess verða félagar í BHM fyrir miklum jaðarskattaáhrifum vegna tekjutenginga skattkerfisins.“

Jafnréttismálin koma líka sterk inn í alla samningagerð, segir Friðrik. Hann segir margt benda til að sem fyrr sitji stéttir þar sem meirihluti starfsmanna eru konur eftir í launaþróun, til dæmis þær sem vinna hjá sveitarfélögunum.

Menntun ekki metin til launa

„Menntun á Íslandi er ekki metin til launa með sama hætti og gerist annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu. Þá þurfum við líka að fylgja styttingu vinnutímans eftir. Í sumum tilvikum hefur hún verið sýnd veiði en ekki gefin og nauðsynlegt er að 36 stunda vinnuvika verði lögfest. Einnig þarf að huga betur að stöðu einyrkja á vinnumarkaði. Margir sjálfstætt starfandi eru í BHM og við tökum fagnandi á móti þeim. Þeim sem eru í harkhagkerfinu fjölgar stöðugt, samkvæmt þróun tímans, en réttindi þess fólks eru oft óljós og þarf í mörgum tilvikum að styrkja. Það verða áfram miklar breytingar á vinnumarkaði í þessa átt. Einstaklingar eru fyrirtæki framtíðar.“