Lausn sinni á laugardagsgátunni lét Helgi R.

Lausn sinni á laugardagsgátunni lét Helgi R. Einarsson þennan texta fylgja um ferð sína til Ítalíu á dögunum: „Eitt af því sem við afrekuðum í ferðinni var að fara til Veróna í Arenuna og hlýða á Aidu eftir Verdi, þriggja tíma verk sem endar með ósköpum, enda tvær að berjast um ástir sama mannsins.

Þarna gafst tími til að leggja hausinn í bleyti.

Aida

Þótt herji á heiminn kóróna

við hlýðum á fegurstu tóna,

sem hlustendur æra

og unaðsstund færa.

Aidu, suðr í Veróna.

En hér elskendur tölunni týna,

því tryggð virðist kvöl bæði' og pína.

Því sæll héðan fer

og sáttur mjög er

með konu' eins og konuna mína.

Á boðnarmiði fylgist Jón Atli Játvarðsson með Skaftárhlaupi og árangur metinn:

Komu til skjalanna katlarnir tveir

kaffærðu hraun og mel.

Hlaupvatnið gjafmilda lagði til leir

og landmótun gengur vel.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir sagði á fimmtudag: „Í gær skein ekki sól“:

Komin rigning köld og hrá

kælir á mér trýnið

Nú væri fegri sjón að sjá

sólina skína á vínið.

Sigurlín Hermannsdóttir yrkir um „litlu hjónin“:

Lágvaxin lít ég þar hjón

lífshlaupið þeirra tómt tjón

við hvort annað kljást

og kulnuð öll ást

ég kenni hér Gunnu og Jón.

Þorgeir Magnússon yrkir:

Hægum skrefum haustið rauða

hingað lammar sig,

færir okkur föllin sauða

feit og guðdómlig.

Hallmundur Guðmundsson yrkir um „Hlaup“:

Nú jöklarnir safna í sjóði,

sulli og miklum viðbjóði.

Ef sullast burt sullið

þá sjáum við bullið

– og heyrum í fjölmiðlaflóði.

Á mánudag skrifaði Jón Atli Játvarðarson: „Málin til umræðu. (Hefnd=hemd)“:

Upphaf ferlisins; hugað að hefnd,

höfundur ritar í sand.

Einhver kemur með athugasemd,

annar dregur í land.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is