Guðmundur Þorsteinn Bjarnason fæddist 17. febrúar 1930. Hann lést 11. ágúst 2021.

Guðmundur var jarðsunginn 30. ágúst 2021.

Elsku besti frændi, þú hefur kvatt þína jarðvist og haldið yfir í sumarlandið til hennar Stínu þinnar, foreldra þinna og bræðra. Eitthvað segir mér að glatt sé á hjalla hinum megin við huluna.

Ég ólst upp við að hitta þennan stórskemmtilega frænda frá Akureyri nokkuð reglulega, bæði í heimsóknum norður og þegar Guðmundur og Stína komu suður eftir. Alltaf var stoppað í Borgarnesi og kíkt í kaffi til afa og ömmu á Þórólfsgötunni og mikið talað og ennþá meira hlegið. Eins á ég margar minningar úr ýmsum lautarferðum, berjatínslum og sumarbústaðarferðum með þeim heiðurshjónum og ömmu og afa.

Fyrir mér var ákveðinn ljómi yfir þessum bústna frænda mínum, sem mætti á flöskugræna bílnum sínum og var ávallt með sixpensara með dúsk. Hann talaði mikið og fræddi mann um alla heimsins steina og oft var vaðallinn á honum það mikill að svefnhöfgi sótti á mann. En fróður var hann og ennþá meiri listasmiður. Síðari ár lagði hann mikið upp úr því að slípa steinana sína og binda þá í ýmiskonar skart og maður fékk sko alls ekki að neita því að taka með sér eins og eitt til tvö hálsmen þegar maður kíkti til hans í heimsókn.

Heimsóknir síðari árin voru ekki eins margar og mig hefði langað til að þær væru, en ég náði að kíkja til þeirra hjóna í vinnuferð minni til Akureyrar stuttu áður en Stína mín kvaddi sína jarðvist.

Í þeirri heimsókn dró Guðmundur upp forláta mynd, eina málverkið sem ég hef gert og gaf honum eftir nám mitt á Ítalíu, og bað hann mig um að árita hana fyrir sig en mér hafði láðst að gera það á sínum tíma.

Ég fór svo í stutta sumarferð norður í lok júlí á þessu ári með fjölskylduna mína og gat ekki sleppt því að kíkja til míns ástkæra frænda. Við sátum saman frændurnir í að verða á annan tíma og spjölluðum og fórum yfir gamlar myndir af fjölskyldunni okkar, hann var þokkalega vel með á nótunum, þó að hann dytti við og við út, en ég vissi að honum hafði hrakað umtalsvert síðustu mánuðina. Ég hélt í höndina á honum og náði bæði að knúsa hann og gefa honum góðan kveðjukoss. Ég hefði ekki fyrirgefið mér hefði ég sleppt þessari dýrmætu heimsókn og auðvitað fór ég með skartgripi í vasanum til handa fjölskyldunni minni frá honum.

Ég geymi margar góðar og hlýjar minningar um þennan góða bróður afa míns í hjarta mínu. Þykir leitt að geta ekki fylgt honum allra síðasta spölinn sökum heilsuleysis en ég mun vitja hans í garðinum í næstu heimsókn minni norður og spjalla við hann líkt og við gerðum oft hérna í denn.

Nú ertu farinn elsku frændi minn.

Frá okkar veröld lausn fékk andi þinn.

Á himinboga blika stjörnur tvær.

Hve brosi í augum þínum líkjast þær.

Nú gengur þú til fundar Frelsarans.

Friðargjafans, náðar sérhvers manns.

Þar englar biðja í bláum himingeim

og bíða þess þú komir loksins heim.

Þinn frændi,

Jóhann (Jói).