[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hauk Ágústsson: "Hlýindi virðast því vera af hinu góða."

Í framhaldi af nýútkominni skýrslu IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change – loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna) dynja á hlustendum ljósvakamiðla og lesendum prentmiðla upphrópanir um yfirvofandi hrun lífríkis, mannlegrar tilveru, vaxandi ógnir í veðurfari og annað í svipuðum dúr. Með fylgja hvatningar til aðgerða, sem aldrei er greint frá hvað muni hafa í för með sér í kostnaði eða umbyltingu á lífskjörum og lífsháttum. Þessi umfjöllun er miklu tíðast með öllu einhliða; einungis er sett fram ein hlið málsins – sú sem er myrkust.

Fréttamenn

Í góðri og vandaðri umfjöllun og fréttamennsku á reglan að vera sú, að mál séu skoðuð frá fleiri en einu sjónarhorni. Fréttamenn eiga ekki að reka áróður, heldur gefa lesendum sínum og hlustendum sem hlutlausastar og viðtækastar upplýsingar um þau mál, sem eru til umræðu. Geri þeir það ekki bregðast þeir hlutverki sínu og verða í raun ekki annað en meðvirk handbendi þeirra, sem hrópa hæst, en ekki þeir upplýsendur um fjölbreytileika mannlífsins, skoðana og viðhorfa, sem þeir eiga að vera vilji þeir vera starfi sínu trúir, eða það, sem þeir segjast vilja og telja sig vera: flytjendur hlutlægra upplýsinga og fróðleiks; hið upplýsandi afl í samfélaginu, sem miðlar því efni, sem þörf er á, til þess að borgararnir geti hver um sig tekið upplýsta afstöðu til þess, sem er efst á baugi hverju sinni.

Fréttamenn eiga líka að leitast við að hafa yfirsýn. Þeir eiga ekki að gleypa hráar og birta stórkarlalegar staðhæfingar um til dæmis það, að aldrei hafi verið hlýrra á jörðinni, að aldrei hafi verið fleiri eða verri fellibyljir, aldrei önnur eins flóð, aldrei skaðvænlegri gróðureldar eða annað í svipuðum dúr. Þeirra verkefni er að greina rétt frá. Þeir eiga að leita upplýsinga; leita staðfestinga, leita hins sanna og þannig leitast við að setja fram það, sem rétt er, en ekki bergmála umhugsunarlaust það, sem að þeim berst úr ranni háværra og stórorðra manna, sem virðast hafast við í endurómsrýmum sér líkra og vilja ekki heyra í nokkrum öðrum en sjálfum sér og skoðanasystkinum sínum.

Loftslagsrannsóknir

Vísindamenn hafa í áraraðir unnið að því að greina og rekja loftslag á jörðinni langt aftur í tímann. Til þess hafa þeir nýtt sér tækni nútímans. Þeir hafa tekið ískjarna úr jöklum á Grænlandi og úr íshellu suðurskautsins, borað í setlög á hafsbotni, talið árhringi í trjám og grúskað í gögnum liðinna kynslóða. Til hefur orðið mynd af loftslagi á jörðinni, sem nær hundruð þúsunda ára aftur í tímann og hefur verið grandskoðuð og rýnd. Hún er komin í nokkuð endanlegt form og er almennt viðurkennd sem marktæk í umræðu um loftslag á þessum hnetti.

Á meðal þess, sem sett hefur verið fram, eru línurit um loftslag yfir afmörkuð tímabil, svo sem tímann frá hámarki síðustu ísaldar til nútíma. Þessi línurit hafa birst víða og sem næst ætíð í sömu mynd, eða þeirri, sem hér fylgir.

Línuritið

Svo sem sjá má á línuritinu lauk síðustu ísöld endanlega fyrir um 8.000 árum með nokkru skeiði hlutfallslegrar hlýnunar. Þá tók við mikið hlýindaskeið, en á því blómstraði menning Egypta hinna fornu. Við tók kuldaskeið, en síðan hlýnaði á ný og upp rann mikið blómaskeið, svo sem í Egyptalandi. Reyndar var heldur svalara en á fyrsta hlýindaskeiðinu eftir síðustu ísöld, en bæði menning og mannlíf náðu miklum hæðum og sjást merki þess enn í dag í til að mynda hinum miklu píramídum, sem reistir voru á þessu skeiði, skreytingum þeirra og myndletri. Við tók kuldaskeið og stutt hlýindaskeið. Eftir enn eina kólnun rann upp hlýindaskeið, sem kennt er við Rómverja, en á því blómstraði bæði þeirra menning og einnig annarra þjóða bæði í Asíu og í Ameríku, svo sem menning Maya, sem kom fram upp úr 750 f.Kr. og stóð fram til um 500 e.Kr., eða svipaðan tíma og Rómarveldið. Enn kólnaði og átti það sinn þátt í miklum fólksflutningum – þjóðflutningunum miklu – og falli Rómarveldisins. Við tók miðaldahlýindaskeiðið. Þá hlýnaði svo vel, að Ísland byggðist og Grænland líka, vínviður óx hærra hlíðum Alpafjalla en síðan hefur gerst og allt norður á Englandi og suðrænar korntegundir náðu þroska norðar en fyrr.

Að lokum

Eins og fram kemur á línuritinu hafa hlýindaskeiðin frá síðustu ísöld orðið flest styttri og svalari í tímans rás. Annað er líka greinilegt, eða það, að mannlíf og menning hefur blómstrað á hlýindaskeiðum en hnignað á kuldaskeiðum. Hið sama gildir um dýralíf og jurtir. Hlýindi virðast því vera af hinu góða.

Umliðin um það bil 25 ár hafa gervitungl hringasólað um jörðina og tekið af henni myndir. Á meðal þess, sem fram hefur komið á þessum myndum, er það, að í heild tekið hefur jörðin grænkað. Það helst í hendur við það, að nú stendur yfir hlýindaskeið, reyndar nokkuð kyrrstætt sem stendur, því að frá um það bil 1995 hefur meðalhitinn á jörðinni lítið sem ekkert breyst.

Er ekki rétt að láta af upphrópunum um kolefni og hlýnun og horfast í augu við hinn raunverulega vanda sem að steðjar? Ekki hlýindi, heldur of mikla fólksfjölgun og stórfellda fólksflutninga.

Höfundur er fyrrverandi kennari.

Höf.: Hauk Ágústsson