Fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega fyrir hverja 100 þúsund á vinnualdri (18-66 ára) 1. janúar ár hvert. Miðast við 75% örorkumat eða rétt til endurhæfingarlífeyris.
Fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega fyrir hverja 100 þúsund á vinnualdri (18-66 ára) 1. janúar ár hvert. Miðast við 75% örorkumat eða rétt til endurhæfingarlífeyris.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ástu Ásgeirsdóttur: "Við blasir að kanna þarf hvað veldur aukinni örorku og meta til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að sporna við þessari þróun."

Almannatryggingar greiða um þrjá fjórðu hluta örorkulífeyris hérlendis en um fjórðungur alls lífeyris vegna örorku er greiddur úr samtryggingarkerfi lífeyrissjóða. Þetta hlutfall er svipað ár frá ári.

Þeim hefur fjölgað næsta stöðugt frá aldamótum sem eru með 75% örorkumat eða rétt til endurhæfingarlífeyris. Fyrir hverja 100.000 manns á vinnualdri voru þannig um 6.300 á örorku- og endurhæfingarlífeyri árið 2000, fjöldinn var kominn í 8.600 árið 2010 og í 9.700 manns í ársbyrjun 2021 eða nær 10% fólks á aldrinum 18-66 ára.

Þessa þróun má glöggt sjá í meðfylgjandi súlu- og línuriti sem byggt er á upplýsingum frá Hagstofu Íslands og Tryggingastofnun ríkisins.

Lífeyriskerfi landsmanna stendur í heild fyrir sínu og iðgjöld í lífeyrissjóði eru mikilvægur hluti örorkutrygginga landsmanna. Þannig er hluti af lífeyrisgreiðslum samtryggingardeilda lífeyrissjóða til greiðslu örorku-, maka- og barnalífeyris. Það breytir hins vegar ekki því að meginhlutverk lífeyrissjóða er að greiða sjóðfélögum ævilangan lífeyri við starfslok.

Iðgjöld til samtryggingardeilda alls lífeyrissjóðakerfisins námu 229 milljörðum króna árið 2020 og sama ár greiddu samtryggingardeildir lífeyrissjóða rúmlega 22 milljarða króna í örorku- og endurhæfingarlífeyri. Þróun mála varðandi örorku og tíðni hennar hefur því augljóslega áhrif til lengri tíma á burði lífeyrissjóða til að greiða sjóðfélögum eftirlaun.

Þá er þess að geta að tryggingafræðileg áhætta vegna örorku er mjög misjöfn eftir lífeyrissjóðum. Hjá sumum sjóðum eru allt að 30% lífeyrisgreiðslna vegna örorkulífeyris en hjá öðrum sjóðum er hlutfallið mun lægra. Það er og hefur verið umfjöllunarefni á vettvangi lífeyrissjóða hvernig bregðast skuli við enda ljóst að hlutfallslega minna af iðgjöldum er varið til eftirlauna í sjóðum sem hafa hátt hlutfall örorkulífeyris en í sjóðum þar sem fleiri halda starfsorku allt þar til eftirlaunaaldri er náð.

Ástæða er til þess að greina frekar þá hópa samfélagsins þar sem tíðni örorku hefur aukist undanfarin ár. Það er forsenda þess að bregðast við og vinna að því að gera fleirum mögulegt að halda lengur starfsorkunni.

Tvennt liggur fyrir varðandi áhættu á örorku. Annars vegar að örorka eykst með aldri og hins vegar að hlutfall örorku kvenna er mun hærra en karla og gildir það um alla aldurshópa nema fyrir hópinn undir tvítugu. Í gögnum Hagstofunnar um fjölda örorkulífeyrisþega kemur fram að undanfarin ár hefur hlutfall kvenna á örorku innan hvers aldurshóps farið hækkandi en ekki er hægt að sjá skýr merki um sömu þróun hjá körlum ef frá er talinn aldurshópurinn 20-29 ára.

Við blasir að kanna þarf hvað veldur aukinni örorku og meta til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að sporna við þessari þróun. Lífsgæði þeirra sem missa starfsorku, jafnvel á besta aldri, skerðast augljóslega auk þess sem dýrt er fyrir samfélagið að missa fólk af vinnumarkaði.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á vinnumarkaði hérlendis og annars staðar á tiltölulega skömmum tíma. Ástæða er til að ræða um núverandi fyrirkomulag og endurmeta undirstöður kerfisins til að treysta þær til framtíðar. Staðreyndir sem hér eru dregnar fram benda til að þörf sé á því. Jafnframt blasir við að ræða hlutverk lífeyrissjóða gagnvart greiðslum örorkulífeyris og áhrif þess á það meginverkefni allra sjóða að greiða sjóðfélögum eftirlaun til æviloka.

Frekari upplýsingar má finna á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, www.lifeyrismal.is .

Höfundur er hagfræðingur Landssamtaka lífeyrissjóða.

Höf.: Ástu Ásgeirsdóttur