30 ára Hrafnhildur er Reykvíkingur í húð og hár. Hún ólst upp í Grafarvoginum og var í skóla í Engjahverfinu og æfði handbolta með Fjölni framan af. Þegar kom að menntaskólaárunum fór hún í Verslunarskóla Íslands.
30 ára Hrafnhildur er Reykvíkingur í húð og hár. Hún ólst upp í Grafarvoginum og var í skóla í Engjahverfinu og æfði handbolta með Fjölni framan af. Þegar kom að menntaskólaárunum fór hún í Verslunarskóla Íslands. „Ég valdi hann mest út af félagslífinu og bekkjarkerfinu og var mjög ánægð þar, og útskrifaðist árið 2011.“ Eftir útskriftina vann hún með ungmennum með fötlun og í félagsmiðstöð til að vinna sér inn pening fyrir heimsreisu. „Við fórum nokkrar vinkonur saman í ferðalag til Suðaustur-Asíu og fórum til Singapúr, Taílands, Víetnams, Laos og Kambódíu og það var ótrúlega gaman og mikil upplifun.“ Þegar heim var komið fór hún fyrst að vinna en fór svo í Háskóla Íslands í sálfræði. „Eftir útskriftina fór ég beint í meistaranám í Háskólanum í Reykjavík og útskrifaðist sem sálfræðingur 2018.“ Í dag starfar hún sem sálfræðingur á Heilsugæslunni í miðbæ Reykjavíkur.

Hrafnhildur hefur margvísleg áhugamál og hefur gaman af því að fara á tónleika, spila með vinum, fara á skíði og allri útivist og ferðalögum.

Fjölskylda Sambýlismaður Hrafnhildar er Ísak Þórhallsson, verkefnastjóri í Hinu Húsinu. Þau eiga soninn Jökul Hrafn og svo eiga þau von á öðru barni í febrúar. Foreldrar Hrafnhildar eru Úlfhildur Elísdóttir, sem vinnur hjá Garra, f. 8.2. 1962 og Snæbjörn Tryggvi Guðnason, sjálfstætt starfandi, f. 13.1. 1961. Þau búa í Reykjavík.