Geir Guðlaugsson fæddist 24. október 1935 á Akureyri. Hann lést 1. september 2021.

Foreldrar hans voru Guðlaugur Marteinsson, f. 6. júní 1911 á Sjöundastöðum í Fljótum, d. 7. september 1992, og Elsa Jónsdóttir, f. 16. júní 1916 á Krossanesi, Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, d. 2. ágúst 1953.

Bræður Geirs eru Skúli Guðlaugsson, f. 7. nóvember 1942 á Akureyri, og Jón Guðlaugsson, f. 2. janúar 1945 á Hjalteyri.

Eiginkona Geirs er Jóhanna Þórdís Þórarinsdóttir, f. 10. desember 1937.

Þau voru gefin saman 13. október 1957 í prestsbústaðnum á Akranesi og eignuðust fimm dætur.

1) Elsa Guðlaug, f. 19. júlí 1955, maki Sveinn Vilberg Garðarsson. 2) Þuríður Elín, f. 3. nóvember 1956, maki Sigurmon Marvin Hreinsson. 3) Pála Svanhildur, f. 24. febrúar 1958, sambýlismaður Kristinn Pétursson. 4) Anna Jóna, f. 11. febrúar 1962, maki Indriði Þórisson. 5) Laufey Helga, f. 21. mars 1968, sambýlismaður Olgeir Andrésson.

Geir var lengst af bóndi á Kjaransstöðum í Hvalfjarðarsveit.

Afkomendur þeirra hjóna eru alls 48. Barnabörn eru 13, barnabarnabörn 29, og eitt barnabarnabarnabarn.

Útförin fer fram frá Akraneskirkju í dag, 13. september 2021, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju:

https://www.akraneskirkja.is/

Virkan hlekk má einnig nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat/

Geir Guðlaugsson eða Geirsi eins og hann alltaf var kallaður í sveitinni í gamla daga er nú fallinn frá, en hann var kvæntur móðursystur minni Jóhönnu Þórarinsdóttur. Stýrðu þau myndarbúi að Kjaransstöðum, sem þau tóku við af afa og ömmu, Þórarni E. Jónssyni og Þuríði S. Jóhannesdóttur, þar til Anna Jóna dóttir þeirra og tengdasonur tóku við búi. Þá byggðu þau sitt eigið hús, Kjaransstaði 2, á jörðinni og hafa búið þar síðan.

Það að „fara í sveit“ var ómetanleg reynsla fyrir börn og ungmenni þegar við systkinin vorum að alast upp. Vorum við Jóhann Svanur elstu bræðurnir þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í sumardvöl á Kjaransstöðum í mörg ár og Jóhann talsvert meira en ég.

Manni varð fljótt ljóst hversu góður bóndi Geirsi var. Hann var kraftakarl og man ég að ég dáðist að hvernig öflugir upphandleggsvöðvar hans hnykkluðust við heyskapinn, og æfði mig í laumi skv. frægri æfingabók Charles Atlas til að reyna að efla vöðvastyrk svo ég yrði eins og Geir. Hann var einnig afbragðskunnáttumaður á vélar og gerði við hvaðeina og þurfti eiginlega aldrei virtist mér að kalla til neina viðgerðarmenn. Ekki var heldur oft kallað á dýralækna og læknaði hann kýrnar með ýmsum aðferðum sem mér þóttu nýstárlegar og ekki ólíklegt að það hafi verið eitt af því sem kveikti áhuga minn á læknisfræði síðar.

Þá vakti sérstaka athygli mína og aðdáun á kvöldin við mjaltirnar hversu góður söngmaður Geir var, en hann söng gjarnan hástöfum við beljurassana og Jóhanna frænka mín tók stundum undir, enda sungu þau árum saman í kirkjukórnum við Innra-Hólmskirkju. Þar var hann máttarstólpi í bassanum. Eftir mjaltir á fallegum sumarkvöldum man ég eftir fótboltaæfingum við skólann í sveitinni, þar sem bændur og vinnumenn þeirra og gestir tókust á. Geir var yfirleitt í vörninni því hann var firnasterkur í fótunum líka og tók oft útspörk frá marki og mátti þá markmaðurinn hinum megin setja sig í stellingar og vera viðbúinn því ósjaldan náði hann að sparka frá marki alveg að marki andstæðinganna. Húmorinn og glettnin var alltaf nærtæk hjá Geirsa og kitlaði hláturtaugar nærstaddra. Þá var kunnátta hans á harmonikku vel þekkt og marga harmonikkuhátíðina hafa þau hjónin sótt um ævina, gjarnan á húsbílnum sínum með viðkomu hjá okkur hjónum á Akureyri ef svo bar undir og voru þær heimsóknir alltaf skemmtilegar.

Já, maður á margar góðar minningar um Geir en afkomendur þeirra hjóna eru orðnir ótrúlega margir. Jóhönnu frænku og dætrunum Elsu, Þuríði (Diddu), Pálu, Önnu Jónu og Laufeyju Helgu, þeirra mökum börnum og barnabörnum, sendi ég innilegar samúðarkveðjur og kveðjur fylgja einnig frá minni fjölskyldu, móður og systkinum.

Haraldur

Hauksson.