Gleðistund Elif Shafak og Katrín Jakobsdóttir í Veröld – húsi Vigdísar.
Gleðistund Elif Shafak og Katrín Jakobsdóttir í Veröld – húsi Vigdísar. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Rithöfundurinn Elif Shafak tók við Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness við hátíðlega athöfn á lokadegi Bókmenntahátíðar í Reykjavík á laugardag.

Rithöfundurinn Elif Shafak tók við Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness við hátíðlega athöfn á lokadegi Bókmenntahátíðar í Reykjavík á laugardag. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru veitt en það var gert í fyrsta sinn á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2019 þegar Ian McEwan hlaut verðlaunin. Að verðlaununum standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið, útgefandi Halldórs Laxness á Íslandi. Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Eliza Reid forsetafrú, Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík, og verðlaunahafinn Ian McEwan.

Í umsögn valnefndar segir: „Elif Shafak er einstök og mögnuð rödd í heimsbókmenntunum – einstök vegna þess að hún sameinar siðferðisstyrk og afl stjórnmálanna í fallegum textum og meðfæddum skilningi á ævintýralegum flækjum frásagnarlistar. Hún er sérfræðingur í að bræða saman ofurraunsæi og líðandi stundu, eins og hún gerir í frábærri skáldsögu sinni, 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld . Hún skilur ást og kærleik í göfugustu merkingu þeirra hugtaka, og hún veit líka allt um þau ópersónulegu áhrif sem söguleg þróun getur haft á einkalíf manna. Shafak býður karlmönnum að taka virkan þátt í starfi femínista, eins og sést í innilegustu og blíðlegustu þáttum frásagna hennar. Skáldsögur hennar eru baðaðar töfraljóma djúprar og virkrar hugsunar. Hún gjörþekkir hjörtu mannanna og hún hefur hugrekki til þess að láta lesandann horfast í augu við taumlausa grimmd félagslegs ranglætis.“