Jens Eiríkur Helgason fv. bóndi, Hátúnum í Landbroti, fæddist á Jótlandi í Danmörku 10. nóvember 1942, þá Jens Erik Rosendal Bondesen, en hann fékk íslenskan ríkisborgararétt 23. október 1971. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 1. september 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Knud Helge Bondesen, f. 1. október 1912, og Valborg Bondesen, f. 23. apríl 1913. Þau eru bæði látin. Systkini hans voru Åse Sigrid Marie Clausen, f. 17. ágúst 1936, d. 16. júlí 2003, Villy Andreas Bondesen, f. 24. desember 1938, Anna Grethe Kristensen, f. 4. maí 1940, d. 6. september 2002, Svend Åge Bondesen, f. 1. apríl 1945, d. 22. september 2012, Betty Danielsen, f. 12. desember 1946, og Anna Lise Madsen, f. 31. mars 1949.

Þann 19. júlí 1969 giftist Jens Sigríði Halldóru Þórarinsdóttur, bónda og húsmóður í Hátúnum í Landbroti. Hún fæddist í Hátúnum 20. september 1939 en lést 13. september 2010. Foreldrar Sigríðar voru hjónin Þórarinn Kjartan Magnússon, f. 19. júlí 1912 í Hátúnum, og Þuríður Sigurðardóttir, f. 6. desember 1908 á Hellnum í Mýrdal. Eru þau bæði látin. Börn þeirra Jens og Sigríðar eru: 1) Kári Þór Sigríðarson, f. 22. júlí 1965. 2) Helgi Valberg Jensson, f. 25. ágúst 1978, unnusta hans er Margrét Kristín Pálsdóttir, f. 15. febrúar 1985, barn þeirra er Elsa María, f. 15. mars 2020. Fyrir á Helgi börnin Arnór, f. 24. apríl 2009, og Thelmu Sigríði, f. 13. október 2012. Fyrir á Margrét barnið Pál Sölva, f. 3. ágúst 2013. 3) Sveinn Hreiðar Jensson, f. 8. september 1982, eiginkona hans er Anastassiya Kim, f. 9. maí 1988.

Jens hóf á unglingsárum störf í Danmörku hjá jarðvinnuverktökum víðsvegar þar í landi, þar sem hann vann ýmist á jarðvinnu- eða kornvélum. Árið 1966 ákveður Jens að hleypa heimdraganum en hann ætlaði upphaflega að fara til Bandaríkjanna. Hann hafði stutta viðkomu á Íslandi þar sem hann fékk vinnu á vegum búsins í Laugardælum við Selfoss þar sem hann kynntist eiginkonu sinni. Þá starfaði hann árið 1967 á Setbergi í Hafnarfirði en síðar það ár fluttust þau að ríkisbúinu Vífilsstöðum í Garðahreppi í Gullbringusýslu. Stofna þau þar heimili og starfa þau þar við búið. Árið 1971 hófu þau hjón búskap í Hátúnum á föðurarfleifð hennar en hún var fjórði ættliður í beinan legg sem búið hafa í Hátúnum. Starfaði hann þar sem bóndi en jafnframt tók hann að sér ýmsa verktaka- og girðingavinnu fyrir Vegagerðina auk Kirkjubæjarhrepps. Hann var virkur í Búnaðarfélagi Kirkjubæjarhrepps og annaðist búnað og tæki félagsins. Þá var hann virkur í Hestamannafélaginu Kóp og gerður þar að heiðursfélaga.

Útför Jens verður gerð frá Prestsbakkakirkju á Síðu í dag, 13. september 2021, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag verður faðir minn borinn til grafar. Ein af mínum fyrstu minningum er að vera að sniglast í kringum pabba við ýmsa útivinnu í Hátúnum, eða uppi í dráttarvél að plægja sem og heyja. Þegar honum fannst ég svo tilbúinn til ýmissa verkefna fól hann mér að vinna á vélunum, fara í fjósið eða vinna í viðhaldi á tækjum og mannvirkjum á jörðinni. Hann tamdi sér einstakt vinnusiðferði og dugnað sem hann lagði mikið upp úr að aðrir ættu að temja sér. Hann var ekki langskólagenginn en hann kunni nú ýmislegt annað sem hann kenndi okkur bræðrum og við höfum svo sannarlega nýtt í gegnum lífið. Hestamennska var líf og yndi pabba og aldrei leið honum betur en á hestbaki í góðum útreiðartúr. Öll helstu vandamál gat hann leyst í góðum reiðtúr. Hann lagði mikið upp úr að eiga bæði góða keppnis-, smala-, og ekki síst barnahesta. Það voru ófá börnin sem fengu sína fyrstu eldskírn á hestbaki hjá pabba, alltaf á hestum sem hæfði þeim.

Pabbi var mikill barnakall og hafði mikla ánægju og þolinmæði fyrir að snúast í kringum börn. Honum var mjög umhugað um velferð barnabarnanna sinna. Þegar hann veiktist í sumar og lá banaleguna, spurði hann ítrekað hvort barnabörnin hefðu það nú örugglega ekki gott og væru hraust. Þau minnast afa síns með hlýju og allra góðu stundanna sem þau áttu með honum. Síðastliðin tvö ár var ansi flókið að eiga góðar stundir vegna samkomu- og heimsóknartakmarkana. Við gerðum samt það besta úr því. Það tókst um stund í sumar að öll barnabörnin gátu heimsótt hann og þá áttum við saman góðar stundir síðustu helgina fyrir andlátið þar sem þau fóru á hestbak fyrir hann, spjölluð og lásu. Það var afar dýrmætt. Eitt af því síðasta sem hann sagði fyrir andlátið var að við ættum að passa vel upp á börnin og það ætlum við svo sannarlega að gera.

Honum þótti afar vænt um Möggu Stínu unnustu mína og ljómaði allur þegar hún kom í heimsókn. Hann talaði oft um hana og vildi fá að vita hvað hún væri að gera og hvernig gengi þegar við spjölluðum saman í gegnum síma. Honum líkaði það ekki heldur illa þegar hún bauð honum á kaffihús á Kirkjubæjarklaustri að fá sér kaffisopa, sem snögglega breyttist í einn Irish Coffee þegar á staðinn var komið.

Nú er hann kominn í draumalandið með mömmu og þau loks sameinuð aftur á ný, en hann saknaði hennar afar mikið eftir að hún dó fyrir rúmum tíu árum.

Elsku pabbi, takk fyrir allt það sem þú hefur gefið okkur og kennt, við munum búa að því alla tíð.

Þinn sonur,

Helgi Valberg.

Nú er elsku Jens okkar fallinn frá.

Við tengdadætur hans urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera samferða honum í lífshlaupinu. Við minnumst sérstaklega hlýjunnar sem einkenndi hann en Jens var einnig stríðinn og þá einkum við strákana sína sem hann gantaðist við hvenær sem tækifæri gafst. Jens hafði gaman af því að segja sögur, þá sérstaklega af hestunum sínum, búskapnum í Hátúnum og ýmsum prakkarastrikum sem framin voru í sveitinni.

Elsku Jens. Þú bauðst okkur velkomnar í fjölskylduna með opnum örmum og fyrir það erum við þakklátar. Við erum þér einnig þakklátar fyrir að hafa alið upp svona fallega og góða drengi (það hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt), fyrir alla ástina sem þú sýndir okkur og allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Minning þín mun lifa í hjörtum okkar allra.

Þínar tengdadætur,

Margrét Kristín og

Anastassiya Kim.

Elsku afi.

Takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Vildum að við gætum átt fleiri gæðastundir með þér. Það var alltaf gaman að heimsækja þig á Kirkjubæjarklaustur. Þá var það ótrúlega skemmtilegt að fá að keyra traktor með þér. Það var gott að halda í höndina á þér og knúsa þig. Við vitum að þú elskaðir ömmu, pabba, okkur, hestana þína, sveitina og alla fjölskylduna þína.

Þú varst frábær afi og við elskum þig rosalega mikið.

Þín barnabörn,

Arnór, Thelma, Páll Sölvi og Elsa María.