Hlynur Þór Haraldsson fæddist 31. ágúst 1985. Hann lést 2. september 2021.

Útförin fór fram 10. september 2021.

Miðnætursólin teygir anga sína yfir æfingasvæði Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs. Kyrrðin er mikil, það hreyfir ekki vind og við erum einir á svæðinu enda klukkan orðin margt. Hlynur er að rembast við að kenna mér golf. Eftir nokkrar mislukkaðar tilraunir til þess að fá boltann til að fljúga almennilega í loftið tekur Hlynur sig til og heldur sýnikennslu.

Hann rífur hlífina af dævernum, stillir golfkúlunni vandlega upp og svo byrja herlegheitin.

Þreklegur skrokkurinn stillir sér fullkomlega upp fyrir framan kúluna. Aftursveiflan er bæði hröð og takföst en um leið og hún nær hæsta punkti fylgir á eftir ótrúleg samhæfing af krafti og nákvæmni sem skila sér í framsveiflu sem virðist fara á ljóshraða í átt að golfkúlunni sem flýgur á loft eins og lítil fallbyssukúla.

Hlynur snýr sér að mér og segir mér að ég verði að horfa betur á boltann þegar ég er að slá. Agndofa hlæ ég mig máttlausan yfir þeirri athugasemd - það vanti aðeins meira upp á en það.

Hlynur var nefnilega með eindæmum högglangur kylfingur.

Þetta var sumarið 2003, þegar hvorugur okkar hafði náð 18 ára aldri. Við Hlynur höfðum kynnst veturinn áður í Fjölbrautaskóla Garðabæjar og á milli okkar þræddust saman sterk vinabönd. Áhugamál okkar voru svipuð og þá sérstaklega enski boltinn þar sem hann hélt með Arsenal og ég Chelsea.

Framhaldsskólaárin hjá ungu fólki einskorðast af mikilli skemmtun og var það raunin hjá okkur Hlyni og öðrum vinum. Þegar háskólaárin taka við fer fólk oft í aðrar áttir og við Hlynur hittumst minna, sérstaklega eftir að hann fluttist til útlanda. En um stutta hríð tókst okkur þó að vera nágrannar í Brekkubyggðinni í Garðabænum, sem gladdi okkur mikið. Á þeim tíma byrjaði Hlynur aftur að kenna mér golf, enda orðinn sprenglærður golfkennari. Það litla sem ég kann í dag á ég honum að þakka.

Oft er talað um að fólk sé með smitandi hlátur. Hlynur hafði þann eiginleika að geta látið alla aðra hlæja í kringum sig, ef hann hló að brandaranum, þó hló restin af hópnum - jafnvel þó viðkomandi hefði ekki fattað brandarann.

Ég mun sakna þessa smitandi hláturs mikið.

Sorgin í kringum fráfall Hlyns er óbærileg á alla kanta. Missirinn er þó mestur hjá Fríði og drengjunum þeirra tveimur, þeim Flóka og Daða - ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur og styrk á þessum erfiðu tímum.

Elsku Hlynur, ég mun sakna þín.

Þinn vinur,

Jóhann (Jói).

Elsku Hlynur. Samband okkar nær langt aftur og minningarnar hellast yfir. Ég var bara þrettán ára þegar ég elti Ástu upp á golfvöll til að fara á golfnámskeið. Við komum askvaðandi inn í golfskála og þar lást þú, einn af leiðbeinendunum, í sófanum með bros sem lýsti upp allt húsið. Árin á eftir tóku við skemmtilegir tímar á golfvellinum, óteljandi skammtar af frönskum og Sprite Zero og alltaf gerðir þú jafn mikið grín að okkur. Trúðu mér, þú varst aðalatriðið á þessum golfvelli. Ég hef aldrei spilað heilan hring.

Þú varst svo skemmtilegur og hlýr. Ólíkur öllum öðrum sem ég þekkti, dálítill furðufugl, djúpvitur og með gamla sál. Ég heyri ennþá einlægan hláturinn. Ég held að við höfum alltaf vitað að við ætluðum að verða kærustupar en þú beiðst þolinmóður þangað til ég kláraði grunnskólann enda þremur árum eldri. Annað hefði verið óviðeigandi. Ég var á leiðinni í Verzló en skipti yfir í FG til að geta verið með ykkur Ástu.

Það var líka frekar töff að eiga eldri kærasta með bílpróf og svona. Þú kenndir mér og sýndir svo margt sem maður lærir á þessum árum. Annars eyddum við tímanum aðallega uppi í rúmi að spjalla, fíflast og horfa á spólur. Eina nýja og eina gamla af vídeóleigunni. Við hlustuðum líka á Bob Marley. Svo fylgdirðu mér alltaf heim því það kom nefnilega í ljós að þú varst alls ekki með bílpróf. Stundum stálumst við inn til mömmu þinnar og pabba til að kíkja á myndina af konunni sem fæddi þig. Þú hefðir ekki getað verið heppnari með foreldra og elskaðir þau svo mikið.

Mér er minnisstætt þegar ég fór með mömmu og pabba til Spánar og fékk 90 þúsund króna símreikning þegar ég kom til baka. Ég saknaði þín svo mikið og stalst til að tala við þig alla ferðina. Þá var gott að eiga fermingarpeninginn og honum var mun betur varið í samtöl við þig en stærra sjónvarp eða hljómflutningsgræjur. Síðar fórum við saman í sólarlandaferðir eins og fullorðið fólk.

En þetta voru líka mikil mótunarár og við gengum bæði í gegnum erfiðleika sem við reyndum að hjálpa hvort öðru með. Þú ákvaðst að verða golfkennari og ég fékk mér vinnu með skóla til að geta heimsótt þig til Noregs þar sem skólinn var. Símanúmerið þitt er ennþá aðgangsnúmerið mitt inn á RÚV og víðar.

Það er skrítið að kveðja einhvern sem var í mörg mikilvæg ár manns nánasti en var það ekki lengur. Mér líður eins og þetta hafi allt gerst í fyrradag en samt er langt síðan við hittumst. Þú hélst áfram að heimsækja mömmu og pabba enda löngu orðinn fjölskylduvinur. Mamma keypti sólblómafræ fyrir þig í Bandaríkjunum og þú passaðir Kiljan. Þið áttuð alveg sérstakt samband og nutuð þess báðir jafn mikið að vera saman. Mér þótti svo vænt um að fylgjast með þér eignast þína fallegu fjölskyldu og blómstra í leik og starfi.

Kæru Fríður, Flóki Þór, Daði Þór, Elín, Halli, Helga Lucia og fjölskyldan öll. Missir ykkar er ólýsanlega mikill og sár. Minning Hlyns lifir í okkur öllum sem þekktum hann og hann mun alltaf eiga sinn stóra sess í hjarta mínu. Takk fyrir allt.

Edda Sif Pálsdóttir.