Kristján Lárus Sæmundsson fæddist í Hvammsdalskoti í Saurbæ 22. október 1931. Hann lést 25. ágúst 2021 á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík.

Hann ólst upp í Teigi í Hvammssveit hjá móður sinni og Guðjóni fóstra sínum.

Foreldrar Kristjáns Lárusar voru Sæmundur Guðbjörn Lárusson, f. 6.10. 1895, d. 14.2. 1986, og Gísla Sigríður Kristjánsdóttir, f. 29.10. 1911, d. 21.6. 1997. Börn Gíslu og Sæmundar: Anna, f. 1930, lést á fyrsta ári, Anna Markrún, f. 1933. Systkini Kristjáns samfeðra voru Hulda og Guðlaugur Ingi, bæði látin. Eiginmaður Gíslu var Guðjón Sigurðsson, f. 1894, d. 1958, börn þeirra: Sigurbirna, f. 1936, stúlka, f. 1943, og drengur, f. 1945, bæði andvana fædd.

Kristján bjó í Teigi lengst af ævi sinni. Hann fluttist þangað með móður sinni þegar hann var fjögurra ára gamall ásamt systur sinni Önnu Markrúnu. Hann bjó þar til ársins 2006 þegar hann fluttist til Reykjavíkur.

Hann vann ýmis störf, meðal annars við vegavinnu, vöruflutninga og akstur skólabíls.

Kristján kvæntist 1.12. 1960 Guðrúnu Einarsdóttur, f. 1.12. 1940. Börn Kristjáns og Guðrúnar eru:

1) Stúlka, f. 19.1. 1958, d. 21.1. 1958. 2) Einar Þórir, f. 27.10. 1959, maki Úlfhildur Rögnvaldsdóttir. Dætur þeirra eru Harpa og Valdís Hrund. Barnabörn eru þrjú. 3) Sigrún, f. 20.4. 1961, maki Pálmi Bjarnason. Börn með fyrrverandi sambýlismanni, Valtý Friðgeiri Valtýssyni, eru: Tvíburadætur sem létust á fæðingardegi sínum, Valtýr Örn, Lárus Fannar og Jón Steinar. Stjúpsonur Sigrúnar er Nökkvi. Barnabörn eru sjö. 4) Kristján Rúnar, f. 11.12. 1962, sambýliskona Anna Sigurðardóttir. Börn með fyrrverandi sambýliskonu, Þóru Stefaníu Stefánsdóttur, eru Gísla Rún og Rúnar Þór. Börn með fyrrverandi eiginkonu, Huldu Eggertsdóttur, eru Eggert, Tinna og Tryggvi. Stjúpbörn Kristjáns Rúnars og börn Önnu eru Guðrún og Ragnar. Barnabörn eru sex. 5) Gísli, f. 28.8. 1964. Sonur hans og barnsmóður hans, Guðnýjar Aðalbjargar Turner Sigurðardóttur, er Sigurður Ari. Börn Gísla með fyrrverandi sambýliskonu, Elínu Rósamundu Úlfarsdóttur, eru Kristján Hrafn og Rósa Diljá. Barnabörn eru fjögur. 6) Guðjón Ingi, f. 8.4. 1972, sambýliskona Brá Guðmundsdóttir. Sonur Guðjóns og fyrrverandi sambýliskonu, Sigríðar Ásu Ásgeirsdóttur, er Andri Snær. Dóttir Guðjóns og Brár er Björg, stjúpbörn Guðjóns eru Birta og Arnór. Barnabarn er eitt.

Útför Kristjáns Lárusar fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 13. september 2021, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag er elsku pabbi borinn til grafar. Á þessari stundu koma upp margar góðar minningar og margt sem kemur á daginn þegar rifjað er upp.

Pabbi brallaði margt á sinni lífstíð. Hann átti flestöll farartæki sem til voru nema flugvél og fjórhjól. Þar á meðal vörubíla, jarðýtur, rútur, skólabíl, báta, snjósleða, mótorhjól og reiðhjól. Hann vann hörðum höndum og var ekki mikið heima þegar við systkinin vorum að alast upp heima í Teigi. Pabbi talaði oft um það núna sérstaklega í seinni tíð hvað honum þótti það leitt hvað hann gat lítið verið með okkur. Hann vann alla tíð utan heimilis og mamma og amma sáu um börn og bú.

Hann þótti stórhuga þegar hann festi kaup á sinni fyrstu jarðýtu, en þetta blessaðist allt hjá honum. Hann var farsæll í sínum störfum en komst oft í hann krappan, en það voru alltaf einhverjar heilladísir yfir honum.

Pabbi átti harmonikku og spilaði hann stundum á hana fyrir okkur þegar tími gafst til. Síðar meir fékk hann sér skemmtara og spilaði hann mikið á hann sér til skemmtunnar. Fyrir utan tónlistina hafði hann alla tíð ánægju af að ljósmynda.

Pabba þótti alltaf gaman að keyra enda keyrði hann skólabíl í yfir 30 ár. Hann taldi það ekki eftir sér ef hann gat sest undir stýri. Pabbi og mamma ferðuðust á húsbílnum sem þau áttu núna í seinni tíð um landið okkar fagra á meðan þau gátu.

Pabbi hafði mikið yndi af börnum. Það sást svo vel þegar honum voru sýndar myndir af barnabörnum og langafabörnum, þá færðist alltaf breitt bros yfir andlit hans og kom gleðiglampi í augun.

Nú er þeim tíma sem honum var ætlaður í þessum heimi lokið enda búinn að gera sitt. við vitum öll sem þekktum hann að nú er grín og glens í sumarlandinu og við hittumst þar þótt síðar verði.

Farðu í friði, elsku pabbi,

Þín dóttir

Sigrún.

Mín fyrsta minning um pabba er að ganga um túnin með honum að vori til. Við vorum að kíkja eftir fé í sauðburði til að ná að marka lömbin.

Ekki var ég orðinn gamall þegar ég fór með honum á rjúpnaveiðar. Hann sagði manni strax hvað ætti að varast í kringum byssur.

Hann var alltaf að kenna mér og sýna. Og svo treysti hann manni fljótlega.

Hann kenndi okkur mikilvægi nákvæmisvinnu. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég var farinn að bera ábyrgð á að tengja Farmall-dráttarvélina við heyblásara með flatreim.

Ég man eftir því að undirbúa sumarvertíðina á hlaðinu í Teigi. Við vorum að rafsjóða, skrúfa og gera við.

Upp úr fermingaraldri var ég farinn að vinna á 10 tonna jarðýtu við að herfa flag í sveitinni. Þetta er traustið sem borið var til okkar, barnanna hans.

Af Sigga Sör í Stykkishólmi keypti pabbi bátinn Vin. Sá var keyptur með vilyrði fyrir því að fyrrverandi eigandi færi ferðir með pabba til að kenna honum að sigla um mynni Hvammsfjarðar.

Ófáum ferðum man ég eftir sem við sigldum frá Teigi og út í Stykkishólm í kjölfarið.

Pabbi ferðaðist aldrei erlendis en það er erfitt að finna þann stað á Íslandi sem hann hafði ekki heimsótt.

Ég minnist liðinna stunda með söknuði og þökkum.

Kristján Rúnar

Kristjánsson.

Nú ert þú kær bróðir minn látinn, tæplega níræður að aldri. Að leiðarlokum þakka ég þér allar liðnar samverustundir og kveð þig með litlu ljóði sem segir allt sem segja þarf.

Bráðum vagga bjartar nætur

blómi þínu, föla jörð.

Flýgur lóa senn um sveitir;

senn er vor um Breiðafjörð.

Hlustar bóndans bær í túni,

bláa morgna, kvöldin rjóð,

meðan sælir sunnanvindar

syngja gömul hörpuljóð.

Þar, sem eins og gull í grasi

gengin felast æskuspor,

þar, sem velli tærust titrar

tíbrá dagsins góða vor.

Bráðum vagga bjartar nætur

blómi þínu, föla jörð.

Flýgur lóa senn um sveitir;

senn er vor um Breiðafjörð.

(Jón Jóhannesson frá Skáleyjum)

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Far vel til nýrra heima.

Sigurbirna

(Birna) systir.