2 Það tók Ronaldo 45 mínútur að stimpla sig inn í úrvalsdeildina.
2 Það tók Ronaldo 45 mínútur að stimpla sig inn í úrvalsdeildina. — AFP
Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo sneri aftur í ensku úrvalsdeildina með stæl þegar hann skoraði tvö marka Manchester United í öruggum 4:1 sigri gegn Newcastle United á laugardaginn.

Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo sneri aftur í ensku úrvalsdeildina með stæl þegar hann skoraði tvö marka Manchester United í öruggum 4:1 sigri gegn Newcastle United á laugardaginn. Hann skoraði fyrstu tvö mörk Rauðu djöflanna þegar hann kom liðinu í 1:0 og 2:1. Hann lék síðast með liðinu í ensku úrvalsdeildinni í maí árið 2009 og því rúm 12 ár síðan hann klæddist síðast rauðu treyjunni.

Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall virðist síður en svo vera að hægjast á þessum óviðjafnanlega markaskorara, enda gildir aldur einu þegar menn búa yfir líkast til besta markanefi knattspyrnusögunnar. Ekki skemmir heldur fyrir að leitun er á íþróttamanni sem hugsar jafn vel um líkama sinn og má því vænta þess að Ronaldo muni reynast Man. Utd ansi drjúgur á þessu tímabili og því næsta, jafnvel lengur ef vilji er fyrir hendi.

*Mohamed Salah kom Liverpool á bragðið í öruggum 3:0 sigri gegn Leeds United í gær. Markið var hans 100. úrvalsdeildarmark, þar af eru 98 fyrir Liverpool og tvö fyrir Chelsea. Liðin fjögur sem fyrirfram eru talin, og ekki að ósekju, sterkustu lið deildarinnar, unnu öll sína leiki um helgina og virðist nú þegar stefna í fjögurra hesta kapphlaup í deildinni.

Chelsea vann auðveldan 3:0 sigur gegn Aston Villa á laugardag þar sem Romelu Lukaku fór fyrir þeim bláklæddu og skoraði tvö mörk. Sama dag vann Manchester City afar sterkan 1:0 útisigur gegn skeinuhættu liði Leicester City. United, Chelsea og Liverpool eru hnífjöfn í efstu þremur sætunum en City andar ofan í hálsmálið á þeim, einu stigi á eftir. gunnaregill@mbl.is