Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Mikið tjón varð þegar höfuðstöðvar Kapalvæðingar í Reykjanesbæ brunnu á fimmtudag og allar tengingar fyrirtækisins með.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Mikið tjón varð þegar höfuðstöðvar Kapalvæðingar í Reykjanesbæ brunnu á fimmtudag og allar tengingar fyrirtækisins með.

„Það eru tvö þúsund heimili sem eru tengd í net og sjónvarp hjá okkur, skólabyggingar Reykjanesbæjar og fleiri fyrirtæki. Það er búið að bjarga ýmsu,“ segir Börkur Birgisson, framkvæmdastjóri Kapalvæðingar, og bætir við að nú sé reynt að koma sambandi á þau heimili sem duttu út. Hann segir Gagnaveitu Reykjavíkur hafa um helgina unnið með þeim með það að leiðarljósi. Þá muni Míla bætast við hópinn í dag.

Sýni bestu hliðar í hamförum

Börkur segir íbúa Reykjanesbæjar hafa sýnt aðstæðunum mikinn skilning. „Íslendingar sýna yfirleitt sínar bestu hliðar í hamförum. Við eigum rosalega sterka og góða viðskiptavild hérna í Reykjanesbæ og höfum haft í gegnum árin. Við erum að gera okkar besta, þetta er eitthvað sem tekur sinn tíma og það er ekki hægt að gera þetta hraðar. Allir angar eru úti og vonandi tekst að klára þetta á næstu dögum.“

Þeim viðskiptavinum sem urðu fyrir sambandsleysi hefur boðist að nettengja heimilið í gegnum farsímakerfi Nova meðan unnið er að lausn. Skortur á tækjabúnaði sökum heimsfaraldursins setur þó strik í reikninginn. „Þú ferð ekkert og sækir þúsund 4G-netbeina í miðjum heimsfaraldri. Við reiknum með að fá meira af þeim í vikunni.“

Þar sem tengirýmið fyrir ljósleiðara brann var ákveðið að flytja allar heimatengingar Kapalvæðingar yfir á kerfi Gagnaveitu Reykjavíkur. Það taki þó sinn tíma. Fyrirtækið vinnur nú hörðum höndum við að koma tengingum sínum aftur í lag.

„Rafholt er búið að vera að vinna við að koma okkar ljósleiðaratengingum í gang aftur og það er nánast komið.“ Þau viti þó ekki hvenær allt verður komið í fyrra horf. „Með hverjum degi vitum við meira, en erfitt er að fá sérhæfðan tæknibúnað með engum fyrirvara.“ Þá sé Kapalvæðing þakklát þeim fyrirtækjum sem hafi hjálpað auk starfsfólks.