Ef rétt er haldið á málum getur næsta kjörtímabil orðið gjöfult Íslendingum

Ísland virðist vera að vinna sig hraðar og betur út úr kórónukreppunni en flestar aðrar þjóðir. Þetta gefur tilefni til bjartsýni um þróun efnahagsmála og almennrar hagsældar hér á landi á næstu árum og bendir til að þeir sem munu skipa næstu ríkisstjórn fái í hendurnar áhugavert og uppbyggilegt viðfangsefni, þó að ófyrirsjáanlegir atburðir muni líklega setja mark sitt á það kjörtímabil eins og mörg önnur.

En þó að horfur séu góðar er að mörgu að hyggja og viðfangsefnin fjarri því einföld. Umsvif ríkisins eru meðal þess mikilvægasta sem þarf að glíma við á næsta kjörtímabili ef ekki á illa að fara í efnahag þjóðarinnar og þeirrar þjónustu sem landsmenn vilja búa við.

Verkalýðsfélög opinberra starfsmanna auglýsa nú af miklum móð mikilvægi þeirra starfa sem opinberir starfsmenn vinna þó að enginn hafi lýst efasemdum um þau störf sem í þeim auglýsingum eru nefnd. En það að störfin þarf að vinna felur ekki í sér að þeir sem inna þau af hendi verði að vera opinberir starfsmenn. Þvert á móti eru líkur á að mörg þessara starfa væru betur komin hjá einkareknum fyrirtækjum og breytir þá engu þó að ríkið mundi í flestum tilvikum áfram tryggja að þjónustan væri í boði.

Brýnt er að ná tökum á rekstrarkostnaði hjá hinu opinbera og tryggja að nauðsynleg starfsemi á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og hvers kyns velferðarþjónustu sé unnin á sem hagkvæmastan máta. Þegar að því kemur að finna leiðina út úr óhóflegum og ört vaxandi kostnaði er nauðsynlegt að fordómum í garð einkarekstrar verði vikið til hliðar og hagkvæmasta leiðin jafnan valin.

Kórónukreppan hefur kostað ríkissjóð háar fjárhæðir og skuldsetningu sem allgóð samstaða var um að hann tæki á sig og virðist það hafa heppnast vel. En skuldasöfnun verður að snúa við á næsta kjörtímabili og er það ein ástæða þess hve brýnt er að endurskoða starfsemi ríkisins, straumlínulaga þann rekstur sem ríkið þarf að halda áfram hjá sér, færa rekstur annarrar starfsemi til einkaaðila og hætta óþarfri starfsemi.

Þetta mun einnig stuðla að því að auka hagvöxt og auðvelda ríkinu þannig að greiða niður skuldir sínar. Annað sem stuðla mun að hagvexti er að lækka skatta og draga úr regluverki og eftirliti hins opinbera. Af umræðunni í kosningabaráttunni nú virðist skilningur á þessu fara vaxandi. Loforð um skattalækkanir heyrast til dæmis frá fleirum en stundum áður, þó að eitthvað vanti upp á útfærsluna. Þá heyrist víðar en áður það sjónarmið að besta leiðin fram á við sé að vaxa út úr vandanum, þó að efast megi um að allir þeir sem slíkt nefna skilji fyllilega hvað í því felst.

Þrátt fyrir kraðak flokka er því ástæða til hóflegrar bjartsýni um næsta kjörtímabil, en það krefst þess þó vissulega að þau sjónarmið sem hér hafa verið nefnd verði ofan á við ríkisstjórnarmyndun og í störfum næstu ríkisstjórnar.