[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Gústafsson fæddist 13. september í Reykjavík, en fór sex mánaða gamall í fóstur í Hlíðardal til sómahjónanna Guðrúnar Halldórsdóttur og Sigfúsar Magnússonar stýrimanns og skipstjóra.

Magnús Gústafsson fæddist 13. september í Reykjavík, en fór sex mánaða gamall í fóstur í Hlíðardal til sómahjónanna Guðrúnar Halldórsdóttur og Sigfúsar Magnússonar stýrimanns og skipstjóra. „Mamma hafði verið vikastelpa hjá Guðrúnu úti í Viðey þar sem hún var matráðskona hjá Kárafélaginu og tengdist henni og manni hennar Sigfúsi vel.“ Móðir Magnúsar var merkileg kona og mjög framsýn miðað við sína kynslóð. „Hún vann á símanum í mörg ár og leigði með tveimur ungum konum á Lindargötu hjá Sælgætisgerðinni Freyju. Sigurjón í Freyju hjálpaði henni seinna að komast í konfektgerðarnám í Svíþjóð og þegar hún kom heim stofnaði hún sælgætisgerðina Aladín á Vesturgötu 14 og rak fyrirtækið alveg þar til hún kynntist Snæbirni Kaldalóns apótekara og giftist honum. Aladín gekk vel og fyrir jól og páska var svo mikill fyrirgangur að komast í konfektið að lögreglan þurfti að stjórna umferðinni við Vesturgötuna. „Mamma kom oft að heimsækja mig í Hlíðardal og þegar ég var 14 ára keypti hún raðhús við Skeiðarvoginn og þá flutti ég til hennar. Eftir að hún giftist Snæbirni fór hún til Siglufjarðar og leigði út Skeiðarvoginn. Ég var húsvörður með herbergi og hún með litla íbúð í kjallaranum sem hún notaði þegar hún kom í bæinn.“

Magnús fékk undanþágu vegna aldurs og fór að læra vélvirkjun aðeins 15 ára gamall og fór svo og lærði vélstjórn í Vélskólanum. „Ég vann í vélsmiðju Einars Guðbrandssonar, þess mikla snillings. Hann greindist með lungnakrabbamein þegar ég byrjaði í rafmagnsdeild 1962, svo ég rak smiðjuna með skólanum til áramóta, en Óli, uppeldisbróðir minn, tók síðan við. Tvö sumur var ég í síldarverksmiðjunni á Fáskrúðsfirði, sem var frábær reynsla.“ Í ágúst 1963 var Magnús á leið í rekstrartæknifræðinám í Danmörku, en sama dag og hann flaug út dó Einar. „Ég var byrjaður að reykja, en Einar sagði alltaf við mig: „Blessaður, hættu þessum fjanda!“ sem ég gerði.“ Þegar Magnús var að ljúka náminu í Óðinsvéum og var að hugsa um meistaranám í Ameríku var hann kominn með fjölskyldu og sá að það yrði dýrt fyrirtæki. „Ég sá að það var verið að auglýsa eftir hagræðingarráðunautum fyrir Vinnuveitendasambandið, sem var 11 mánaða nám, og skellti mér í það. Hagræðingarnámið, sem alls fóru í 13 einstaklingar á vegum Samtaka vinnumarkaðarins, varð til í nefnd, sem Pétur sjómaður var formaður fyrir. Hún hét vinnutímanefnd og markmiðið var að skapa umhverfi sem stytti vinnutímann og stritað væri með meira viti og störfum hagrætt. Við fórum til Noregs í fyrsta hlutann í náminu haustið 1966.“ Eftir námið vann Magnús hjá Vinnuveitendasambandinu næstu fimm árin. Hagræðingin vakti athygli og atvinnutilboðin fóru að berast til Magnúsar. Hann vildi þó skila sínu fyrir námið en eftir fimm ár var hann ráðinn sem forstjóri Hampiðjunnar.

„Þegar ég var að byrja hjá Hampiðjunni var mér boðið til Ameríku af nefnd, sem Jóhannes Nordal stjórnaði. Ég fór í Carnegie Mellon-háskólann í Pittsburgh á stjórnunarnámskeið. Ég kynntist þar mörgum framámönnum í viðskiptalífinu vel og heimsótti þá eftir námið víðsvegar um Bandaríkin þar sem við ræddum kenningarnar, sem var lærdómsríkt.“ Þegar heim var komið 1973 hélt Magnús áfram að stýra Hampiðjunni. „Það var einstaklega spennandi undir góðri leiðsögn stjórnar og með afbragðs samstarfsfólk, enda jukum við umtalsvert markaðshlutdeild okkar og útflutningur á trollnetum var orðinn 40% af sölunni.“ Eftir 11 ár í í Hampiðjunni var Magnúsi boðið að fara til Bandaríkjanna. „Þar var ég í 34 ár og þar af í 21 ár sem forstjóri Icelandic Inc., Coldwater Seafood í Connecticut, þar sem skrifstofurnar voru, en við vorum með verksmiðjur í Maryland og í Boston.“ Öll árin hélt Magnús góðum tengslum við Ísland og var lengst af í stjórnum íslenskra fyrirtækja. „Ég var í góðu samstarfi við afbragðsframleiðendur á Íslandi og fékk að vera sjálfstæður í markaðssetningunni.“ Magnús fór 8-10 sinnum til Íslands á ári og hann nýtti sér íslenska náttúru til að gera samninga. „Ég bauð oft viðskiptamönnum í veiði heima, því úti þótti það gott að ná tveggja tíma fundi, en í veiðinni var maður kannski í 4-5 daga og fékk frábær tækifæri til að kynna íslenskan sjávarútveg og tæknina sem Íslendingar voru að þróa.“

Eftir árin hjá Coldwater var Magnús fenginn til þess að vera aðalræðismaður Íslendinga í New York, en stjórnvöldum heima þótti kostur að hafa reynslubolta úr atvinnulífinu sem andlit landsins. „Í lok þessa tímabils, í janúar 2009, fór ég til London og samdi við rússneskt fyrirtæki í Múrmansk og fór að vinna fyrir Rússana. Við stofnuðum fyrirtækið Atlantica Inc., sem flytur inn og dreifir fiski í Ameríku og þar er ég fram til 2018. Pétur Másson, Bud Jones, Sturlaugur Haraldsson og Kristján Hjaltason voru með mér í þessu ævintýri og þetta var mjög skemmtilegur tími og mikill og góður árangur í vöruþróun og sölu.“

Í september 2018 flutti Magnús heim, en er samt enn virkur í atvinnulífinu og er m.a. í stjórn Brims.

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Edda Birna Kristjánsdóttir, f. 16.2. 1958. Foreldrar hennar voru Kristján Georg Halldórsson, f. 22.6. 1934, d. 30.7. 1999, og Iðunn Björnsdóttir, f. 16.12. 1937, d. 25.7. 2005. Magnús og Edda eiga dótturina Birnu Magnúsdóttur Gústafsson, f. 4.8. 1995, gift Viktori Sveinbjörnssyni, f. 16.12. 1993. Áður átti Magnús með fv. eiginkonu sinni, Margréti Sigríði Pálsdóttur, f. 3.6. 1941: 1) Björn, f. 18.9. 1966. Hann á börnin Árna Guðjón, f. 9.12. 1986, Magnús Má, f. 11.9. 1989, d. 28.1. 1991; Sigfús Má, f. 24.11. 1991, og Jórunni Sóleyju, f. 18.11. 1993. 2) Sigfús, f. 8.5. 1968, d. 10.1. 1970; 3) Einar, f. 21.12. 1970, kvæntur Áslaugu Jónsdóttur, f. 19.5. 1967 og þau eiga soninn Tómas Pál, f. 25.9. 2000. 4) Jórunni, f. 7.12. 1972, gift Hauki Þór Bragasyni, f. 5.5.1969. Þau eiga börnin Margréti Lilju, f. 16.7. 2003, og Rósalind, f. 4.12. 2007. Bróðir Magnúsar sammæðra er Baldur Dan Alfreðsson, f. 10.1. 1935, d. 18.4. 2013. Systkini Magnúsar samfeðra eru Sigurður Jónsson, f. 20.6. 1941; Páll Gústaf, f. 27.10. 1943; Kristín, f. 26.3. 1946, d. 12.3. 2013; Margrét, f. 12.9. 1948, d. 23.9. 2020; Guðmundur Teitur, f. 5.3. 1950, og Helga Rúna, f. 17.6. 1958.

Foreldrar Magnúsar voru Þóra Birna Brynjólfsdóttir, konfektgerðarkona, f. 20.3. 1913, d. 30.10. 2005, og Gústaf Elí Pálsson, borgarverkfræðingur, f. 20.1. 1907, d. 30.7. 1977.