Laugardalur Flóðlýsingin á Laugardalsvelli stenst kröfur UEFA.
Laugardalur Flóðlýsingin á Laugardalsvelli stenst kröfur UEFA. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ari Páll Karlsson ari@mbl.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Kópavogsvöllur stenst ekki þær kröfur sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, setur um lýsingu í sínum sjónvarpsútsendingum og mun því meistaraflokkur kvenna hjá Breiðabliki ekki geta spilað sína heimaleiki á heimavelli, en liðið tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á dögunum.

„Sjónvarpið gerir kröfur um 800 LUX,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Hann segir Breiðablik skoða nú hvað hægt sé að gera en á heildina litið sé félagið í erfiðri stöðu.

„Það er kannski hægt að eiga við núverandi möstur og gera eitthvað á vellinum til þess að ná þessu sem þarf að ná. Ef það gengur ekki þá er það bara Laugardalsvöllur,“ segir hann og bætir við að þó svo að gaman sé að spila á þjóðarleikvanginum þá séu ýmis vandamál sem fylgi.

Laugardalsvöllur sé ekki heimavöllur Breiðabliks og sé á grasi en ekki gervigrasi líkt og Kópavogsvöllur þar sem liðið æfir. Þar að auki sé óvíst hvort hægt verði að spila á Laugardalsvelli yfir veturinn þar sem hann er ekki upphitaður líkt og heimavöllurinn.

„Varðandi leikina sem verða í nóvember og desember vitum við ekkert hvernig tíðin verður og ekki víst að Laugardalsvöllur sé klár í það. Við erum bara ekki í góðri stöðu með þetta mál, það er bara þannig. Það hefði þurft að setja 800 LUX á hann á sínum tíma,“ segir Eyþór. Þegar ákveðið var í janúar 2019 hvernig endurnýja skyldi ljósin var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu í bæjarstjórn að ljósstyrkur upp á 500 LUX væri nóg. Pétur Hrafn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, kaus gegn ákvörðuninni og lagði fram þá bókun að lýsingin mætti ekki kröfum nútímans. Eðlilegra væri að lýsingin yrði 800 LUX.

Hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi á sínum tíma viljað að bæjarstjórn myndi sýna „ákveðna framsýni“ og uppfæra lýsinguna í samræmi við kröfur UEFA. Í bókun bæjarstjóra frá fundinum segir að lýsingin sem varð fyrir valinu „standist þær kröfur sem gerðar eru til lýsingar á knattspyrnuvöllum“. Pétur segir að um sé að ræða kröfur KSÍ sem hljóða aðeins upp á 500 LUX. Með því að velja kraftminni flóðlýsingu hafi sparast 18 milljónir. Liðið er á sama tíma sagt hafa þegar unnið sér inn 76 milljónir með því að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.

„Auðvitað á það að vera markmið sveitarfélagsins að búa til aðstöðu fyrir sín íþróttafélög og gera þá aðstöðu sem besta,“ segir Pétur. Aftur á móti sé félagið nú í þeirri stöðu að mögulega þurfi að senda kvennaliðið úr landi að spila heimaleiki sína yfir háveturinn. Færeyjar séu til að mynda með völl sem standist allar kröfur og veðurskilyrði.