Birna Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1939. Hún lést á heimili sínu 22. september 2021. Foreldrar Birnu voru Guðrún Brandsdóttir og Ólafur Stefánsson, systir Birnu er Svava Ólafsdóttir og hálfsystir Kristín Björg Einarsdóttir sem féll frá fyrr á þessu ári.

Birna giftist 20. febrúar 1966 Gunnlaugi Birgi Daníelssyni, f. 18. maí 1931, d. 28. apríl 1998. Saman áttu þau eitt barn, Einar Viðar, f. 10. ágúst 1966. Fyrri kona Einars var Sigríður Þóra Magnúsdóttir, saman eiga þau Birki, f. 24. nóvember 1989, þau slitu samvistir. Einar Viðar er í sambúð með Ástu Halldórsdóttur.

Birna ólst upp í Reykjavík og vann ýmis störf fram eftir aldri, flestir kannast við Birnu úr skóbúðinni Rímu en hún vann þar í yfir 30 ár. Birna var síðan deildarstjóri eldri borgara í Norðurbrún og lauk sínum vinnuferli í faðmi fólks sem þótti virkilega vænt um hana fram á dánardag þótt hún hafi verið löngu hætt að vinna.

Útför Birnu fer fram frá Fella- og Hólakirkju 29. september klukkan 13.00.

Móðurminning

Þú sem varst mér eitt og allt,

þín ástúð veröld breytti,

ég man að þegar mér var kalt

þín mildi hlýju veitti.

Þín alúð leysti öll mín mál,

mitt yndi lést þú vakna.

Já, hvíl í friði fagra sál,

þín fæ ég sárt að sakna.

Þótt fenni yfir fótspor þín,

því fargi burt ég bifa,

elsku hjartans mamma mín

því minningarnar lifa.

(Kristján Hreinsson)

Þinn sonur,

Einar Viðar Gunnlaugsson.

Síðasta ferðalagið.

Ég var það lánsöm að fá að fara í sumar með Biddý í ferðalag. En þeir sem þekktu Biddý vita að hún elskaði ferðalög og hefur komið víða við jafnt á Íslandi sem og erlendis. Ferðinni var heitið til Mývatns. Sonarsonur hennar Birkir, sonur Einars bróður, var yfirkokkur þar í sveit á hótelinu Laxá. „Hann er besti kokkurinn,“ sagði hún hreykin og spennan skein úr andlitinu.

Við flugum til Akureyrar þar sem Birkir tók á móti okkur, svo var haldið til Mývatns.

Þar upphófst ævintýri og gleði sem ég á aldrei eftir að gleyma.

Við vorum sannarlega drottningar þessa helgina. Birkir var einkakokkurinn okkar og einkabílstjóri. Allir vissu hver hún var og allir sýndu henni virðingu og elskulegheit og gátu ekki gert nóg fyrir hana.

Við klæddum okkur upp á í kjóla og fínlegheit til að fara í matinn og fengum „besta borðið“ eins og Biddý orðaði það. Biddý hafði orðið mikið veik tveimur vikum áður en ekki var hægt að sjá það á henni. Hún brosti hringinn og við biðum spenntar eftir matnum. Hún hafði sagt mér að við fengjum fimm réttaðan matseðil og Birkir væri að kokka fyrir okkur prívat. Hann var nefnilega í fríi.

Maturinn var sannarlega góður og við pakksaddar og hefðum ekki getað borðað meira, þó það væri í boði. Birkir góðfúslega benti okkur á að við hefðum ekki átt að klára alla réttina, heldur smakka á öllu. Næsta kvöld vissum við betur. Hann keyrði okkur út um alla sveit og farið var á Möðruvelli. Þar var borðuð kjötsúpa, þessi fræga eins og hún sagði mér.

Þar urðu á vegi okkar nokkrar geitur sem ég og Birkir reyndum að heilsa upp á. Þær héldu að við værum með mat handa þeim og hlupu til okkar á svo miklum hraða að ég næstum því datt aftur fyrir mig, en í bílnum sat Biddý og gat ekki annað en hlegið og minntist geitanna oft með bros á vör. Eða hlátri þannig lagað.

Á sunnudeginum þegar við áttum flug heim stöldruðum við aðeins við á Akureyri og fengum okkur kaffi á Bláu könnunni. Við sátum úti í sólinni og fórum yfir allt sem við höfðum gert þarna í sveitinni og minntumst sérstaklega mýsins sem angraði hana ekkert en ég fékk sannarlega að kenna á því.

Elsku Biddý, kveðjustundin er sár og erfitt að hugsa sér að ég eigi ekki eftir að koma í kaffi og hlusta á hvað drifið hafði á daginn. Fara í Costco og svo Ikea í kaffi á eftir. Sögurnar sem við systkinin kunnum utan að eigum við eftir að geyma í hjartastað. Ferðalögin með pabba og hvað dreif á daga ykkar alla ykkar sambúð. Þú hjálpaðir mér að þekkja og skilja pabba.

Allt sem þú gerðir í þessu lífi og sporin sem þú skilur eftir hjá öllum sem þekktu þig eru ómetanleg.

Þú sagðir mér um daginn að flestar vinkonurnar væru farnar og það var hægt að sjá söknuð í augum þínum. Þið höfðuð fylgst að í gegnum lífið.

Laxveiðar, golfferðir, matarboð og sumarbústaðaferðir. Ég hugga mig við að þær hafa nú endurheimt vinkonu sína og tekið á móti þér. Eflaust mikið skrafað og hlegið, sem einkenndi þig alla tíð.

Þú reyndist mér sem móðir og amma stráksins míns eftir að mamma dó og þakka ég þér af öllu hjarta fyrir hvað þú varst góð við okkur.

Hvíldu nú í friði þar til við hittumst aftur.

Þín stjúpdóttir, dóttir og vinkona,

Fanney.