Sundhöllin Ekki eru allar ánægðar með staðsetningu kvennaklefans.
Sundhöllin Ekki eru allar ánægðar með staðsetningu kvennaklefans. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Eftir stækkun Sundhallarinnar og byggingu nýrra búnings- og sturtuklefa fyrir konur, „fjósið“ svonefnda, hefur ríkt ófremdarástand meðal kvenkyns sundgesta þar sem þeim er gert að fara út og ganga ca.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Eftir stækkun Sundhallarinnar og byggingu nýrra búnings- og sturtuklefa fyrir konur, „fjósið“ svonefnda, hefur ríkt ófremdarástand meðal kvenkyns sundgesta þar sem þeim er gert að fara út og ganga ca. 25 metra til þess að komast inn í gömlu Sundhöllina, þar sem eru notalegir og skjólgóðir heitir pottar og innilaugin,“ segir í erindi dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur sagnfræðings sem hún sendi Reykjavíkurborg. Málið var á dagskrá Menningar-, íþrótta og tómstundaráðs borgarinnar í fyrradag.

Vilborg segir í bréfi sínu að gangan frá búningsklefum kvenna sé mikil raun að vetrarlagi og heilsuspillandi. „Margar eldri konur eru hættar að fara í sund af þessum ástæðum, enda hefur konum verið sýnd mikil lítilsvirðing í þessu máli.“ Þá segir hún að málið sé grafalvarlegt frá lýðheilsusjónarmiði en stefnt sé að því að hver einstaklingur haldi sem lengst líkamsfærni sinni.

Morgunblaðið fékk í hendur afrit af bréfi Vilborgar til Ölmu Möller landlæknis frá 18. ágúst sl. Þar kveðst hún tvisvar hafa skrifað sundhallarstjóra bréf um þetta efni og einnig borgarstjórn en þeim bréfum hafi ekki verið svarað. Þá biður hún landlæknisembættið um liðsinni í málinu vegna þess að „núverandi ástand er heilsuspillandi og hindrar það að eldri konur og skólatelpur geti sótt innilaug Sundhallarinnar að vetrarlagi. Frá lýðheilsusjónarmiði er þetta fyrirkomulag ekki verjandi. Það er í hæsta máta óeðlilegt að íþrótta- og tómstundaráð hafi úrslitavald í máli sem varðar heilsubætandi og sundiðkun kvenna og skólastúlkna, sem sé lýðheilsumál.

„Það hefur ekki verið mikið kvartað yfir staðsetningu kvennaklefans og margar konur eru hrifnar af honum,“ sagði Drífa Magnúsdóttir, forstöðumaður Sundhallarinnar. Hún sagði aðallega tvo einstaklinga hafa látið í ljós óánægju sína. Drífa sagði að starfsfólk sjái vel að leiðin úr kvennaklefanum að barnalauginni inni sé nokkuð löng fyrir litlar skólastúlkur á köldum vetrardögum.

Hún sagði að konum hafi verið leyft að fara innandyra í köldum vetrarveðrum úr kvennaklefanum yfir í innilaugina. Þá þarf m.a. að fara leið sem liggur nánast um anddyrið sem sé ekki skemmtilegt.

Búið er að laga sturtur við gamla kvennaklefann í kjallara gamla hússins. Drífa sagði að sú aðstaða verði notuð í einhverri mynd. Hugsanlega geti það kallað á fleira starfsfólk. Hún taldi líklegt að litlu skólastúlkurnar fái að nota gamla kvennaklefann á köldum dögum.