Baldur Arnarson Stefán E. Stefánsson Forstjóri Keahótela segir áhuga á að stækka félagið í kjölfar endurskipulagningar. Tekjur fjögurra stærstu hótelkeðjanna drógust saman um 24,5 milljarða í fyrra.

Tekjur Keahótelanna, sem eru níu talsins, drógust saman um tæpa 4,5 milljarða milli ára 2019 og 2020. Félagið tapaði tæpum hálfum milljarði í fyrra og var eigið fé neikvætt í árslok. Fram kemur í ársreikningi að tengdir aðilar – þ.e. eigendur – hafi gefið eftir 191 milljón í skuldir. Þá hafi verið samið við leigusala um tímabundnar breytingar á leigugreiðslum.

Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela ehf., segir félagið standa styrkum fótum eftir endurskipulagningu og endurfjármögnun. Þ.e. með eiginfjárframlagi eigenda, samningum við skuldunauta og samningum við leigusala.

Landsbankinn eignaðist 35% hlut í félaginu eftir að skuldum var breytt í hlutafé. Fyrri eigendur lögðu til nýtt hlutafé en hlutur þeirra, alls 65%, er í eigu Prime Hotels ehf.

Skoða góðar rekstrareiningar

Fram kom í ViðskiptaMogganum í síðustu viku að Róbert Guðfinnsson hefði sett á sölu eignir sínar í ferðaþjónustu á Siglufirði. Þ.m.t. Sigló hótel sem er með 68 herbergjum.

Spurður hvort Keahótelin hafi áhuga á hótelinu vísar Páll til almennrar afstöðu félagsins.

„Við höfum fullan hug á að stækka félagið aftur og höfum slagkraft til þess. Þannig að við höfum mikinn áhuga á að skoða góðar rekstrareiningar,“ segir Páll.

Sem áður segir drógust tekjur fjögurra stærstu hótelkeðjanna saman um 24,5 milljarða í fyrra (sjá graf). Þá varð samtals 4,2 milljarða tap af rekstri þeirra. Þar af 2,2 milljarða tap hjá Íslandshótelum og 939 milljóna tap hjá Icelandair hótelum. Eigið fé keðjanna dróst saman um samtals 7,2 milljarða. Meðal annars var eigið fé Keahótela og Icelandair hótela orðið neikvætt en fyrrnefnda félagið hefur verið endurskipulagt. Fram hefur komið að í skoðun sé að styrkja Icelandair hótel með nýju hlutafé.

Langt frá hlutfallinu árið 2019

Íslandshótel hyggjast opna 18. hótelið í keðjunni, Hótel Reykjavík Saga, í vor.

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir október og veturinn líta ágætlega út hvað bókanir varðar sem og áramótin.

Varðandi næsta ár þá sé útlitið sömuleiðis ágætt og bókunarstaðan að nálgast stöðuna eins og hún var 2019. „Við eigum þó enn eitthvað í land með að ná sömu nýtingu og var 2018 en þá fór meðalnýtingin í borginni hæst í 80% sem var með því hæsta sem þekktist á Norðurlöndunum,“ segir Ólafur um horfurnar.

Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, FHG, segir misjafnt hvort hótelkeðjurnar bókfæri fasteignir sem hluta af eigin fé í ársreikningi rekstrarfélags. Sömuleiðis sé misjafnt hvort þær eigi eða leigi fasteignirnar undir hótelreksturinn.

Allar líkur séu á taprekstri hjá hótelunum í ár. Þá standi þau frammi fyrir að þurfa að ná upp meðalverðinu og meðalnýtingunni. „Það verður mikil áskorun að ná upp meðalverðinu svo það verði eins og best var árið 2018, ef þau ná því nokkurn tíma,“ segir Kristófer.

Eiga eftir að gera upp skuldahalann

„Þetta verður mjög erfitt ár hjá hótelunum. Snjóhengjan er óleyst hjá þessum aðilum. Fyrirtækin tóku brúarlán, frestuðu lánum og svo framvegis. Menn eru í miðjum ólgusjó og verða það eitthvað áfram. Dómur í máli Fosshótels fellur um miðjan nóvember. Menn horfa til þess hvaða línur verða lagðar þar, þótt vitað sé að hvert mál sé einstakt,“ segir Kristófer og vísar til deilu Fosshótels og Íþöku fasteignafélags. Varðar það uppgjör á leigugreiðslum í kórónuveirufaraldrinum. „Sjálfsagt verða menn fram á næsta ár að greiða úr þessu,“ segir Kristófer, sem er jafnframt eigandi og framkvæmdastjóri CenterHótela.

Loks segir Kristófer fréttir af tilslökunum á landamærunum vera fagnaðarefni.