R. Kelly
R. Kelly
Bandaríski rapparinn R. Kelly var í gær sakfelldur fyrir að hafa í áratugi beitt ungar þeldökkar konur og börn af báðum kynjum ofbeldi, misnotað þau kynferðislega og haft milligöngu um slíka glæpi.

Bandaríski rapparinn R. Kelly var í gær sakfelldur fyrir að hafa í áratugi beitt ungar þeldökkar konur og börn af báðum kynjum ofbeldi, misnotað þau kynferðislega og haft milligöngu um slíka glæpi. Var hann ákærður fyrir fjölda brota og þeirra á meðal að hafa haldið ungum stúlkum sem kynlífsþrælum.

Í frétt The Guardian um sakfellinguna segir að kviðdómur sem í sátu sjö karlar og fimm konur hafi komist að þessari niðurstöðu en réttarhöldunum lauk á föstudaginn var og höfðu þá staðið í sex vikur. Segir í fréttinni að framburður vitna hafi oft verið sláandi þar sem sagt var frá því hvernig Kelly misþyrmdi konum, stúlkum og drengjum. Kelly sýndi engin viðbrögð þegar dómur var kveðinn upp. Kelly heitir fullu nafni Robert Sylvester Kelly og er 54 ára. Mun hann hafa framið glæpi sína í um tvo áratugi og sagði lögmaður nokkurra fórnarlamba hans, Gloria Allred, að af öllum þeim rándýrum sem hún hefði sótt að í störfum sínum, þeirra á meðal Harvey Weinstein og Jeffrey Epstein, væri Kelly það allra versta. Dómur verður kveðinn upp 5. maí og gæti Kelly hlotið 20 ára fangelsisdóm.