Hátíð Mikið fjör var á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum.
Hátíð Mikið fjör var á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum. — Morgunblaðið/Eggert
Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa hafnað boði frá forsvarsmönnum tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice um að halda hátíðina á Vífilsstaðatúni.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa hafnað boði frá forsvarsmönnum tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice um að halda hátíðina á Vífilsstaðatúni. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs í Garðabæ í gær og var bæjarstjóra falið að tilkynna forsvarsmönnum hátíðarinnar um niðurstöðu málsins.

Skipuleggjendur Secret Solstice höfðu lýst því yfir að þeir teldu Garðabæ geta haft mikinn hag af því að hátíðin yrði haldin þar. Auk stórra tónleika á Vífilsstaðatúni næsta sumar var á teikniborðinu að halda litla tónleika víðs vegar um bæinn meðfram hátíðinni.

Í bókun bæjarráðs er tekið undir umsagnir tveggja nefnda hjá bænum en niðurstöður þeirra voru að Vífilsstaðatún sé ekki heppilegur vettvangur fyrir hátíðina. „Þar sem fyrir liggja mikil áform um framkvæmdir á Vífilsstaðatúni og nærumhverfi telur ÍTG ekki heppilegt að halda árlegu tónlistarhátíðina Secret Solstice þar,“ sagði í umsögn íþrótta- og tómstundaráðs.

Í umsögn menningar- og safnanefndar segir að mikil áform liggi fyrir um framkvæmdir í Hnoðraholti, í Vetrarmýri og á öðrum svæðum í landi Vífilsstaða á næstu árum. Þar eigi að byggja íbúðir og atvinnuhúsnæði auk þess að leikskóli sé á svæðinu og annar í byggingu. hdm@mbl.is