Sigurlína hefur starfað í hugverkaiðnaðinum í rúm 15 ár.
Sigurlína hefur starfað í hugverkaiðnaðinum í rúm 15 ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir situr meðal annars í stjórn þriggja fyrirtækja í hugverkaiðnaðinum á Íslandi.

Mikil tækifæri eru fólgin í því að styðja við uppbyggingu á hugverkaiðnaðinum á Íslandi, að sögn Sigurlínu Valgerðar Ingvarsdóttur sem hyggst leggja sitt af mörkum til þess.

„Á Íslandi er mikil þróunarþekking til staðar en minni markaðs- og útgáfuþekking. Það sem ég hyggst gera hér heima er að styðja við fyrirtækin, annars vegar með því að deila minni eigin reynslu og þekkingu og hins vegar með því að draga að þeim þekkingu annars staðar frá, hvort sem það er með því að koma þeim í samband við erlenda sérfræðinga, fjárfesta eða hjálpa til með ráðningar,“ segir Sigurlína.

Skapar velborgandi störf

Sigurlína situr einnig í stjórn nýja fjárfestingarsjóðsins Eyrir Vöxtur en hún segir það afar skynsamlegt að fjárfesta í hugverkaiðnaði.

„Því innan hans eru krefjandi, skemmtileg og velborgandi störf sem skapa verðmæti án þess að ganga á auðlindir eða náttúruna.“

Sigurlína hefur starfað við tölvuleikjaframleiðslu sl. 15 ár, bæði hérlendis og erlendis. Stýrði meðal annars framleiðslu á tölvuleikjunum Star Wars: Battlefront og FIFA.

Það komast því fáir með tærnar þar sem Sigurlína hefur hælana í heimi tölvuleikjaframleiðslu.

Á leið sinni upp metorðastigann í hugverkaiðnaðinum, sem hefur löngum verið karllægur, skipti það Sigurlínu miklu máli að hafa góðar kvenkyns fyrirmyndir, hvort sem þær voru raunverulegar eða ekki. Þess vegna reyni hún að vera eins sýnileg og hún getur í dag, að eigin sögn.