Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Forsvarsmenn CSU, flokks kristilegra demókrata í Bæjaralandi, sögðu í gær að Sósíaldemókratar ættu að fá fyrsta tækifærið til þess að mynda nýja ríkisstjórn í Þýskalandi í ljósi kosningaósigurs kristilegu flokkanna tveggja.

„Forskot SPD er ekki mikið, en hann er þó með meira fylgi,“ sagði Alexander Dobrindt, þingflokksformaður CSU, eftir að þingflokkur þeirra kom saman í fyrsta sinn eftir kosningarnar í gær. Það væri því eðlilegt að gera ráð fyrir að hinir flokkarnir á þingi myndu ræða fyrst við Sósíaldemókrata.

Markus Söder, formaður CSU og forsætisráðherra Bæjaralands, sagði að Olaf Scholz, fjármálaráðherra og kanslaraefni SPD, ætti augljóslega betri líkur á að fá embættið á þessari stundu. Sagði Söder að virða þyrfti niðurstöðu kosninganna, það væri „grunnregla“ lýðræðisins.

Óskaði Söder Scholz til hamingju með úrslitin, en SPD fengu 25,7% atkvæða og 206 þingmenn, tíu fleiri en kristilegu flokkarnir fengu. Sagði Söder sjálfsagt að óska Scholz til hamingju, en Armin Laschet, formaður CDU og kanslaraefni kristilegu flokkanna, hefur enn ekki gert það og uppskorið nokkra gagnrýni fyrir bæði innan flokks og utan.

Vill enn mynda stjórn

Laschet segist enn hafa trú á því að hann geti myndað ríkisstjórn með Græningjum og Frjálslyndum demókrötum, þrátt fyrir að hann hafi leitt bandalag kristilegu flokkanna til sinnar verstu kosningar frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Fengu CDU/CSU samtals 24,1% atkvæða og 196 þingmenn, en þetta er í fyrsta sinn sem flokkarnir eru með minna en 30% fylgi í kosningum.

Kalla sífellt háværari raddir innan CDU nú eftir afsögn Laschets, og benti könnun á mánudaginn til þess að um 51% kjósenda flokksins væri á þeirri skoðun. Ellen Demuth, þingmaður CDU á þingi Rínarlands-Pfalz, sagði á twittersíðu sinni að Laschet hefði tapað og að hann ætti að segja af sér áður en hann ylli CDU frekari skaða.

Tilman Kuban, formaður ungliðahreyfingar CDU, sagði ljóst að kristilegu flokkarnir hefðu tapað og Marcus Mündlein, formaður ungliðahreyfingar CDU í Saxlandi, sagði þörf á „alvöru nýju upphafi“, sem einungis væri möguleg ef Laschet segði af sér.

Þungavigtarfólk utan þings

Á meðal þeirra þungavigtarmanna í kristilegu flokkunum sem misstu þingsæti sín eða náðu ekki kjöri voru Peter Altmeier efnahagsráðherra, Annegret Kramp-Karrenbauer varnarmálaráðherra og Julia Klöckner landbúnaðarráðherra.

Þá féll þingsæti Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, í skaut Önnu Kassautzki, áður óþekkts nýliða frá SPD. Hafði Merkel setið í þingsætinu frá árinu 1990.