Þegar litið er yfir sviðið virðist það engin trygging fyrir gæðum að fræga fólkið komi að framleiðslu vína. Oft eru stjörnuvínin líka óþarflega dýr.
Þegar litið er yfir sviðið virðist það engin trygging fyrir gæðum að fræga fólkið komi að framleiðslu vína. Oft eru stjörnuvínin líka óþarflega dýr.
Þegar ég heimsæki Bandaríkin hef ég það fyrir sið að fara í pílagrímsför í góða Walmart-verslun. Það er ákveðin upplifun að koma inn í þessi musteri allsnægtanna og sjá það mikla úrval og lága vöruverð sem bandarískir neytendur fá að njóta.

Þegar ég heimsæki Bandaríkin hef ég það fyrir sið að fara í pílagrímsför í góða Walmart-verslun. Það er ákveðin upplifun að koma inn í þessi musteri allsnægtanna og sjá það mikla úrval og lága vöruverð sem bandarískir neytendur fá að njóta.

Þessa dagana er ég á flakki enn eina ferðina og fyrr í vikunni heimsótti ég Walmart í suðurhluta Los Angeles. Mig rak í rogastans þegar ég gekk fram hjá vínhillunum því þar blasti rapparinn Snoop Dogg við mér. Gat ég ekki stillt mig um að setja flösku af Snoop Cali Red í körfuna og heiðra þannig konung rappsenunnar hér í LA.

Vínið kemur úr verksmiðju 19 Crimes sem glöggir lesendur muna eftir úr umfjöllun blaðsins í febrúar 2020 þar sem gagnvirkum merkimiðum fyrirtækisins voru gerð skil. Vínbúðin selur tvær tegundir af 19 Crimes en þó ekki Snopp Dogg-vínið.

Allar stjörnur vilja selja vín

Framlag Snoop Dogg á víngerðarsviðinu kallar á vangaveltur um hvaða erindi fræga fólkið á við þennan bransa. Virðist nefnilega að önnur hver popp- og kvikmyndastjarna í Bandaríkjunum finni sig knúna til að fikta við áfengisgerð og helst setja nafnið sitt á flöskuna. Dæmin eru óteljandi og er t.d. draugabaninn Dan Aykroyd duglegur að nota samfélagsmiðla til að auglýsa vodkað sitt, á meðan sprelligosinn Ryan Reynolds kemur reglulega með innslög um Aviator-ginið sitt og vöðvafjallið Dwayne Johnson hóf að selja Teremana-tekíla á síðasta ári. Rapparinn Jay-Z á og rekur kampavínsgerðina Armand de Brignac á meðan 50 Cent starfar með fyrirtækinu Champagne Castelnau að markaðssetningu og sölu kampavínsflaska sem seldar eru á meira en 300 dali stykkið. Eru hér bara nokkur dæmi nefnd.

Vínbarþjónninn André Mack gerði vínflöskum fræga fólksins ágætis skil í nýlegu myndskeiði á YouTube og var niðurstaðan sú að það sé engin trygging fyrir gæðum víns að Nicki Minaj, Madonna eða jafnvel Francis Ford Coppola komi að framleiðslunni. Smakkaði Mack sextán tegundir af víni fræga fólksins og reyndist megnið vera tiltölulega óspennandi drykkir og gæðin sjaldan í samræmi við verðið. Finna mátti nokkrar undantekningar og var Mack sérstaklega hrifinn af rauðvíninu Three by Wade sem kennt er við körfuboltakappann Dwyane Wade.

Um 19 Crimes Snoop Cali Red er það að segja að vínið er mjög auðdrekkanleg Kaliforníublanda af Petite Syrah, Zinfandel og Merlot. Vínið hefur á sér bleikan tón og liturinn er ekki þéttur í sér. Ilmurinn er daufur og tilbrigðalaus en bragðið ávaxtakennt. Rauðvínið hans Snoop Dogg er í senn sætt og þurrt og áhugavert sveskjubragð í forgrunni, sem víkur fyrir rauðum vínberjum og sætum kirsuberjum. Þetta er ekki rétta rauðvínið til að para með góðri nautasteik en ætti að henta vel með ostabakka, hnetum eða einfaldlega til að drekka eitt og sér um miðjan dag.

Kostaði flaskan tæpa 12 dali í Walmart en nóg af öðru rauðvíni í boði á þetta 7-8 dali og er þar sennilega komin skýringin á brennandi áhuga fræga fólksins á vínbransanum enda má reikna með að fimm dala verðmunurinn renni beint í vasa Snoop Dogg. ai@mbl.is