Krónan Ásta Sigríður Fjeldsted og Hörður Már Jónsson skönnuðu vörur og kynntu nýmælið í verslun fyrirtækisins í Lindum í Kópavogi í gærdag.
Krónan Ásta Sigríður Fjeldsted og Hörður Már Jónsson skönnuðu vörur og kynntu nýmælið í verslun fyrirtækisins í Lindum í Kópavogi í gærdag. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Strikamerki eru skönnuð með símanum í gegnum snjallforrit Krónunnar og varan svo sett beint ofan í poka eða innkaupakörfuna.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Strikamerki eru skönnuð með símanum í gegnum snjallforrit Krónunnar og varan svo sett beint ofan í poka eða innkaupakörfuna. Fyrir búðarferð er mögulegt að setja upp stafrænan innkaupalista, það er þegar komið er í búðina er gengið að öllu vísu. Þegar kemur að afgreiðslu í lok búðarferðar sést í símanum samantekt á innkaupunum og hvað greiða skuli. Áður en smáforritið er tekið í notkun hefur viðskiptavinurinn einkennt sig með rafrænum skilríkjum og upplýsingum um greiðslukort – og þannig smellur allt í gegn.

„Þetta er algjörlega ný upplifun fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Krónunnar. Hún kynnti þessa nýju verslunarhætti ásamt starfsfólki í verslun fyrirtækisins í Lindum í Kópvogi í gær. Lausnin sem Krónan býður nú er kölluð Skannað og skundað . Viðskiptavinir hlaða snjallforritinu Snjallverslun Krónunar í símann og skanna inn strikamerki varanna í gegnum myndavél símans. Ítarlegar upplýsingar má finna um hverja vöru sem skönnuð er inn, ásamt mynd.

Hvernig kaupin gerast nú í Krónunni er fjórða tæknibyltingin í hnotskurn. Í Lindum bjóðast nú um það bil 8.000 vörunúmer sem öll má nálgast í snjallforritinu. Forritið er hið sama og býður viðskiptavinum Krónunnar að fá vörur sendar heim eða sækja samanteknar í verslun.

„Flestir ættu að geta tileinkað sér þessa tækni mjög fljótt. Við hefjum vegferðina hér í Lindum. Höldum svo áfram næsta árið, en alls eru verslanir okkar 24 talsins. Við byrjuðum í mars sl. að útbúa þann möguleika að viðskiptavinir gætu skannað vöruna og afgreitt sig þannig sjálfir. Að kannski 10% viðskiptavina séu farnir að nýta sér þessa þjónustu eftir eitt ár væri afar ánægjulegt. Annars segir reynslan okkur að í þessum efnum gerast hlutirnir oft miklu hraðar en spáð hefur verið,“ segir Ásta Sigríður og áfram:

Flýtir afgreiðslu

„Viðskiptaþróunardeild okkar í Krónunni er öflug og starfsfólk okkar höfundar að þessari tæknilausn en við höfum líka átt í samstarfi við Reon um þróun. Auðvitað bjóðum við áfram hefðbundnari lausnir í afgreiðslu verslana okkar. Snjallviðskipti eins og Krónan er komin með nú eru þó komin til að vera, ættu að flýta afgreiðslu og bæta verðvitund.“