Ein þýðingarmesta ákvörðun hvers veiðifélags í veiðivatni er ráðstöfun veiði með samningum við leigutaka, yfirleitt til nokkurra ára í senn.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 var samþykkt á Alþingi á vordögum. Sambærilegt frumvarp var lagt fram á þinginu á undan en náði ekki fram að ganga. Frumvarpinu, sem hefur stundum verið kennt við breska auðkýfinginn Jim Ratcliffe, er ætlað að auka minnihlutavernd í veiðifélögum. Ratcliffe hefur verið afkastamikill í kaupum á veiðirétti í íslenskum lax- og silungsveiðiám en Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi sjávarútvegsráðherra, hefur tekið fyrir að frumvarpið hafi verið lagt fram til höfuðs Ratcliffe eða nokkrum öðrum.

Eins og áður sagði felast breytingarnar helst í styrkingu á minnihlutavernd í veiðifélögum. Í félagaréttinum er minnihlutavernd skilgreind sem hugtak yfir lagareglur og réttarúrræði sem er ætlað að veita hluthöfum sem eru í minnihluta vernd gagnvart óréttmætum ráðstöfunum stjórnenda og ákvörðunum meirihluta hluthafa sem teknar eru á grundvelli meginreglunnar um meirihlutaúrræði. Skýrasta dæmið um minnihlutavernd í lögum um hlutafélög má finna í 95. gr., en ákvæðið setur bann við að hluthafafundur geti tekið ákvarðanir sem eru til þess fallnar að láta öðrum hluthöfum eða öðrum aukna hagsmuni í té á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Í lögum um lax- og silungsveiði er mælt fyrir um skyldu manna til að vera í veiðifélagi og það hlutverk félagsins að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra. Eigendur eða ábúendur jarða sem njóta veiðiréttar fara með eitt atkvæði fyrir hverja jörð á félagsfundi veiðifélags skv. 40. gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt er ein þýðingarmesta ákvörðun hvers veiðifélags í veiðivatni ráðstöfun veiði með samningum við leigutaka, yfirleitt til nokkurra ára í senn. Áður en skylduaðildin að veiðifélögum var lögfest gat hver landeigandi veitt fyrir sínu landi og leigt út sinn veiðirétt. Meginreglan í gildandi lögum er aftur á móti sú að veiðiréttarhöfum er óheimilt að veiða í vatni á félagssvæði sínu nema samkvæmt heimild frá veiðifélaginu.

Lög um lax- og silungsveiði voru síðast endurskoðuð vorið 2006. Færð hafa verið rök fyrir því að ekki hafi verið hugað nægilega vel að vernd minnihluta félagsmanna í veiðifélögum við þá endurskoðun. Þá féllu úr gildi þau fyrirmæli í eldri lögum að ef maður byggi á fleiri en einni jörð skyldi hann engu að síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi. Samkvæmt lax- og silungsveiðilögunum er meginreglan aftur á móti sú að afl atkvæða ræður á aðalfundum og almennum félagsfundum og í lögunum eru þröngar undantekningar frá þessari reglu. Af þessu leiðir meðal annars að meirihluti í veiðifélagi getur komið í veg fyrir að veiðiréttinum sé ráðstafað með útleigu og jafnframt synjað veiðiréttarhafa um að fá að veiða í vatni. Sú staða getur því skapast að veiðiréttarhafi geti hvorki veitt fyrir sínu landi né notið arðs af þessum hlunnindum sínum. Þetta felur í sér töluverða takmörkun á hagnýtingar- og ráðstöfunarrétti viðkomandi veiðiréttarhafa. Í ofanálag er hann skyldugur til aðildar að veiðifélaginu og getur því ekki gengið úr því. Eins og gefur að skilja getur þessi aðstaða verið afar íþyngjandi fyrir veiðiréttarhafa enda hvimleitt að atkvæði í veiðifélagi safnist á fárra hendur vegna þess mikla valds sem meirihlutinn hefur í félögunum.

Í því augnamiði að auka minnihlutavernd eru gerðar talsverðar breytingar á lögunum sem verða ekki gerð fullnægjandi skil hér og því verður fjallað sérstaklega um breytingar á 40. gr. laganna. Þar kemur inn ný 2. mgr. 40. gr. laganna og með henni verður óheimilt að taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins, sbr. áðurnefnda 95. gr. hlutafélagalaga. Þá er einnig lagt til í nýrri 3. mgr. að við ráðstöfun veiðiréttar skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna þurfi samþykki hið minnsta 2/3 hluta atkvæða ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja hagkvæma nýtingu og að ekki sé dregið úr veiði nema fyrir því sé aukinn meirihluti, enda kann tillaga um að draga úr veiði að skaða veiðiréttarhafa fjárhagslega. Loks er lagt til með nýrri 4. mgr. að aukinn meirihluta þurfi til að ráðstafa veiðirétti til félagsmanns í veiðifélaginu sem fer með að lágmarki 30% atkvæða eða til aðila sem tengjast honum. Ákvæðið styðst við þau rök að ráðstöfun veiðiréttar til sjálfs sín kunni við vissar aðstæður að vera ótilhlýðileg. Það þarf þó ekki að vera í öllum tilvikum, t.d. ef veiðiréttarhafi hefur reynslu og þekkingu á þessu sviði. Í slíkum tilvikum væri of víðtækt að banna þá tilhögun. Af þeim sökum er gerð krafa um aukinn meirihluta við þessar aðstæður, en eins og með nýrri 3. mgr. verður að gera ráð fyrir að tillaga um ráðstöfun veiðiréttar til slíks aðila hlyti brautargengi ef um skynsama tilhögun væri að ræða.