Viðræður Bjarni Benediktsson kemur til fundar í Ráðherrabústaðinn í gær.
Viðræður Bjarni Benediktsson kemur til fundar í Ráðherrabústaðinn í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Formenn ríkisstjórnarflokkanna héldu í gær áfram samræðum sínum um endurnýjað stjórnarsamstarf og notuðu Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu til þess. Viðræðurnar hafa að sögn gengið vel, en af samtölum við þingmenn blasir við að innan stjórnarflokkanna eru uppi ólík viðhorf um þýðingu kosningaúrslitanna fyrir frekara samstarf þeirra.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Formenn ríkisstjórnarflokkanna héldu í gær áfram samræðum sínum um endurnýjað stjórnarsamstarf og notuðu Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu til þess. Viðræðurnar hafa að sögn gengið vel, en af samtölum við þingmenn blasir við að innan stjórnarflokkanna eru uppi ólík viðhorf um þýðingu kosningaúrslitanna fyrir frekara samstarf þeirra.

„Þetta er fínasta samtal og það kemur svo sem ekkert á óvart í þessum hópi með það. Það breytir því ekki að kosningar marka nýtt upphaf. Þetta er nýtt verkefni og við þurfum aðeins að gefa okkur tíma í það,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Formennirnir eru sagðir ásáttir um að Katrín leiði endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf ef af verður, en sjálfir undirstrika þeir að samtalið sé óformlegt, verið sé að leita grundvallarins áður en lengra er haldið.

Sagt er að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telji að sér og sínum flokki beri aukið vægi í ríkisstjórnarsamstarfi í samræmi við fylgisaukninguna. Í því samhengi hefur fjármálaráðuneytið sérstaklega verið nefnt. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem blaðið ræddi við, sagði að það væri ekkert trúaratriði fyrir sjálfstæðismenn að vera í fjármálaráðuneytinu. En ef tveir minni flokkarnir í samstarfinu ætluðu sér valdamestu embætti ríkisstjórnarinnar, þá hlytu þeir að eftirláta stærsta flokknum ekki minna en helming annarra ráðuneyta.

Skipting ráðuneyta

Ýmsar bollaleggingar eru uppi um skiptingu ráðuneyta í endurnýjuðu ríkisstjórnarsamstarfi, en eftir því sem blaðið kemst næst hefur það lítið verið rætt af formönnunum. Margir viðmælenda gengu út frá því að í stórum dráttum yrði verkaskipting flokkanna sú sama, nema sérstaklega væri rætt um annað. Bjarni Benediktsson sagði hins vegar að fundi loknum síðdegis í gær að hann teldi ólíklegt að ráðherrastólar yrðu óbreyttir í endurnýjuðu stjórnmálastarfi. Af orðum hans var þó ekki ljóst hvort hann ætti við skiptingu ráðuneyta eða hverjir veldust til þess að gegna ráðherradómi.

Rætt er um að framsóknarmenn vilji ekki aðeins fá fjármálaráðuneytið, heldur fleiri ráðherra. Á hinn bóginn mun hvorugur samstarfsflokkanna viljugur til þess að gefa eftir ráðherrastól. Lausnin kynni að vera að fjölga stólunum, ráðherrar hafa almennt ekki tekið illa í hugmyndir um flutning verkefna og stofnun nýrra ráðuneyta.