Útkall Það var nóg að gera hjá björgunarsveitunum á Ísafirði í gær. Fuku meðal annars þakplötur af sjúkrahúsinu.
Útkall Það var nóg að gera hjá björgunarsveitunum á Ísafirði í gær. Fuku meðal annars þakplötur af sjúkrahúsinu. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aftakaveður reið yfir landið norðan- og vestanvert í gær. Vindhviður fóru yfir 45 metra á sekúndu og mikil slydda og úrkoma var fyrir norðan. Krapastífla myndaðist í Sauðá stuttu eftir hádegi svo enginn straumur var í ánni um margra klukkutíma skeið.

Aftakaveður reið yfir landið norðan- og vestanvert í gær. Vindhviður fóru yfir 45 metra á sekúndu og mikil slydda og úrkoma var fyrir norðan.

Krapastífla myndaðist í Sauðá stuttu eftir hádegi svo enginn straumur var í ánni um margra klukkutíma skeið. Götum var lokað og nokkrar íbúðir rýmdar á svæðinu. Hafdís Einarsdóttir, formaður Björgunarsveitar Skagfirðingasveitar, segir daginn annars hafa verið nokkuð rólegan hjá björgunarsveitinni. „Við fengum ekki mörg verkefni en þurftum að losa tvo bíla. Fólk fylgdi að mestu leyti fyrirmælum og hélt sig heima.“

Í Hrútafirði fauk rúta út af vegi við Heggstaðanessafleggjara. 37 ferðamenn voru í rútunni en þeim var fljótlega komið í öruggt skjól á hóteli í grenndinni. Guðrún Gróa, lögreglumaður á Blönduósi, segir daginn hafa verið annasaman hjá lögregluembættinu en þó í jafnvægi. „En það er hundleiðinlegt veður,“ bætti Guðrún við.

Óvenjulegur stormur

Þrjár rafmagnslínur slógu út snemma í gær vegna veðurs en það voru Húsavíkurlína, Laxárlína og Mjólkárlína. Húsvíkingar voru rafmagnslausir vegna þessa um tíu mínútna skeið klukkan 8 í gærmorgun. Steinunn Þorkelsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir fólk þar hafa búið sig vel undir veðrið: „Maður veit aldrei hvernig veðrið verður svo á endanum en við erum eins vel undirbúin og við mögulega getum. Svo fylgjumst við auðvitað vel með framvindunni og þróuninni á veðrinu og bregðumst við eftir þörfum.“

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, segir veðrið um margt sérstakt: „Það sem er sérstakt og óvenjulegt er það að lægðin fer frá austri til vesturs, það er svo sem ekkert einsdæmi en það er miklu algengara að þær fari hina leiðina, komi úr suðvestri yfir landið. Þetta er vegna þess að háloftavindarnir eru dálítið snúnir,“ segir Einar. Honum þykir það sömuleiðis óvenjulegt að óveður sem þetta skelli á landið svo snemma haustsins.