Muu Þegar náttúran kallar þá mætir sæðingamaðurinn strax á svæðið.
Muu Þegar náttúran kallar þá mætir sæðingamaðurinn strax á svæðið. — Morgunblaðið/SBS
Það er svo margt undarlegt í þessu lífi – og verður bara undarlegra eftir því sem árunum fjölgar. Ég hef aðeins einu sinni á ævinni, sem alltaf er að verða lengri, heyrt skrýtlu um sæðingamenn.

Það er svo margt undarlegt í þessu lífi – og verður bara undarlegra eftir því sem árunum fjölgar. Ég hef aðeins einu sinni á ævinni, sem alltaf er að verða lengri, heyrt skrýtlu um sæðingamenn. Það var í útvarpinu á leið til vinnu fyrir allmörgum árum, að mig minnir í morgunþætti Gulla og Heimis á Bylgjunni.

Ég man ekki lengur hvernig skrýtlan var en mér þótti hún í öllu falli nógu fyndin til að endurtaka hana á morgunfundi hér á ritstjórninni þennan sama dag. Við vorum nokkur samankomin á fundinum, þar á meðal nýr maður sem ég þekkti lítið sem ekkert, í láni frá annarri deild á blaðinu. Ég hafði ekki fyrr afgreitt skrýtluna en hann tók til máls – í hálfum hljóðum: „Já, já, við sæðingamenn erum ýmsu vanir.“

Ég roðnaði vitaskuld og blánaði á víxl og stemningin á fundinum var dálítið skrýtin eftir þetta. Af öllu mögulegu í þessum heimi var nýi maðurinn þá akkúrat með bakgrunn í sæðingum. Ábyggilega sá eini sem hér hefur starfað í 108 ára sögu blaðsins, þótt ég þori auðvitað ekki að fullyrða um það. Og hann var ekki að grínast, það sannreyndi ég að sjálfsögðu eftir á.

Hverjar eru líkurnar á þessu?

Orri Páll Ormarsson