Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Þegar veiran byrjaði að herja á okkur í upphafi árs 2020 stöðvaðist tíminn í mörgum skilningi. Lífið tók sér pásu og biðin eftir tilverunni eins og hún var fyrir faraldurinn hófst.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Þegar veiran byrjaði að herja á okkur í upphafi árs 2020 stöðvaðist tíminn í mörgum skilningi. Lífið tók sér pásu og biðin eftir tilverunni eins og hún var fyrir faraldurinn hófst.

Við höfum á tímabilinu þurft að bíða eftir að nýjar takmarkanir tækju gildi, bíða eftir að komast aftur í vinnu og skóla og bíða eftir því að lífið færðist aftur í samt lag með öllu því sem okkur þótti sjálfsagt fyrir faraldurinn.

Spurningin er hvort þessi óvænta reynsla muni þegar til lengri tíma er litið hafa kennt okkur að meta lífið betur og það sem það hefur upp á að bjóða. Vafalaust eiga eftir að verða skrifaðar lærðar greinar á komandi misserum og árum um þennan skrýtna tíma og áhrif hans á okkar langlundargeð og tilfinningalíf.

Í gær var nýjasta James Bond-myndin, No Time To Die , frumsýnd í London við hátíðlega athöfn en upphaflega átti að frumsýna myndina í apríl árið 2020, stuttu eftir að faraldurinn hafði sett allt í frost. Að vissu leyti markar frumsýningin ákveðin tímamót. Líta má á hana sem ákveðið merki þess að búið sé að ná tökum á faraldrinum. Þegar Hollywood treystir sér til að frumsýna jafn dýra mynd í bíó og raun ber vitni, sé það til marks um að draumaverksmiðjan trúi því að áhorfendur séu tilbúnir til að mæta aftur til fyrra lífs og fara í kvikmyndahús. Framleiðendur trúa því væntanlega núna að myndin nái að borga sig upp og rúmlega það.

Líklega hafa framleiðendur einnig talið að ekki væri hægt að bíða öllu lengur. Leikararnir hafa elst, bílarnir og tæknin í myndinni sömuleiðis og stutt væri í að fólk liti hreinlega á kvikmyndina sem gamla Bond-mynd, sem hún er auðvitað ekki.

No Time to Die verður frumsýnd á Íslandi í byrjun október. Við Íslendingar getum þá líka hætt að bíða.