Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki barst staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi. Þetta las Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, upp í bókun að loknum fundi hennar í gær.

Ekki barst staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi. Þetta las Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, upp í bókun að loknum fundi hennar í gær. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem landskjörstjórn gefur út slíka yfirlýsingu eftir þingkosningar. Það er nú í höndum Alþingis að skera úr um það hvort þingmenn kjördæmisins séu löglega kosnir eða hvort skortur á staðfestingunni sé næg ástæða til þess að ógilda kosninguna.

Ekki annað í stöðunni

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talsmaður Pírata, segir ekkert annað í stöðunni en að boðið verði til svokallaðrar uppkosningar, það er að kosið verði aftur í kjördæminu.

-Teljið þið í Pírötum að ógilda ætti kosninguna?

„Já, okkar oddviti er náttúrulega búinn að kæra þessa framkvæmd og fer fram á endurtalningu. Við erum sammála honum,“ segir Þórhildur Sunna. Í kjölfarið finnst þeim að boða skuli til uppkosningar.

„Við sjáum ekki hvað er annað í stöðunni og mér sýnist landskjörstjórn vera að segja það sama.“

Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi, tekur í sama streng en hann datt út af þingi í kjölfar endurtalningar í kjördæminu. „Ég er ekki að sjá, í lýðræðisþjóðfélaginu lýðveldi Íslands, að það sé að fara að gefa út kjörbréf á þingmenn sem byggja setu sína á þessari gölluðu talningu,“ segir Karl Gauti.

Traust Alþingis sé í húfi ef ákveðið verði að „vaða í gegnum skaflinn“ og láta sem ekkert sé. ari@mbl.is