[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Íbúðum í byggingu fækkar um 18% milli ára samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins. Framkvæmdastjóri SI segir of lítið byggt.

Samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins, SI, á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu heldur íbúðum í byggingu þar áfram að fækka og hefur nú fækkað samfellt frá því í mars 2019. Nú eru 3.387 íbúðir í byggingu samkvæmt talningunni. Ekki hafa færri íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í á fimmta ár eða síðan í mars 2017.

Sé horft til talningar SI á síðasta ári leiðir niðurstaðan nú í ljós 18% samdrátt milli ára.

Of lítið byggt miðað við þörf

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI segir í samtali við ViðskiptaMoggann að talningin sýni að of lítið sé byggt miðað við þörfina á markaðnum. „Það skiptir gríðarlegu máli að taka á vandamálinu núna. Þessi skortur birtist í verðhækkunum og aukinni verðbólgu og þar af leiðandi hærri stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem snertir heimili landsins og fyrirtæki.“

Sigurður segir að ástandið kalli á skýra ábyrgð og yfirsýn innan stjórnarráðsins með innviðaráðuneyti með frekari skipulagsbreytingum innan málaflokksins. Færa þurfi málaflokka yfir til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem verði hið nýja innviðaráðuneyti. Segir Sigurður að skipulagsmál þurfi að fara úr umhverfisráðuneyti yfir til hins nýja ráðuneytis. Að öðrum kosti verði ekki neitt úr neinu og uppbygging verði áfram óskilvirk með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. „Það er algjört grundvallaratriði að gera þessar breytingar ef við sem samfélag viljum stöðugri húsnæðismarkað. Það þarf nauðsynlega að einfalda umhverfi bygginga- og mannvirkjagerðar.“

Sveitarfélög komi að málum

Þá segir Sigurður að sveitarfélögin þurfi að koma hressilega að málum, enda fari þau með skipulagsvald og leyfisveitingar.

Um stýrivaxtahækkanir Seðlabankans segir Sigurður það þyngra en tárum taki að SÍ hafi þurft að hækka stýrivexti vegna skipulagsmála í Reykjavík og vísar þar til orða seðlabankastjóra í sumar um að sú ákvörðun að brjóta ekki nýtt land undir byggð í Reykjavík hefði mikil langtímaáhrif.