Sigurlína hyggst leggja sitt af mörkum til að byggja upp hugverkaiðnaðinn á Íslandi enda hokin af reynslu.
Sigurlína hyggst leggja sitt af mörkum til að byggja upp hugverkaiðnaðinn á Íslandi enda hokin af reynslu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Unnur Freyja Víðisdóttir unnurfreyja@mbl.is Það eru fáir Íslendingar sem komast með tærnar þar sem Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir hefur hælana í heimi tölvuleikjaframleiðslu en hún hefur starfað við fagið í fimmtán ár, þar af níu ár erlendis.

Unnur Freyja Víðisdóttir unnurfreyja@mbl.is Það eru fáir Íslendingar sem komast með tærnar þar sem Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir hefur hælana í heimi tölvuleikjaframleiðslu en hún hefur starfað við fagið í fimmtán ár, þar af níu ár erlendis. Afrekin sem hún hefur unnið á ferli sínum eru mörg en til að mynda stjórnaði hún framleiðslu á tölvuleikjunum Star Wars: Battlefront og FIFA. Nýlega fluttist Sigurlína aftur til Íslands og hyggst hún nú nýta þá viðamiklu reynslu og þekkingu sem hún hefur safnað í gegnum árin til þess að styðja við uppbyggingu hugverkaiðnaðarins hér heima.

Sigurlína er Reykvíkingur, tveggja barna móðir og iðnaðarverkfræðingur að mennt en hún starfaði bæði við verkefnastjórnun og viðskiptaþróun hjá Actavis og Högum eftir útskrift. Það var svo fyrir slysni sem hún endaði í tölvuleikjabransanum þegar hún fékk vinnu hjá íslenska tölvuleikjaframleiðandanum CCP árið 2006.

„Þar hófst svolítið minn tölvuleikjaferill. Hjá CCP fór ég að vinna sem framleiðandi án þess þó að vita mikið um hvað tölvuleikjaframleiðendur gerðu eða hvernig tölvuleikir væru yfirhöfuð búnir til. Þar byrjaði ég á að vinna sem framleiðandi á tölvuleiknum Eve Online og vörum honum tengdum. Einnig vann ég að því að koma leiknum út á Macintosh- og Linux-tölvum en þá var aðeins hægt að spila hann á PC,“ segir hún. „Svo fór ég í fæðingarorlof og þegar ég kom aftur til starfa eftir orlofið var ég meira að vinna við skipulagningu á þróunarverkefnum á alþjóðlegum vettvangi, bæði á Íslandi, í Kína og í Bandaríkjunum. Alls voru þetta fimm mjög skemmtileg ár sem ég vann hjá CCP.“

Starfstilboð að utan reyndist heillaspor

Eftir fimm góð ár hjá CCP bauðst Sigurlínu spennandi starfstilboð að utan sem fól í sér að taka við leik hjá sænska fyrirtækinu Ubisoft. Eftir nokkra umhugsun ákvað hún að taka tilboðinu en síðan þá hefur leið hennar í tölvuleikjaheiminum aðeins verið upp á við. Innt eftir því segir Sigurlína tvennt standa upp úr á ferlinum.

„Annars vegar gaf ég út tölvuleikinn Star Wars: Battlefront en sá leikur komst í heimsmetabók Guinness fyrir að vera mest seldi Star Wars-tölvuleikur allra tíma. Hins vegar vann ég nýja framtíðarstefnu fyrir EA Sports FIFA, með það að markmiði að láta FIFA-leikina höfða til breiðari og alþjóðlegri hóps en þeir höfðu gert áður. Sú stefna varð til þess að konur urðu mun meira áberandi í leikjunum en þær höfðu verið áður, sérstaklega í FIFA Volta sem er ný viðbót við FIFA.“

Gerðist „Covid-flóttamaður“

Sigurlína hefur einnig starfað í Kanada og nú síðast hjá sprotafyrirtækinu Bonfire Studios í Bandaríkjunum. Í kórónuveirufaraldrinum hafi hún þó fundið sig knúna til þess að flytja aftur heim til Íslands.

„Síðasta sumar gerðist ég Covid-flóttamaður og flutti aftur heim. Það stóð ekkert til að flytja heim en við fjölskyldan tókum þessa ákvörðun í sameiningu og erum mjög ánægð með hana. Það að upplifa faraldurinn og samfélagslegar róstur í Bandaríkjunum í forsetatíð Trumps var mjög óþægilegt. Á meðan fylgdist maður með úr fjarlægð hvernig Íslendingar tóku á málinu af mikilli yfirvegun og skynsemi,“ segir hún. „Það er líka gott að búa í landi þar sem fólk er almennt séð frekar skynsamt og trúir því sem vísindamenn og sérfræðingar segja, eitthvað sem reyndist því miður ekki vera raunin á mörgum stöðum í Bandaríkjunum. Á meðan Íslendingar lifðu tiltölulega eðlilegu lífi og gátu ferðast innanlands hittum við engan. Í raun vissum við ekkert hvernig hlutirnir myndu þróast og höfðum ekki mikla trú á aðgerðum stjórnvalda í Bandaríkjunum, sérstaklega fyrst um sinn.Við sáum einnig fram á að dætur okkar þyrftu að vera í fjarnámi langt fram eftir vetri sem okkur leist mjög illa á, bara upp á félagslega einangrun að gera.“

Situr í stjórn fimm fyrirtækja

Sigurlína hefur þó ekki setið auðum höndum frá því hún kom heim en ásamt því að starfa áfram lítillega fyrir Bonfire Studios og sem sjálfstæður ráðgjafi hjá fyrirtæki sínu Ingvarsdóttir ehf. situr hún í stjórn þriggja fyrirtækja í hugverkaiðnaðinum á Íslandi. Þá situr hún einnig í stjórn hátæknifyrirtækis og í stjórn hjá nýjum fjárfestingarsjóði.

„Ég er í stjórn hjá Aldin, sem framleiðir sýndarveruleikatölvuleiki. Svo er ég í stjórn hjá Solid Clouds sem framleiðir leiki fyrir PC-tölvur og síma og hjá Mussila sem framleiðir leikjaefni fyrir börn. Þá er ég einnig í stjórn hjá nýjum fjárfestingarsjóði sem heitir Eyrir Vöxtur, sem fjárfestir í vaxtarfyrirtækjum og hjá græna orkufyrirtækinu Carbon Recycling International. Þar er ég svolítið komin aftur í ræturnar og er að nýta mér iðnaðarverkfræðigráðuna frá því í gamla daga sem ég hef ekki notað mikið fram að þessu. Þar er ég að setja mig inn í iðnaðarframleiðslu, orkuskipti og hvernig þarf að breyta orkuiðnaðinum svo að við getum dregið úr losun á koltvísýringi.“

Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds var tekið til viðskipta á First North-hliðarmarkaði Kauphallarinnar 12. júlí sl. Sigurlína segir skráninguna hafa margþætta þýðingu fyrir fyrirtækið.

„Fyrir það fyrsta gerði þessi skráning fyrirtækinu fært að sækja talsvert mikið fjármagn til þess að fjármagna útgáfu á næsta leik. Frumútboð félagsins skilaði félaginu 725 milljóna króna fjármögnun og heildarmarkaðsvirði upp á 2,3 milljarða króna,“ segir hún. „Það gefur því líka hærri prófíl, sérstaklega innanlands en líka erlendis sem hjálpar fyrirtækinu við ráðningar. Það gefur því líka færi á að bjóða upp á kauprétt, þar sem bréfin eru á seljanlegum markaði sem laðar líka að starfsmenn. Það er ekki algengt fyrir yngri fyrirtæki. Fyrirtæki erlendis eru mjög vön því að gefa kauprétti en íslensk fyrirtæki hafa ekki gert eins mikið af því.“

Innt eftir því segir Sigurlína Solid Clouds hafa ákveðið forskot á markaðnum þar sem fyrirtækið hafi nú þegar lokið ákveðinni grunnvinnu sem er mikilvæg í tölvuleikjaframleiðslu.

„Solid Clouds hefur byggt upp bæði hugmyndaheiminn Starborne, sem fyrsti leikurinn þeirra gerist í, og svo ákveðinn tæknigrunn. Það fer mikil vinna í að byggja upp þetta tvennt en þegar þessari vinnu er lokið tekur styttri tíma að byggja aðra leiki ofan á þennan grunn,“ segir hún. „Þennan grunn gat fyrirtækið nýtt sér við framleiðslu á nýjasta leik þess, Frontiers. Með því að leggja svo áherslu á að koma leikjunum út á bæði PC-tölvur og farsíma opnast alveg gríðarlega stór markaður sem fyrirtækið getur sótt á.“

Stafræna kennslubyltingin rétt að byrja

Hvað fyrirtækið Mussila varðar segist Sigurlína sjá mikil tækifæri í stafrænu kennsluefni ætluðu börnum.

„Það sást svo glöggt í faraldrinum, þegar börn gátu ekki farið í skólann, hvað foreldrar voru miklu opnari fyrir stafrænu kennsluefni fyrir börnin sín. Það má alveg gera ráð fyrir því að það verði gríðarlegur vöxtur í þessum geira úti um allan heim á komandi árum.“

Börn hafa mikinn áhuga á tækninni

Þá sé hefðbundin kennsla á vissum tímamótum en börn nútímans hafi mikinn áhuga á tækni.

„Með því að nýta tæknina í kennslu er hægt að gera námið skemmtilegra og meira aðlaðandi fyrir börn. Ég held að við séum bara að sjá byrjunina á stafrænu kennslubyltingunni.“

Í samtali við Morgunblaðið 21. september síðastliðinn greindi Óskar J. Sandholt, sviðsstjóri þjónustu og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar, frá því að borgin hygðist ráðast í umfangsmikil kaup á tækjabúnaði fyrir nemendur og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi á næstu tveimur og hálfu ári. Þar með talið eru bekkjarsett af spjaldtölvum eða Chromebook-tölvum fyrir alla nemendur í unglingadeildum. Aðspurð segist Sigurlína vel sjá tækifæri til samstarfs milli Mussila og Reykjavíkurborgar í þessum efnum, sé áhugi fyrir því.

„Nú er mér ekki kunnugt um að samtal sé í gangi á milli Mussila og Reykjavíkurborgar en ég veit hins vegar að fyrirtækið hefur gert samning við Kópavogsbæ um notkun á kennsluefni þess. Samskonar samningar hafa verið gerðir við einstaka skóla bæði hérlendis og erlendis. Ef Reykjavíkurborg er að sækja fram á þessi mið er ég mjög spennt fyrir því að það hefjist samtal milli Mussila og borgarinnar.“

Orðinn fjórða stoðin

Í samtali við viðskiptablað Morgunblaðsins 9. desember 2020 greindi Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, frá því að hugverkaiðnaðurinn væri orðinn fjórða stoð gjaldeyrisöflunar íslenska þjóðarbúsins til viðbótar við sjávarútveg, ál- og kísiljárnframleiðslu og ferðaþjónustu. Innt eftir áliti á þessari staðhæfingu Ingólfs segist Sigurlína telja hugverkaiðnaðinn mjög „vænlega“ fjórðu stoð.

„Ég tel mjög skynsamlegt að fjárfesta í hugverkaiðnaði og styðja við hann með ráðum og dáð því innan hans eru krefjandi, skemmtileg og velborgandi störf sem skapa verðmæti án þess að ganga á auðlindir eða náttúruna,“ segir hún.

„Miðað við stærð landsins held ég að við séum í ágætis málum. Staðan gæti verið þannig að hér væri ekkert tölvuleikjafyrirtæki en ég held að við höfum líka tiltölulega mikið rými til að vaxa og gera enn betur. Ég held að við séum ekki nærri neinum þolmörkum hvað það varðar.“

Samt sem áður er mikil samkeppni um hæft starfsfólk í geiranum og er leiðin til að mæta þeirri eftirspurn annars vegar að mennta fleiri í þessum fögum og að gera Ísland að aðlaðandi stað fyrir fólk til þess að búa á og búa til tölvuleiki, að sögn Sigurlínu.

„Það hafa verið stigin skref í átt að því að mennta fólk á þeim sviðum sem nýtast í tölvuleikjaframleiðslu og það eru ákveðnir innviðir til staðar en ég held að þetta sé frekar spurning um hvort fólk átti sig nógu vel á því að það sé mögulegt að mennta sig til þess að vinna í tölvuleikjum. Ég held að það mætti leggja meiri áherslu á að kynna þann kost sem vænleg störf fyrir bæði nútíðina og framtíðina.“

Mikil tækifæri í hugverkaiðnaðinum

Sigurlína hyggst leggja sitt af mörkum í þágu greinarinnar. „Það eru tækifæri til þess að styðja innviðina enn betur, laða að erlenda sérfræðinga og skapa enn frekari hvata í umhverfinu fyrir þessi fyrirtæki. Landfræðileg lega Íslands kemur ekki í veg fyrir það að við getum búið til tölvuleiki á heimsmælikvarða, eins og CCP hefur sýnt. Svíþjóð og Finnland eru góð dæmi um lítil hagkerfi með mjög stóran tölvuleikjaiðnað en nokkrir af stærstu tölvuleikjum heims eru einmitt framleiddir þar,“ segir hún.

Eftir að hafa unnið hjá stórum alþjóðlegum félögum í geiranum hefur Sigurlína ekki aðeins safnað að sér gríðarlegri þekkingu og reynslu heldur hefur hún einnig byggt upp tengslanet sem spannar bæði Evrópu og Norður-Ameríku.

„Á Íslandi er mikil þróunarþekking til staðar en minni markaðs- og útgáfuþekking. Það sem ég hyggst gera hér heima er að styðja við fyrirtækin, annars vegar með því að deila minni eigin reynslu og þekkingu og hins vegar draga að þeim þekkingu annars staðar frá, hvort sem það er með því að koma þeim í samband við erlenda sérfræðinga, fjárfesta eða hjálpa til með ráðningar.“

Hef oft verið eina konan í herberginu

Á leið sinni upp metorðastigann upplifði Sigurlína oftar en ekki að umhverfið væri hagfelldara karlmönnum heldur en henni en hugverkaiðnaðurinn hefur löngum verið karllægur iðnaður.

„Ég hef oft verið eina konan í herberginu með fullt af karlmönnum og þá hef ég stundum upplifað mig sem einhverja geimveru, sem getur verið einmanalegt en ætli ég sé ekki orðin vön því núna,“ segir hún.

Snemma á ferlinum hafi hún því tamið sér að standa ætíð fast á sínu, enda þrjósk og seig að eðlisfari, að eigin sögn.

„Ég þurfti svolítið að skipta um linsu í hausnum á mér. Ef ég var t.d. á leiðinni í launaviðtal þá hugsaði ég fyrst hvað ég vildi biðja um í laun og svo hvað Mummi, gamli bekkjarbróðir minn úr verkfræðinni, myndi biðja um.“

Iðnaðurinn er þó að breytast hægt og rólega hvað þetta varðar og í kjölfar Me too-hreyfingarinnar hafi konur orðið meira áberandi í tölvuleikjaheiminum, að sögn Sigurlínu.

„Tölvuleikjaframleiðendur eru loksins farnir að átta sig á því að allir spili tölvuleiki, ekki bara karlmenn. Vörurnar eru því ekki jafn einsleitar og þær voru.“

Á ferlinum skipti það Sigurlínu miklu máli að hafa góðar kvenkyns fyrirmyndir, hvort sem þær voru raunverulegar eða ekki. Þess vegna reyni hún að vera eins sýnileg og hún getur í dag.

„Ef ég er t.d. beðin um að tala við krakka í skólum þá segi ég alltaf já, því það er svo mikilvægt að ungar konur sjái að það er einhver kona að gera það sem þær langar að gera.“